fbpx
Miðvikudagur 25.desember 2024
HelgarmatseðillMatur

Strangheiðarlegur og ljúffengur helgarmatseðill í boði Telmu

Sjöfn Þórðardóttir
Föstudaginn 30. september 2022 15:00

Líkamsræktarþjálfarinn knái Telma Matthíasdóttir á heiður af þessum strangheiðarlega og ljúffenga helgarmatseðli sem gleður bæði líkama og sál. DV/ERNIR.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heiðurinn af helgarmatseðli matarvefs DV að þessu sinni á Telma Matthíasdóttir líkamsræktarþjálfari og einn af eigendum Bætiefnabúllunnar. Telma hefur lengi verið á meðal vinsælustu einkaþjálfara landsins og unnið markvisst að því að bæta líf og heilsu landsmanna.

Telma veit svo sannarlega sínu viti þegar kemur að heilsufarslegum málefnum en hún heldur úti síðunni Fitubrennsla.is og rekur Bætiefnabúlluna ásamt manni sínum. Í yfir 19 ár hefur hún aðstoðað fólk við að breyta lífsstílnum sínum, bæta heilsuna bæði andlega og líkamlega. Telma er mjög vinsæl á Instagramreikning sínum undir nafninu fitubrennsla þar sem hún sýnir frá lífsstíl sínum og kemur regluleg með góð ráð sem vert er að fylgjast með.

Telma hefur sett hér saman fjölbreyttan og litríkan helgarmatseðil sem er strangheiðarlegur og gleður bæði auga og munn. Býður hún upp á girnilega rétti frá morgni til kvölds þar fjölbreytnin ræður ríkjum. „Það skiptir máli að borða fjölbreyttan mat og huga að hollustunni um leið, sem veitir okkur ánægju og vellíðan,“ segir Telma sem kann að njóta þess að hugsa vel um líkama og sál.

Föstudagur – Pitsakvöld að hætti Telmu

Pitsa að hætti Telmu
Nota Prótein Wrap sem botn
Sósa af eigin vali (ég nota Calowfit tómatsósu) ásamt pizzakryddi frá Kryddhúsinu. Strái síðan smá mozzarella ost yfir og raða því næst álegginu. Þá er ég með sveppi, rauðlaukur, döðlur eða fíkjur eftir smekk. Toppa með smá mozzarellaosti. Sett pitsuna inn í bakarofn baka við 180°C hita í um það bil 15 mínútur. Þegar pitsan er tekin út toppa ég hana með klettasalati, geitaosti og bláberjum.
Mæli með líka með avókadó.

Laugardagur – Hollustugrautur, beyglur, ljúffengur fiskréttur og saltkaramelluís

Morgun- & hádegismatur
Bláberjagrautur
250 g möndlumjólk
35 g instant oats (hafrajöl sem búið er að þeyta niður að fínu mjöli)
25 g próteinduft – 100% pure whey (milk rice eða vanilla bragð)
Ögn af himalaya salti
3 tsk. chiafræ
1 dl frosin bláber

Byrjið á því að setja mjólk, hafradufti, prótein og salt í pott og hitið við miðlungshita og pískið kröftulega á meðan í um það bil 3 mínútur. Bætið þá við chiafræjum og bláberjum og látið malla í 1 mínútu. Setjið í sál og toppið með hnetusmjöri, pekanhnetum & bláberjum.

Beyglur – Hveiti og sykurlausar
1 bolli haframjölshveiti
1 tsk. lyftiduft
1 tsk. matarsódi
1 bolli grísk jógúrt

Blandið öllum hráefnunum saman og hnoðið, mótið í 4 beyglur. Setjið beyglurnar á bökunarplötu með bökunarpappír og bakið við 175°C blástur í 20 mínútur. Það má smyrja beyglurnar með eggjahvítu og strá sesamfræjum eða hampfræjum yfir áður enn þær fara inn í ofn.

Þetta eru svakalega góðar beyglur sem hægt er að nota á marga vegu.
Dæmi um álegg sem mér finnst gott:
– Bananar og súkkulaði smjör.
– Eplaskífur og hnetusmjör.
– Egg og kavíar.
– Smjör, ostur og kjúklingaálegg.
– Egg og grænmeti, mayo og honey mustard sósa frá Callowfit.

Kvöldverður


Asískur fiskréttur
500 g þorskhnakkar

Marínering
6 msk. vatn
5 msk. sojasósa
1 msk. sesam olía
1 msk. Asískt fiskikrydd frá Kryddhúsinu
5 stk. hvítlauksgeirar
3 stk. vorlaukar
Þumalstærð engifer

Allt hráefnið sett saman í skál og blandað saman.

Skerið fiskinn í 4 cm breiða bita. Raðið bitunum ofan í meðalstóran pott. Hellið maríneringunni yfir og setjið lok á pottinn. Eldið í 12-15 mínútur yfir meðalhita. Fiskurinn er borinn fram með brúnum grjónum, steiktu spregilkáli og salati.

