Bjórinn inniheldur jafn mikið af próteinum og nautasteik
Hvernig hljómar það að fara í ræktina, taka hressilega á því og opna svo einn bjór eftir æfingu í staðinn fyrir próteinsjeikinn? Fyrir suma hljómar þetta eflaust ágætlega því senn kemur á markað bjór sem inniheldur um það bil jafn mikið af próteinum og nautasteik.
Barbell Brew-brugghúsið í Bretlandi stendur að baki bjórnum en áfengisinnihald hans er tiltölulega lítið, eða 3,6 prósent. Ein flaska inniheldur hins vegar 21,8 grömm af próteinum. Þá má geta þess að hver flaska inniheldur innan við 100 hitaeiningar, 92,4 til að vera nákvæm.
Í umfjöllun breska blaðsins Mirror kemur fram að búist sé við því að bjórinn muni njóta nokkurrra vinsælda, sérstaklega meðal ungra karlmanna.
„Það getur verið erfitt að stunda heilbrigðan og góðan lífsstíl, sérstaklega ef þér finnst gott að fá þér í glas með vinum. Þessi drykkur þýðir að nú getur fólk notið þess að fá sér í glas án þess að fá samviskubit,“ segir Darren Beale frá fyrirtækinu Muscle Food sem vann að þróun drykkjarins ásamt Barbell Brew.