fbpx
Miðvikudagur 25.desember 2024
HelgarmatseðillMatur

Berglind sviptir hulunni af sínum ómótstæðilega og ljúffenga helgarmatseðli

Sjöfn Þórðardóttir
Föstudaginn 28. október 2022 12:00

Berglind Sigmarsdóttir ástríðukokkur og matreiðslubókarhöfundur á heiðurinn af helgarmatseðlinum að þessu sinni sem er ómótstæðilega girnilegur með vetrarlegu ívafi. MYND/SÓLVEIG ADOLFSDÓTTIR

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Berglind Sigmarsdóttir ástríðukokkur, fagurkeri, matreiðslubókarhöfundur og eigandi veitingastaðarins GOTT í Vestmannaeyjum á heiðurinn af helgarmatseðlinum að þessu sinni sem er ómótstæðilega girnilegur. Berglind sviptir hulunni af einstaklega ljúffengum og bragðmiklum réttum sem allir sælkera eiga eftir að elska.

„Mér finnst voða gott um helgar að elda rétti í stórum pottum sem ég get byrjað á að dunda mér í snemma um daginn, jafnvel um hádegi. Fara svo að gera eitthvað og geta komið heim og einhvern veginn skutlað þessu bara á borðið. Þessir réttir eins og ég er að gefa uppskriftir af hér eins og Bolognese og karrí grænmetisrétturinn verða líka bara betri eftir því sem þeir fá að standa aðeins og svo er ekki verra ef það er afgangur til að eiga í hádeginu daginn eftir. Spaghetti Bolognese gert svona frá grunni sem fær að malla í góðan tíma hefur alltaf verið einn af mínum uppáhalds réttum, ég leyfi mér að setja slatta af parmesan yfir og ég vel með því gott rauðvín. Ég mæli með að þið prófið að steikja spaghettíið upp úr chilli eins og ég útskýri í uppskriftinni, það tekur þennan rétt á annan stað. Grænmetisrétturinn er líka góður með öllu meðlætinu sem ég gef uppskriftir að, avókadólímónusalsað og svo sæta hnetumixið er gott kombó. Svo er mjög einfalt að gefa báðum þessum réttum auka plús með þessari einföldu svindl aðferð að besta hvítlauksbrauðinu,“ segir Berglind sem hefur mikla ástríðu fyrir því útbúa girnilega rétti sem gleðja bæði auga og munn.

Matarástin hefur blómstrað út í Eyjum í sumar

Það hefur verið mikið líf og fjör í Vestmannaeyjum í sumar og brjálað að gera veitingastaðnum GOTT sem Berglind og eiginmaður hennar Sigurður Gíslason eiga og reka. Berglind er ekki bara í matargerðinni, hún er líka listfeng og einstaklega listræn í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur eins og sjá má meðal annars inni á veitingastaðnum GOTT sem og inni á heimili þeirra hjóna. Svo er hún líka formaður Ferðamálasamtaka Vestmannaeyja og var meðal þeirra sem skipulögðu sjávarréttahátíðina MATEY sem haldin var í haust og vakti mikla athygli, langt út fyrir landsteinana. Þá slógu veitingastaðirnir í Vestmannaeyjum í gegn með sínum sælkeraréttum þar sem sjávarfangið var í forgrunni.

„Það var mjög líflegt hjá okkur á GOTT í sumar, bæði innlendir og erlendir ferðamenn, endapunkturinn á vertíðinni var svo Matey sjávarréttahátíðin. Nú þegar veturinn er kominn hægist á og ég fer að sinna listinni. Ég hef verið að mála síðustu ár en er núna að færa mig út í aðeins annað sem er mjög spennandi,“ segir Berglind full tilhlökkunar. Það verður spennandi að fylgjast með því sem Berglind tekur sér fyrir hendur í vetur.

Hér kemur helgarmatseðillinn í boði Berglindar sem er hinn girnilegasti og þið eigið eftir að elska þessar uppskriftir. Nú er vert að hefja undirbúninginn og leyfa matarástinni að blómstra.

Fyrst eru það tveir matarmiklir og bragðgóðir aðalréttir sem steinliggja hvort sem það er föstudags-, laugardags- eða sunnudagskvöld. Á vetrarkvöldum er svo ljúft að fá hægeldaða rétti sem bragð er af og ylja.

Spaghetti bolognese með smá chilli tvisti

1 msk. góð ólífuolía

6 sneiðar beikon, fínt saxað

2 miðstórir laukar, fínt saxaðir

2 góðar gulrætur, fínt saxaðar

2 sellerí stilkar, fínt saxaðir

2 stórir hvítlauksgeirar

2 stilkar af rósmarín, tínið nálar af og saxið í krydd, (stilkur ekki notaður).