Eftirréttur

Saltkaramellu ís
½ dl möndlumjólk, sykurlaus
150 g frosinn banani
15 g af grófu hnetusmjöri
25 g af Próteini -–100% pure whey með Salty Caramel bragði

Þeytið mjólk og banana vel saman þar til verður að creamy ís. Bætið þá við hnetusmjöri og próteindufti og þeytið aftur í 90 sekúndur. Hellið síðan í glas eða skál og skreytið með hnetusmjöri og hesilhnetukurli.

Sunnudagur – Smoothies skál, fiskivefjur, bláberjasæla og heilsteiktur kjúklingur

Byrja daginn á smoothiesskál.

Smoothieskál dagsins
200 g möndlumjólk
100 g blómkálsgrjón, frosið
50 g banani, frosið
80 g hindber, frosin
30 g avókadó frosið
30 g 100% pure whey protein, milk rice bragðið

Þeytið allt saman og hellið í skál. Toppið með jarðaberjum, kiwi, bláberjum, hampfræjum og Protein cream súkkuaði kremi.

Hádegisverður

Fiskivefjur í eldföstu móti
Hér er ég að nýta afgang að Asíska fiskinum sem var kvöldið áður.

4 protein wrap vefjur settar í eldfast mót
1 msk. grænt pestó á hverja vefju og raða svo rauðlauk – tómata – papriku – þorsk og að lokum rifinn ost.

Setjið inn í ofn á 180°C hita og bakið þar til osturinn er bráðinn. Toppið að lokum með klettasalati og Peri Peri sósu frá Callowfit.

„Með kaffinu er þessi fullkomin.“

Bláberjasæla
3 ½ dl haframjöl
1 ½ dl gróft spelt
30 g próteinduft – 100% pure whey vanilla bragð
½ dl Sukrin gold
2 msk. fiber sirop
100 g brætt smjör
1 tsk. vanilludropar
1 tsk. kanill
klípa salt

Bláberjafylling
4 dl frosin bláber
safi úr ½ sítrónu
2 tsk. xanthan gum
2 msk. dl strásæta HBerg

Hitið ofninn 175°C. Blandið saman þurrefnum; haframjöli, protein dufti, grófu spelti, sukrin gold, kanil og salti. Bætið svo við smjöri, fiber sírópi og vanilludropum. Takið 2/3 af blöndunni og þjappið nipur í botninn á formi og aðeins upp á kantana. Setjið frosin bláber í pott ásamt sítrónusafa, xanthan gum og strásætu. Hitið þar til allt blandast saman – ekki mauka berin. Setjið berin í mótið, dreifið restinni af deiginu yfir og svo rosalega gott að dreifa pekanhnetur yfir líka. Bakið inn í ofni við 180°C í 40 til 45 mínútur. Berið kökuna fram með ís eða þeyttum rjóma og salty caramelsósu frá Callowfit.

Sunnudagskvöldverðurinn – Heilsteiktur kjúklingur með ljúffengu meðlæti

Heilsteiktur kjúklingur í potti ásamt sætum kartöflum, gulrótum og graskeri
Heill kjúklingur
Miðausturlanda kjúklingakrydd Kryddhúsinu (Gott að blanda kryddblöndunni saman við ólífuolíu og smá hunang/sætu og pensla á kjúklinginn)
Saltið og piprið eftir smekk.
1 stk. sítróna
1 stk. sæt kartafla
6 stk. gulrætur
½ grasker (val)
10 stk. sveppir
1 stk. rauðlaukur
Smjör eftir smekk

Byrjið á því að stilla ofninn á 200°C. Hreinsið kjúklinginn og kryddið hann að innan með salt og pipar.
Skerið 1 sítrónu niður í sneiðar og setjið helminginn af sneiðunum inn í kjúklinginn. Kryddið kjúklinginn með salt, pipar og Miðausturlanda kjúklingakryddinu. Setjið kjúklinginn inn í ofn.

Flysjið sætu kartöfluna, gulræturnar og graskerið og skerið í góða bita. Setjið meðfram kjúklingnum þegar hann hefur verið 20 min í ofninum. Bræðið 1 matskeið af smjöri og penslið yfir kjúklinginn í leiðinni. Skerið laukinn og sveppina niður og steikið upp úr 1 matskeið af smjöri á pönnu. Setjið það í pottinn með kjúklingnum þegar það hefur verið inn í ofni í um það bil 50 mínútur. Penslið aftur 1 matskeið af smjöri yfir kjúklinginn í leiðinni. Eldið kjúklinginn þangað til hann er tilbúinn, gegnsteiktur. Tími fer eftir þyngd en það getur tekið um það bil klukkutíma til klukkutíma og korter að fullelda heilan kjúkling. Setjið sítrónu sneiðar og steinselju í fatið og berið fram í fatinu. „Þetta er uppskrift frá Lindu Ben með smá tvisti frá mér,“ segir Telma að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
04.04.2024

Þetta eru matvælin sem sögð eru virka eins og megrunarlyfin vinsælu

Þetta eru matvælin sem sögð eru virka eins og megrunarlyfin vinsælu
Matur
03.04.2024

Svona áttu að haga þér við matarinnkaupin – 10 siðareglur stórmarkaðanna

Svona áttu að haga þér við matarinnkaupin – 10 siðareglur stórmarkaðanna