Óþarfi að neita sér um það besta í lífinu – kolvetnin!
Margir velja að fara á matarkúra til að halda þyngdinni í skefjum, með ansi misjöfnum árangri þó. Kúrar eins og Atkins og Paleo-mataræði hafa verið vinsælir undanfarin ár, en þeir eiga það sameiginlegt að hvetja til niðurskurðar í neyslu kolvetna.
En hver elskar ekki pasta, hrísgrjón, nýbakað brauð og gómsæta kartöflurétti? Einmitt – við elskum (öll) kolvetni!
Heidi Powell, er vinsæll þjálfari og höfundur nokkurra megrunarbóka. Hún gaf nýlega út bókina Extreme Transformation: Lifelong Weight Loss in 21 Days (!), ásamt manni sínum Chris. Heidi segir að kolvetnasnautt mataræði geri hana og flesta sem hún þekkir, skapvonda og pirraða. „Svona mataræði minnir mig á djúskúra. Fólk sem þráir skyndilausnir grípur til þeirra. Þeir virka kannski smá stund, en fljótlega ferðu aftur á byrjunarreit.“
Í megrunarheiminum virðist mildari afstaða til kolvetna vera að ryðja sér rúms. Í stað þess að taka þau alveg út úr mataræðinu, til að missa þyngd og viðhalda þyngdartapi, segja sérfræðingar núna að það þurfi bara að nálgast þau á klókan hátt.
Ein nálgunin sem mikið er talað um núna er kölluð „carb cycling“ (kannski gætum við sagt kolvetnahringrás á íslensku), og hefur lengi verið við lýði í vaxtarræktarheiminum.
Í bók Heidi, og Chris, er því haldið fram að árangur af þessari tegund mataræðis sé sá sami og næst fram með kolvetnasnauðu mataræði, en það hafi betri áhrif á efnaskiptin.
Munurinn er sá að í „carb cycling“ eru sumir dagar kolvetnaríkir en aðrir alveg snauðir. Í bókinni setja þau hjón upp þriggja vikna áætlun þar sem fjórir fyrstu dagar vikunnar eru kolvetnaríkir, þá koma tveir kolvetnasnauðir og svo einn svindldagur.
Á vefnum bodybuilding.com er að finna grein um „carb-cycling“ þar sem fimm lykilatriði eru tilgreind:
Best er að taka kolvetnadaga á þyngstu æfingadögunum.
Vökvasöfnun á kolvetnadögum er eðlileg.
Best er að velja flókin kolvetni, og halda sig frá vörum sem innihalda glúkósasýróp (high fructose corn syrup).
Minnkaðu fituinntekt á kolvetnadögum.
Haltu þig innan þess hitaeiningafjölda sem þú vilt fá daglega.