Svartur pipar eftir smekk

500 g nautahakk

Fyrir sósuna

2 dósir (400 gr hver)  hakkaðir tómatar

¾  af litlu basil búnti saxað (getið notað rest til að skreyta réttinn í lokin)

1 tsk. oreganó krydd

5 lárviðarlauf

2 msk. tómatpúrra

1 teningur nautakraftur

2 tsk. af Heitt pitsakrydd frá Pottagöldrum. Ég nota ekkert krydd meira en þetta en það er blanda af chilli, cayenna, svörtum pipar, hvítlauk, basil og oreganó svo það passar einstaklega vel í þetta og eins til að mynda lasagna.

1 tsk. chilliflögur, ég nota Peperconcino frá Olifu.

125 ml rauðvín

6 kirsuberjatómatar, skornir í tvennt.

Spaghetti

400 g spaghetti

40 g hreint íslenskt smjör

½  tsk .chilliflögur, ég nota Peperconcino frá Olifu.

Parmesan ostur til þess að setja yfir réttinn í lokin.

Hvítlauksbrauð

„Ég kaupi tilbúið súrdeigs pitsadeig, sker eina kúlu uppí 4-8 hluta (eftir því hvað þið viljið hafa brauðin stór), nota bara hendurnar og teygi deigið aðeins út, hita pönnu á lágum hita með góða olíu og leyfi deiginu steikjast rólega, sný því við og salta svo með sjávarsalt. Bý til hvítlaukssmjör með hreinu smjöri við stofuhita og einum hvítlauksgeira, blanda því saman og smyr á brauðið á meðan það er enn heitt.“

Aðferð

Best er að vera búin að saxa niður allt grænmetið áður en byrjað er að elda. Notið stóran pott, stillið á miðlungs hita og bætið olíu í pottinn. Byrjið á að steikja beikonið, þar til það er orðið aðeins stökkt. Lækkið hita og bætið þá lauk, gulrótum, sellerí, hvítlauk, rósmarín og steikið létt í um 10 mínútur. Veltið um með sleif. Hækkið örlítið hitann og bætið hakkinu út í og steikið og hrærið þar til kjötið er brúnað. Bætið þá tómötunum úr dósunum út í pottinn, basil sem hefur verið saxað, oreganó, pitsa kryddinu, lárviðarlaufunum, tómatpúrrunni, nautakraftinum, rauðvíni, kirsuberjatómötunum, 1 teskeið chilliflögunum. Hrærið saman með sleif. Náið upp suðu og leyfið svo að rétt malla í rúman klukkutíma, passið að fylgjast vel með og hrærið í af og til. Bætið svörtum pipar. Ef ég þarf eitthvað að bregða mér frá þá bara slekk ég undir og hef lokið á og kveiki svo aftur þegar ég kem aftur. Þegar þetta er borið fram á þetta að vera nokkuð þykkt svo ef það er enn mikið vökvi þá hefur það ekki mallað nógu lengi. Takið lárviðarlauf úr, áður en þið berið fram.

Sjóðið spaghetti samkvæmt leiðbeiningum. Hellið spaghetti í sigtið og hellið vatni af. Við tökum sirka helminginn til þess að steikja upp úr chilli. Setjum helminginn á borðið fyrir krakkana en hinn helminginn steikjum við.

Set 40 grömm af smjöri á pönnuna, þegar það er bráðið set ég ½ teskeið af chillilflögum út á smjörið og velti þessu aðeins saman. Tek þá helminginn af soðnu spaghettíinu og velti upp úr chilli smjörinu. Síðan hræri ég bara í þessu aðeins og þá er það tilbúið. Berið fram með slatta af parmesan osti og hvítlauksbrauði, sjá ofar.

Karrí grænmetisréttur að hætti Berglindar

3 msk.  olía

11/2 – 2 laukar , saxaðir

2 stór hvítlauksrif, pressað

2 msk. karrí

2 msk tómatpúrra

2 krukkur kjúklingabaunir, geymið 6 matskeiðar af vökva

½ stór haus blómkál, eða 1 lítill, saxað

1-2 msk. sítrónusafi

Vel af svörtum pipar

½  tsk chilli flögur

1 dós (400 gr)  kókosmjólk

Hitið olíu, brúnið lauk, takið af hita og bætið hvítlauk, karrí, chilliflögum og tómapúrru. Hrærið og látið malla í 2-3 mínútur, passið að hafa ekki of háan hita. Kjúklingabaunum, blómkáli, safanum af kjuklingabaunum (6 mats), sítrónusafa, salti og pipar bætt útí. Veltið um á pönnunni. Bætið kókosmjólk. Látið malla í 5 mínútur eða þar til blómkálið er eldað og baunirnar orðnar mjúkar. Hrærið í, rétturinn er tilbúinn þegar mesti vökvinn hefur gufað upp.

Gott að bera fram með qinoa eða hrísgrjónum, avókadólímónusalsa, hnetu og fræ mixi ásamt salati og hvítlauksbrauði. Sjá uppskriftir. Brauðið er eins og ég segi með spaghetti bolognese uppskriftinni bara einfalt, sjá uppskrift að ofan.

