Bragðlaukarnir á flug út í heim
Fiskfélagið opnaði í gamla kjallaranum í hinu sögulega Zimsenhúsi árið 2008 og hefur frá upphafi skapað sér þann sess að vera einstaklega spennandi veitingahús. Það var Lárus Gunnar Jónasson, eigandi og meistarakokkur, í félagi við teymi hans af orkumiklum og hressum kokkum, sem hleypti nýju lífi í húsið með undraverkum í matargerð.
Jökull Tandri Ámundason veitingastjóri segir að kokkar Fiskfélagsins, undir handleiðslu Ara Þórs Gunnarssonar yfirmatreiðslumanns, bjóði gestum sínum daglega í ferðir kringum Ísland og heimsreisur á víð og dreif um heiminn – án þess að þeir þurfi að fara frá borðinu.
„Það gerum við með skapandi réttum og því besta sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða. Með þessum hætti verður matarreynsla gestanna ólík nokkurri annarri í Reykjavík. Innrétting staðarins var í öruggum höndum hönnuðarins Leifs Welding og eigandans sjálfs; Lárusar Gunnars. Eins og við segjum gjarnan þá eru lykilorð eldhússins okkar tilraunastarfsemi og andstæður en það eru einmitt hugtökin að baki hönnun og sköpun Fiskfélagsins. Í takt við það eru innréttingarnar hér sveipaðar ævintýraljóma en eru þó heimilislegar og andrúmsloftið í sama dúr. Við notum gamaldags, sjarmerandi postulínsdiska undir gómsæta fiskinn okkar og lambakjötið en stellið er gert af fyrirtækinu Figgjio í Noregi. Það er gaman að geta þess að diskarnir voru upprunalega hannaðir sérstaklega fyrir Fiskfélagið en eru nú fáanlegir á heimsvísu vegna gífurlegrar eftirspurnar.“
„Réttirnir eru gerðir með norrænum „fusion“-blæ, en þó byggðir á grunni hefðbundinna íslenskra rétta,“ segir Jökull. „Svo við bjóðum ekki einungis upp á ferðir um íslenska náttúru heldur eru kokkarnir á Fiskfélaginu þekktir fyrir að virkja bragðlaukana og senda þá á flug út í heim.“
Í hádeginu eru bæði þriggja og fjögurra rétta matseðlar í boði á Fiskfélaginu auk þess sem þá er hægt að gæða sér á nokkrum réttum sem eru annars ekki í boði á kvöldin og eru á sanngjörnu verði, þar á meðal má nefna franska sushi-ið og humarsalatið.
„Um þessar mundir er saltfiskurinn að slá í gegn ásamt humarforréttinum. Klassískir réttir sem hafa staðið óbreyttir frá opnun Fiskfélagsins eru svínasíðan okkar í forrétt, bleikjan í aðalrétt og tiramisú-ið í eftirrétt. Svo segir það sig sjálft að fiskisúpan okkar er ógleymanleg,“ segir Jökull brosandi. „Hægt er að nálgast umræddar uppskriftir og fleiri í matreiðslubókinni okkar „Umhverfis Fiskfélagið“ sem fæst hjá okkur í Grófinni.“
Fiskfélagið
Vesturgötu 2a – Grófartorg
101 Reykjavík
Sími: 552-5300.