Segir sterk tengsl á milli kúamjólkurafurða og krabbameins – „Ég vel þessar afurðir vegna nautnarinnar við að borða þær“
„Fjöldi rannsókna bendir einnig til þess að mikil neysla kúamjólkurafurða tengist aukinni hættu á krabbameinum og öðrum langvinnum sjúkdómum. Rannsóknir hafa bent til tengsla á milli mjólkurneyslu og krabbameina í æxlunarfærum svo sem brjósta-, legháls- og blöðruhálskrabbameina,“ segir Unnur Guðrún Pálsdóttir, betur þekkt sem Lukka á Happ og höfundur bókarinnar „5:2 Mataræðið með Lukku í Happ.“
Hún gagnrýnir að mjólkurvörur séu sagðar lausnin á beinþynningarvanda þjóðarinnar þegar staðreyndin sé sú að neysla á kúamjólkurvörum hafi þveröfug áhrif og segir hún mikilvægt að kalla hlutina sínum réttu nöfnum.
Í þættinum Heilsuráð Lukku Pálsdóttur sem sýndur er á Hringbraut í kvöld talar Lukka um „mjólkurklám“ og bendir á að ótal rannsóknir sýni fram á að mjólkurneysla geti því styrkt bein einungis til skamms tíma en verið orsakavaldur beinþynningar seinna á ævinni vegna hraðari öldrunar beinmyndandi fruma.
Lukka bendir einnig á að neysla á kúamjólk hafi fleiri neikvæð áhrif og sterk tengsl séu á milli mjólkurneyslu og langvinnra sjúkdóma, svosem krabbameins. „Ein af ástæðunum er talin aukning IGF-1 (Insulin-like growth factor) við mjólkurneyslu en IGF-1 hefur hvetjandi áhrif á frumuskiptingar.“
Þá segir hún það vera hreinlega rangt eða ósiðlegt að ýta undir þá trú fólks að kúamjólk sé nauðsynleg tann- og beinheilsu Íslendinga og ítrekar að D og K vítamín sé ekki síður mikilvægt en kalk. „Styrktarþjálfun, brokkólí, fræ, baunir og sólarljós væru því betri beinstyrking en öll mjólk í heiminum,“ segir Lukka en kveðst þó sjálf drekka mjólk. „Ég vel þessar afurðir vegna nautnarinnar við að borða þær en ekki til að styrkja tennur og bein.“