Maður kemst ekki hjá því á svona degi að láta hugann hvarfla til íslenskra forseta og forsetakosninga, en ég man eftir þeim nokkrum. Þegar ég var krakki var Ásgeir Ásgeirsson forseti landsins og maður hafði næstum ekkert af honum að segja nema að þetta var gamall maður sem ávarpaði þjóðina brotinni röddu á nýársdag og kom held ég einu sinni í sjónvarpið. Ég man að móðir mín sagði: „Ósköp er kallinum illa brugðið eftir að hann missti konuna sína“, en hann varð semsé ekkill á síðasta kjörtímabilinu. En virðing var mikil fyrir honum á mínu heimili, enda var hann „að vestan“, eins og mér skildist að ætti við um mest dugandi stjórnmálamenn íslenska, frá Jóni Sigurðssyni sjálfstæðishetju og síðan þá.
Ég heyrði líka á þeim árum að tengdasonur Ásgeirs, Gunnar Thoroddsen „ætlaði að taka við þessu“ og sögur gengu um að frú Vala, dóttir Ásgeirs og kona Gunnars, væri farinn að spá í breytingar á innanstokksmunum er þau tækju við fjölskylduóðalinu á Álftanesi. Nú er rétt að geta þess að bæði voru þau Gunnar og Vala annálað sómafólk sem bauð af sér góðan þokka, og þau hefðu án efa sómt sér vel í því að taka móti erlendum tignargestum og sinna öðrum embættisverkum. Og Gunnar var góður ræðumaður með fallegt tungutak. Um sjarma hans og hæfileika til að umgangast fólk og greiða úr deilum og flækjum eru til ýmsar sögur; mér kemur í hug ein sem ég heyrði núverandi forseta, Ólaf Ragnar, segja fyrir rúmum tveimur áratugum á samkomu Guðrúnu Helgadóttur, þeim merka rithöfundi, til heiðurs. Ólafur rifjaði upp að þegar ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen sat, á árunum uppúr 1980, kom upp óvenjuleg krísa sem snerist um liðhlaupa úr franska hernum, Gervasoni að nafni, sem hingað hafði leitað hælis. Það var úr vöndu að ráða, Frakkland var með okkur í Nató og því fylgdu skuldbindingar og ekki vildi Gunnar láta Íslendinga verða staðna að samningsrofi. Guðrún Helga, sem þá var þingmaður, var hlynnt umsókn Gervasoni, svo mjög að hún sagðist myndi hætta að styðja stjórnina nema hann fengi pólitískt hæli. Það hefði leitt til stjórnarslita, og veður öll válynd. Loks boðaði Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra Guðrúnu heim til sín á sinn fund, ásamt Ólafi Ragnari, formanni Alþýðubandalagsins sem Guðrún tilheyrði. Hún mun hafa komið með því fasi að hún ætlaði ekki að láta neinn snúa sér. En þegar fundurinn hófst bauð Gunnar Ólafi Ragnari að setjast í sófann, en benti líka á forláta skrifborðsstól í fornum stíl, og bauð rithöfundinum Guðrúnu að setjast þar, með þeim orðum að „þennan stól átti afi minn, skáldið Jón Thoroddsen og þar sat hann þegar hann skrifaði Pilt og stúlku, og mér þætti heiður ef þú vildir sitja í honum núna.“
Ég man að þegar Ólafur Ragnar sagði þessa sögu sýndi hann á sér þá óvenjulegu hlið að hann hermdi eftir talanda Gunnars, og náði honum mjög vel. Söguna má líka lesa, ef ég man rétt, í stórgóðri bók eftir þann sem líklega verður næsti forseti, og á ég þar við Ævisögu Gunnars, eftir Guðna Th. En nærri má geta að þetta hafi nokkuð mildað hug Guðrúnar.