Avókadólímónusalsa

1 stk. avókadó

½ rauðlaukur

1 stk. límóna (safinn)

1 msk. góð ólífuolía

Smá sjávarsalt og svartur pipar

nokkrir dropar tabascosósa

¼  búnt kóríander (má sleppa)

Afhýðið avókadó, takið stien frá og skerið í litla bita. Fínsaxið rauðlauk og kóríander, hrærið þessu saman við avókadóbitana. Kreistið safann út límónunni yfir, loks tabasco dropana og síðast kryddið með salti og pipar. Öllu hrært saman og tilbúið.

Hnetu- og fræmix

1 poki pekan hnetur (100 gr)

1 dl sólblómafræ

1 dl graskersfræ

1 msk. hlynsíróp eða sukrin gold síróp ef þið viljið sykurlaust

Sjávarsalt

Setjið allt á pönnu og ristið (passið hitann, hnetur brenna auðveldlega), þegar mixið er farið að ristast slökkvið undir og setjið eina matskeið hlynsíróp eða sukrin gold og veltið mixinu upp úr því. Saltið og takið af pönnu, þá er það tilbúið.

Hér býður svo Berglind upp tvær dásamlegar uppskriftir, annars vegar af próteinríkum pönnukökum og hins vegar af ketó/lágkolvetna köku sem bráðnar í munni. Þessar tvær eru tilvaldar með brönsinum, helgarkaffinu eða jafnvel sem eftirréttur.

Próteinríkar pönnukökur

Próteinríkar pönnukökur

90 g kotasæla

270 g eggjahvítur (kaupi bara í brúsa)

130 g haframjöl

½  tsk. lyftiduft

1 tsk. husk (þarf ekki en það þykkir blönduna, og gerir þær því þykkari og meira djúsí)

Allt sett í blandara og helt svo bara beint á pönnu með smjöri eða olíu. Gott að setja smá sjávarsalt. Berið fram með ávöxtum og sykur-lausu/minna nutella.

„Mér finnst þessi uppskrift algjör snilld því hún er svo þægileg og frábær til þess að auka próteinneyslu. Fékk hana frá frænku minni sem er einkaþjálfari og breytti henni örlítið. Erum við ekki mörg i baráttunni við brauðið, að reyna að minnka það og þannig kolvetni almennt? Ég hendi í þessar oft um helgar og líka bara þegar krakkarnir koma heim úr skólanum. Ég nota Nutribullet og vigta beint í „glasið“  þá er lágmarks uppvask og vesen.“

Ketó/lágkolvetna –  3 mínútna kaka

1 msk. kakó

3 msk. möndlumjöl (ég nota frá Gestus)

1/3 tsk. vínsteins lyftiduft

1 ½  msk. sukrin gold (sem lítur út eins og púðursykur)

3 tsk. olía (MCT olía, olífuolía eða bráðið smjör)

1 egg

3 msk. rjómi, mjólk eða 1 msk. rjómaostur

Takið fram litla skál og pískara. Hrærið fyrst saman þurrefnum; kakó, möndlumjöli, sukrin og lyftidufti. bætið hinu við og hrærið öllu saman. Takið fram stóran og háan kaffibolla, spreyið olíu eða berið olíu eða smjör og hellið deigi í bollann. Setjið í örbylgjuna í 2,5 -3 mínútur. Þegar kakan hefur bakast takið bollann út og sturtið kökunni úr bollanum, skerið rúlluna í tvennt og setjið krem ofan á. Uppskrift hér fyrir neðan af kreminu.

Krem

1 kúfuð msk. hnetusmjör (ég nota crunchy,með bitum)

3 tsk. sukrin gold síróp

½ msk. kakó

2 tsk. rjómi

nokkrir rommdropar eða ½  teskeið vanilludropar. Mér finnst gott að nota rommdropa, minnir aðeins á rommý súkkulaðið.

Öllu pískað saman í skál og smurt á kökurnar tvær.

„Þessi uppskrift er fyrir þá sem eru í sykur og hveitilausa lífsstílnum. Ég tek góðar rispur inn á milli 3-6 mánuði í einu án sykurs og hveitis og þessi kaka hefur bjargað mér oft þegar mig langar í eitthvað með kaffinu. Hún er líka svo fljótleg og einföld. Hún er gerð í bolla svo hún er fyrir einn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
04.04.2024

Þetta eru matvælin sem sögð eru virka eins og megrunarlyfin vinsælu

Þetta eru matvælin sem sögð eru virka eins og megrunarlyfin vinsælu
Matur
03.04.2024

Svona áttu að haga þér við matarinnkaupin – 10 siðareglur stórmarkaðanna

Svona áttu að haga þér við matarinnkaupin – 10 siðareglur stórmarkaðanna