fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
FókusKynning

Gömlu árin renna eins og Elliðaárnar inn og út úr heiminum

Kynning

Einar Már Guðmundsson var fermdur árið 1968

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 28. febrúar 2016 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stórhöfundurinn Einar Már Guðmundsson, sem nýlega hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Hundadagar, sem fjallar um Jörund hundadagakonung, man vel eftir fermingunni sinni en ekki síður tímanum og tíðarandanum. Hann sýnir lesendum hér tvær myndir og eftirfarandi hugleiðingu:

Sendi tvær myndir, eiginlega fyrir og eftir, fyrir klippingu og eftir, fyrir fermingu og eftir. Það eru samt ekki nema tvær eða þrjár vikur á milli þessara mynda. Eða það minnir mig.

Ég fermdist í lok mars árið 1968, hóf því að ganga til prestsins haustið ’67. Þessi tvö táknrænu ár! Þau fylgja mér inn í fullorðinsárin og renna einsog Elliðaárnar inn og út úr heiminum. Eða einsog áin í lagi Bruce Springsteens. The River. Eða ég ætti eiginlega frekar að segja Neil Young? Það heitir Down by the River og er frá þessum tíma, ’67 eða ’68. Árið 1967 er kennt við ástina, summer of love, hitt við uppreisnir og byltingar, ’68 byltingarnar, París, Prag og allt það. Víetnam. Sjálf fermingin er mér minnisstæð og auðvitað fermingarveislan en eiginlega man ég betur allan undirbúninginn, tímana. Það var allsherjarverkfall skömmu fyrir ferminguna og allt var mjólkurlaust í bænum en tímarnir og samfélagið ruddust inn í kirkjuna. Hún varð einskonar félagsmiðstöð. Rokkhljómsveit skólans sem hét Amor lék þar rokktónlist, söng She’s not there með Zombies, ef ég man rétt. Að minnsta kosti tveir fermingardrengir voru í bandinu, Sigurður Valgeirsson, sjónvarps- og blaðamaður, og Tómas M. Tómasson, verðandi Stuðmaður með stórum staf. Á eftir bandinu kom strákur sem síðar varð frystihússtjóri og las úr Rauða kverinu eftir Maó úr predikunarstólnum og því næst sýndi presturinn myndir með Gög og Gokke og Chaplín. Tímarnir voru að breytast en boðskapurinn komst til skila. Það tók bara tíma. Jesús var þarna. Við vorum svo mikið með hugann við ástina eða böllin í Breiðfirðingabúð og Templarahöllinni að við þurftum stundum að hlaupa út úr miðri messu til að ná strætó niður í bæ svo við misstum ekki af innkomunni annaðhvort hjá Kalla Sighvats eða Björgvini Gíslasyni. Þeir voru okkar menn, að vísu ekki í sömu hljómsveitinni, ekki þá. Ég gæti haldið áfram að messa. Það er svo margt sem situr í mér. Að minnsta kosti náði ég mér tvöföldu plötuna hans Björgvins Gíslasonar fyrir síðustu jól og gaf syni mínum hana í jólagjöf. Kannski segir það allt sem segja þarf, en hliðar heimsins eru margar, stundum fjórar einsog á tvöfaldri plötu, stundum fleiri, og breytast eftir því sem tímar líða, en prestarnir eru þarna, bæði séra Árelíus og séra Sigurður Haukur með lömbin og sálmana og Chaplín og Gög og Gokke.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
27.03.2024

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“
Kynning
19.03.2024

Þú færð allt fyrir ferminguna á Boozt.com

Þú færð allt fyrir ferminguna á Boozt.com
Kynning
29.10.2023

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“
Kynning
27.10.2023

Jólabjór og opið til miðnættis í Nýju Vínbúðinni

Jólabjór og opið til miðnættis í Nýju Vínbúðinni