Svo þegar dró nær kosningum um eftirmann Ásgeirs kom fram, nokkuð óvænt held ég, Kristján Eldjárn, og fékk strax mikinn hljómgrunn. Hann var í fljótu bragði ekki „forsetalegur“ að því er mörgum þótti; hafði ekki hrærst í stjórnsýslu eða diplómasíu heldur fræðistörfum, og þetta leit þjóðin á sem kost; forsetinn átti gjarnan að vera „einn af oss“ en ekki úr einhvers konar aðli. Kristján var þekktur úr sjónvarpinu fyrir skýra rödd, klára hugsun og afburðagott tungutak, og ég man að tíðindum af hans framboði var tekið fagnandi á mínu æskuheimili; ekki spillti að konan hans var „að vestan“ – hún og mamma höfðu verið samtímis í grunnskóla á Ísafirði á sinni tíð. Kristján var reyndar skáldmæltur og kunnu margir eða áttu uppskrifaðar í fórum sínum „Unndórsrímur“ sem hann orti á námsárum og þóttu víða ærið blautlegar. Einhverjir úr stuðningsmannaliði Gunnars munu hafa reynt að koma þeim á kreik og í umferð, í von um að þjóðin sneri þá baki við svona „klámskáldi“. En það virkaði þveröfugt; allir sáu að hér var frábærlega ort, og rímurnar sýndu líka að Kristján bjó yfir miklu meiri húmor en blasti við af skjánum þegar hann sýndi okkur „Muni og minjar“. Sumir túlkuðu kjör Kristjáns sem einhvers konar „alþýðuuppreisn“ og má alveg rökstyðja slíkt; það var verið að snúa baki við því sem sumir töldu fulltrúa elítunnar og valdaflokkanna. Og þá er rétt að muna að þessar kosningar voru vorið 1968, akkúrat á þeim dögum þegar einhvers konar byltingaralda gegn yfirvaldi og kerfi fór um alla Evrópu.
Þegar Kristján var kosinn bjó ég í blokk á Háaleitisbraut. Rétt við hlið hennar var „Múlakampur“, með hernámsárabröggum og í bland ósamþykktum húsum sem menn reistu sér á þannig stöðum vegna lóðaeklu. Í einu slíku bjó mikill vinur minn á svipuðu reki, Hendrik Pétursson, eða Hinni. Hann var gallharður Kristjánsmaður. Og á sjálfan kjördag stóðum við tveir niðri við Síðumúla, þar sem þá var skúraþyrping sem hýsti mjólkurbúð, Jónsbúð og Maddakaffi. Innar, eða norðaustar, í Síðumúlanum var kjörstaður, og þaðan lá þennan dag sæmilega þétt bílaumferð framhjá okkur og áleiðis niður á Suðurlandsbraut. Við vorum með stórt skilti sem á stóð X-Kristján, og Hinni kunni að blístra hátt og skerandi eins og töffarar kunna; fíúvídd! Þannig var öllum bílstjórum gert viðvart sem óku hjá og í öllum bílum litu menn upp og sáu okkur veifa skiltinu; X-Kristján. Allir brugðust við, og í tveimur af hverjum þremur bílum sýndu menn glaðleg merki um samstöðu, en í svona þriðja hverjum bíl bönduðu menn frá sér hendinni er þeir sáu skiltið eða sneru þumlum niður. Það voru örugglega vel á annað hundrað bílar sem óku hjá þennan eftirmiðdag. Þegar ég kom heim í kvöldmat tilkynnti ég út frá þessu væntanleg kosningaúrslit, og þótti foreldrum og systrum með ólíkindum. En hlutföllin reyndust þau sömu þegar tölurnar komu um kvöldið. Enda var þetta eflaust alveg gild og vísindalega útfærð „útgönguspá“ sem við Hinni þarna framkvæmdum.
