Tækniþjónusta bifreiða sérhæfir sig í viðgerðum og þjónustu við þýskar bifreiðar. Jón Hafþór Marteinsson og fjölskylda hans reka fyrirtækið en Jón Hafþór er lærður kerfistæknir (Systemtechniker) frá Bosch í Þýskalandi. Fyrirtækið var stofnað fyrir 16 árum og hefur það ávallt verið að Hjallahrauni 4 í Hafnarfirði. Áður tók fyrirtækið að sér þjónustu við þýskar bifreiðar samhliða því að selja varahluti. Þar sem varahlutasalan hefur nú flutt í sérverslun hefur Tækniþjónusta bifreiða stækkað þjónustuverkstæði sitt og betrumbætt aðstöðuna. Nú býðst eigendum þýskra bifreiða enn betri og viðameiri þjónusta.
Mikil reynsla liggur að baki Tækniþjónustu bifreiða. Sérhæfingin hefur ávallt legið í þýskum bifreiðum og því mikil þekking innan fyritækisins á því sviði. Starfsfólkið er vel í stakk búið til að þjónusta þýskar bifreiðar og hefur reynslan nýst vel er kemur að því að greina ýmsar bilanir. Þar að auki er starfsfólk fyrirtækisins rómað fyrir einstaka hjálpsemi og vönduð vinnubrögð. Tækniþjónusta bifreiða er fjölskyldufyrirtæki og er óhætt að segja að margir starfsmenn þess hafi alist upp innan veggja fyrirtækisins. Sem dæmi má nefna að tveir synir Jóns Hafþórs vinna innan fyrirtækisins, annar hjá Tækniþjónustunni og hinn hjá Bifreid.is. „Hér hjálpast allir að og leggja hönd á plóg þegar mikið er að gera. Börnum er velkomið að heimsækja foreldrana í vinnuna; þeim er einfaldlega fundið verkefni við hæfi og því gjarnan líf og fjör í fyrirtækinu,“ segir Jón.
„Í hádeginu hittast starfsmenn á efri hæð verslunarinnar og gæða sér á heimatilbúnum fjölskyldumat, framreiddum af ættmóðurinni. Oft er um að ræða mat sem ekki allir eiga venjast dagsdaglega, sérstaklega ungu drengirnir sem hafa starfað í styttri tíma,“ segir Jón. Fjölskyldan er ættuð úr Ísafjarðardjúpi og er árlega haldin vegleg skötuveisla með aðföngum úr djúpinu, en sú veisla er löngu orðin fastur viðburður hjá mörgum viðskiptavinum Tækniþjónustu bifreiða.