– Frábær aðstaða og dásamlegt umhverfi fyrir brúðkaup
„Við klæðskerasníðum brúðkaupin eftir þörfum okkar viðskiptavina. Þetta er ekki okkar dagur – þetta er þeirra dagur,“ segir Sverrir Steinn Sverrisson, annar staðarhaldara í húsi Héraðsskólans á Laugarvatni, en þar hefur Sverrir, ásamt vini sínum Sveini Pálssyni, rekið hótel, veitingastað og upplýsingamiðstöð fyrir ferðaþjónustu frá árinu 2013. Þeir félagar eru jafnframt með brúðkaupsþjónustu en á staðnum er frábær aðstaða og dásamlegt umhverfi fyrir brúðkaup.
Héraðsskólinn á Laugarvatni er einstakt verk í sögu íslenskrar byggingarlistar en Guðjón Samúelsson hannaði húsið. Halldór Laxness sat þarna við skriftir á fjórða áratug síðustu aldar og skrifaði eitt af sínu frægustu verkum, Sjálfstætt fólk. „Andinn er einstakur í þessu húsi,“ segir Sverrir en við endurbætur á húsinu var kappkostað að viðhalda upprunalegri ásýnd þess og varðveita söguna.
„Við vinnum með flottasta matreiðslumeistara Bláskógabyggðar sem sér algjörlega um útfærslu á brúðkaupsveislum og öðrum stærri viðburðum með okkur. Í þessum efnum er nánast ekkert sem við bjóðum ekki upp á. Þetta snýst bara um hve veglegt brúðkaup viðkomandi brúðhjón vilja halda. Við útfærum þetta í samráði við þau. Fyrsta skrefið er að hafa samband við okkur. Þá mætum við til fundar með þeim og matreiðslumeistaranum og það er farið yfir alla þætti brúðkaupsins. Hvar ætlar fólk að láta gefa sig saman? Athöfnin getur verið beggja megin hússins, á grasflötinni beint fyrir framan húsið eða fyrir aftan húsið og jafnvel uppi í hlíðum Laugarvatnsfjalls. Einnig er hægt að nýta einhverja af fjölmörgum kirkjum hérna í nágrenninu og koma síðan hingað í veisluna,“ segir Sverrir.
Þegar brúðkaup er haldið í Héraðsskólanum gista yfirleitt gestir í húsinu, hluti þeirra eða allir. Brúðhjónin taka allt húsið á leigu í einn sólarhring eða jafnvel tvo, eftir því hvort þau vilja verja allri helginni með gestunum eða einum sólarhring. Allir gestir fá morgunverð á staðnum sem er ómissandi partur af samverustundinni.
Sverrir segir að vitanlega séu brúðkaup misdýr eftir því hve íburðarmikil brúðhjónin vilji hafa þau. Hins vegar leggur Héraðsskólinn áherslu á að verðleggja alla kostnaðarþætti mjög sanngjarnt. Sem dæmi um hverjar óskir brúðhjóna um veitingar í veislunni geta verið sértækar nefnir Sverrir til sögunnar brúðhjón sem höfðu svo ákveðnar hugmyndir um matinn að niðurstaðan varð sex rétta seðill þar sem allir réttirnir voru bornir fram á diskum sem framreiddir voru í tveimur eldhúsum Héraðsskólans til þess að tímasetningar og gæði matar næðu að fylgjast að. Einfalda leiðin er síðan að vera með hlaðborð. En hvaða kostir eru algengir á hlaðborði?
„Við leggjum mikið upp úr íslensku hráefni, erum með fiskmeti, lamba- og hreindýrakjöt, svo fátt eitt sé nefnt,“ segir Sverrir en ítrekar um leið að það séu óskir brúðhjónanna sem ráði veisluföngunum og þeir séu tilbúnir að uppfylla nánast hvaða óskir sem er.
Sverrir bætir við í léttum dúr að hjónabönd þeirra sem halda brúðkaup sitt að Héraðsskólanum á Laugarvatni endist. „Fólk sem hefur gift sig hér er ennþá gift,“ segir hann.
Nánari upplýsingar í síma: 537-8060
Heimasíða Héraðsskólans
Facebook-síða Héraðsskólans