Það er margt einkennilegt sem kemur í hugann þegar minnst er kjörs Vigdísar 1980. Stóru tíðindin voru auðvitað að nú var kona kosin; það er svona stutt síðan slíkt þótti alveg fáheyrt og í raun heimstíðindi. Ég held að þegar menn líta til baka muni margir sjá í kjöri Vigdísar speglast einhvers konar aldahvörf, að menn voru að segja skilið við gamla tímann. Helstu keppinautar Vigdísar voru heiðursmenn, karlmenn allt að sjálfsögðu, og hreinræktaðir „kallar“ eins og maður man þá. Albert Guðmundsson var auðvitað stórmerkur maður, braust úr fátækt í fremstu röð; var einn af litríkustu fótboltamönnum álfunnar á sinni tíð og hafði getið sér mikið orð sem stjórnmálamaður. En ég veit ekki hvort stíll hans myndi virka lengur: Hann var mikilúðlegur og valdsmannslegur í fasi og með risastóran vindil, og þekktustu kjörorð hans voru: „ég er vinur litla mannsins“. Að hugsa sér hvað er stutt síðan menn tóku það gott og gilt að stjórnmálamenn töluðu þannig beinlínis um sig sem stórmenni, en almenning sem eitthvað annað; smámenni raunar. Þarna eimdi eftir af Pétri þríhross versus litli maðurinn.
Um stöðu jafnréttismála milli kynjanna mátti svo sjá merkilegan vitnisburð í sjónvarpinu á dögunum, þegar rifjuð var upp þessi kosningabarátta 1980 og sýnt frá kosningafundi í RÚV. Gagnrýnendur Vigdísar höfðu lagt það út á verri veg að hún væri einstæð, en að nauðsynlegt væri að hafa hjón á Bessastöðum. Þarna var hennar nánasti keppinautur, Guðlaugur Þorvaldsson, spurður út í það mál. Og vert er að minnast þess að það munaði aðeins fáum atkvæðum að hann yrði kjörinn en ekki Vigdís. Og hann sagðist telja „nauðsynlegt að forseti Íslands hefði góða konu sér við hlið“.
Góða konu!
Þetta er ekki rifjað upp hér hinum ágæta Guðlaugi til lasts, en það segir nokkra sögu að fyrir aðeins hálfum fjórða áratug skuli maður sem virtist ekki þykja annað koma til greina en að forseti væri karlkyns hafa næstum náð kjöri. Og lítill söknuður eftir þess konar tíðaranda.
Þegar að því kom að velja eftirmann Vigdísar ákvað ég í byrjun og með sjálfum mér að skipta mér ekki af því, blanda mér ekki í það. Annars vegar að embættið væri of valdalítið og veigalítið fyrir almennan kosningaslag með tilheyrandi hugaræsingi, auk þess sem mér sýndist fram komið nóg af góðu fólki: mér fannst ekki breyta stóru hvort næstu árin á Bessastöðum sætu önnurhvor Guðrúnin, Pétur eða Ólafur. Kosningabaráttan var framan af kurteisleg, eins og hæfir tilefninu, en svo fór hún að hverfast um mikinn æsing og pirring út í Ólaf Ragnar; íhaldsmenn fóru mikinn í greinaskrifum, og ríkir og valdamiklir kallar birtu heilsíðuauglýsingar þar sem þeir útmáluðu galla og ókosti Ólafs. Og þá kom upp í manni Kristjánsmómentið gamla: ég vildi styðja þann sem gamla, auðuga og íhaldssama valdabatteríið sem þóttist eiga landið teldi sér ósamboðið að hafa á Bessastöðum (sami tendens hefur mjög látið á sér kræla vegna skítkasts sömu afla í garð Guðna Th.)
Svo að ég ákvað að birta grein til stuðnings Ólafi Ragnari í víðlesnu blaði nokkrum dögum fyrir kosningar. Þar minnti ég á að hann væri „einn af oss“ og hét pistillinn „Strákur að vestan“. (Hvað annað?!) Og ég veit að sú grein þótti ekki spilla fyrir, enda gáfu stuðningsmenn hans út bók um kosningabaráttuna og sigurinn árið eftir, og endaði hún á þessari tilvitnun; strákur að vestan.