Gleymdi túrtappanum í níu daga – Fékk alvarlega sýkingu
Tvítug stúlka var nær dauða en lífi eftir að hafa fengið eiturlost af völdum bakteríusýkingar. Sýkingin fór að grassera í leggöngum stúlkunnar, Emily Pankhurst, eftir að hún gleymdi að skipta um túrtappa í níu daga.
Bakteríuvöxtur í móðurlífi Emily varð til þess að sýking myndaðist og hún fékk blóðeitrun og síðar eiturlost (e. toxic shock syndrome). Meðal einkenna eru hár hiti, uppköst, niðurgangur og líðan eins og viðkomandi sé með flensu. Útbrot geta einnig myndast á líkamanum.
Emily fór að finna fyrir slappleika þegar hún var í miðri prófatörn fyrir skemmstu. Hún taldi að um flensu væri að ræða en skyndilega fór heilsu hennar að hraka verulega. Hún leitaði til læknis en þegar þangað var komið sáu læknar að ástand hennar var alvarlegt. Var hún lögð inn á gjörgæsludeild og henni gefin sýklalyf. Það var fyrir snör handtök lækna að þeim tókst að bjarga lífi hennar, en ljóst er að ekki mátti miklu muna að verr færi.
„Þegar ég áttaði mig á þessu dró ég tappann út og hann var kolsvartur,“ segir Emily í viðtali við Mail Online um atvikið. Hún stundar nám í afbrotafræði við Háskólann í Canterbury á Englandi og var í miðri prófatörn í síðasta mánuði þegar hún hafði blæðingar. Hún setti túrtappann upp en steimgleymdi að taka hann út og þegar hún áttaði sig á mistökunum var sýkingin farin að grassera.
Emily taldi að nú þegar túrtappinn væri farinn myndi líðan hennar batna. Það gerðist ekki og hvatti móðir hennar hana til að fara til læknis, en sjálf hafði hún lesið um einkenni eiturlosts eftir túrtappanotkun. Emily er nú á batavegi en hún hefur samt ekki náð sér að fullu. Þannig á hún erfitt með að ganga lengri vegalengdir og er þrek hennar takmarkað.
Emily segir að hún hafi í fyrstu talið að veikindin stöfuðu af stressi og prófkvíða. Hvetur hún allar ungar stúlkur til að gleyma því ekki að skipta um túrtappa með reglulegu millibili.
Toxic Shock Syndrome er í raun sýking af völdum bakteríu sem oft er tengd notkun á túrtöppum. Á vef Áttavitans, sem er upplýsingagátt á íslensku fyrir ungt fólk og rekin af Hinu húsinu, kemur fram að bakterían sem veldur sýkingunni sé yfirleitt til staðar í líkamanum en valdi yfirleitt ekki neinum alvarlegum sýkingum. „Við notkun túrtappa, aðallega túrtappa sem eru með hámarksvökvadrægni, getur verið hætta á sýkingu og einnig ef túrtappi er hafður of lengi í leggöngunum,“ segir á vef Áttavitans. Þar segir að mælt sé með því að skipta reglulega um tappa. Ekki minna en á þriggja klukkustunda fresti eða samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum. Þá sé best að sofa með dömubindi eða álfabikar, en ef sofið er með túrtappa skuli nýr tappi settur í rétt áður en farið er að sofa og strax þegar þegar viðkomandi vaknar. Heimild: Áttavitinn