Það er að koma helgi og þá er það helgarmatseðillinn. Að þessu sinni er það matgæðingurinn og gleðigjafinn Áslaug Hulda Jónsdóttir sem býður upp á helgarmatseðilinn en hún býður ávallt spennt eftir helginni því þá fær matarástríðan að blómstra.
Garðbæingurinn Áslaug Hulda starfar sem aðstoðarmaður Háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra. Eins og áður sagði er hún er mikill matgæðingur og elskar að töfra fram ljúffengar kræsingar fyrir fjölskyldu og vini. Áslaug Hulda er þekkt fyrir að vera höfðingi heim að sækja og það fer enginn svangur út eftir heimsókn til hennar. Síðan er hún líka svo mikill fagurkeri og ber matinn svo fallega fram, enda segir hún að við byrjum að borða með augunum sem er hárrétt. Áslaug er með það á hreinu að matur er manns gaman.
,,Helgarmatur fjölskyldunnar verður nautakjötssalat en það í miklu uppáhaldi hjá mínu fólki. Ég hef oft boðið upp á þetta salat í matarboðum og stærri veislum enda er það þægilegt þar sem hægt að undirbúa það fyrirfram og þá þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af matnum þegar gestir mæta. Það skemmir svo ekkert að þetta er fallegt á borði – enda borðum við líka með augunum. Matur sem lúkkar og lyktar vel er mér að skapi,“ segir Áslaug Hulda og brosir breitt.
Nautakjötssalat að hætti Áslaugar Huldu
Byrjið á því að grilla nautalundina og látið hana standa eftir að þið hafið lokið við að grilla hana. Ristið pekanhnetur á pönnu og sykrið smá.
Blandið síðan saman nokkrum tegundum af grænu salati. Skerið niður sykurbaunir, græna eða gula papriku, agúrku (skerið miðjuna frá). Kreistið safa úr appelsínu yfir grænmetið ásamt olíu.
Skerið síðan nautalundina niður í þunnar sneiðar og dýfi í peking duck sauce. Nautalundin er svo lögð ofan á salatið ásamt fetaosti og camenbert. Dreifið svo pekanhnetum og baunaspírum yfir ásamt berjum, t.d. bláberjum, jarðarberjum og/eða hindberjum yfir.
„Á köldum vetrardegi breyti ég salatinu aðeins, ég nenni auðvitað ekki út þannig að ég loka lundinni á pönnu og set inn í ofninn í stað þess að grilla. Aðferð og meðlæti það sama nema ég minnka eða sleppi berjum, eða bætti jafnvel vínberjum við og/eða nota kasjúhnetur í stað pekan og bæti við smjörsteiktum sveppum og aspas. Parmesan yfir og jafnvel steinselja – bingó.“
Magnið af hráefninun getið valið eftir smekk og fjölda þeirra sem eru í mat.
Morgunmatur um helgar
,,Um helgar fáum við fjölskyldan okkur oft saman morgunmat – sem reyndar er borðaður um hádegisbilið. Egg í einhvers konar búningi er algengasti morgunmaturinn á okkar heimili. Egg í ofni er skemmtilegt – og lítið uppvask.“
Egg í ofni
Smjörklípa og skvetta af rjóma sett á pönnu og inni í ofn ásamt ferskum kryddjurtum, t.d. hvítlauk, chili og timian, salt og pipar. Þetta læt ég inn í heitan ofn og þegar blandan er búin að bráðna og malla aðeins saman tek ég pönnuna út og bæti við eggjum og parmaskinu. Set aftur inn í ofn. Þegar þetta er tilbúið er gott að bæta rífa steinselju og parmesan ost yfir. Stundum set ég klettasalat og smá olíu.
Þetta er líka góð leið til að taka til í ísskápnum, í stað parmaskinku er hægt að nota beikon, sveppi, pepperoni eða annað sem er til. Ef ég á ekki kryddjurtir læt ég SPG duga (krydd: salt, pipar og hvítlaukur) ásamt chili flakes. Egg klikka sjaldan og smjör og rjómi gera allt betra.