Egill Viggósson hefur í félagi við son sinn látið gamlan draum rætast og keypt sér stórglæsilegan fornbíl, nánar tiltekið Chevrolet Corvette árgerð 1974. Bíllinn er einstaklega glæsilegur eins og myndirnar bera með sér. Hann er fluttur inn frá Bandaríkjunum:
„Ég og sonur minn ræddum þetta og vorum sammála um að við gætum ekki sleppt þessu tækifæri. Bíllinn er gullfallegur og allur nýuppgerður. Það þarf reyndar að taka hann í gegn að innan.“
Hann segir að bíllinn sé kraftmikill þó að það hafi ekki verið markmiðið:
„Ég var í sjálfu sér ekki að leita að hestaflafjölda en þessi er með nýrri vél sem er mun kraftmeiri en upprunalega vélin eða 350 hestöfl í stað 260 hestafla eins og vélarnar voru upphaflega í þessum bílum.“
Að sögn Egils er bíllinn bara ætlaður til sparinota:
„Þetta er bara svona fyrir sunnudaga og í sólinni. Núna er vorhugur í mönnum og fornbílarnir fara bráðum að sjást á götunum.“