fbpx
Mánudagur 13.janúar 2025

Úti að aka

Nú er það bíómyndin

Ritstjórn DV
Föstudaginn 27. maí 2016 13:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég held það deili margir með mér þeirri tilfinningu að tíminn líði hratt, en mér finnst ég vera tiltölulega nýkominn úr merkilegu ferðalagi yfir alla norður-amerísku heimsálfuna á hálfrar aldar gömlum bíl. En samt er það svo að um daginn hringdi Sveinn vinur minn í Plúsfilm og sagði að þar sem nú þessa dagana væru rétt tíu ár frá þeirri för þá ætlaði hann að frumsýna heimildamynd um reisuna í Bíó Paradís. Og ég áttaði mig á því að ég yrði að búa mig undir það andlega að endurlifa förina, horfa á sjálfan mig á bíótjaldi, aðeins dökkhærðari en ég er núna en samt sami kjáninn; endurlifa för sem útgefandinn Jóhann Páll Valdimarsson, sem var ljósmyndarinn í hópnum, sagði að hann hygðist skrifa bók um, eða eins og hann orðaði það: „bók sem fjallaði um hvernig lifa skuli af slíka helreið með fjórum geðsjúklingum og yrði notuð við kennslu í geðhjúkrunarfræði í skólum landsins.“

„Hef lesið bókina þína“

Reyndar hefur sú bók enn ekki birst, en þó kom út bókin „Úti að aka – á reykspúandi kadillakk yfir Ameríku“ með ljósmyndum Jóhanns og texta okkar Ólafs Gunnarssonar og gerði það gott á markaði hér um árið. Hún hefur dálítið sérstakan sess í höfundarferlinum því að hún vann að einhverju leyti nýjan lesendahóp, og þá hjá fólki sem er ekki endilega spennt fyrir bókmenntum en hefur þeim mun meira gaman af bílum og ferðalögum; ég hef á síðasta áratug ósjaldan lent á spjalli við stórskemmtilega menn sem hafa lesið þessa bók eina af höfundaverki okkar Ólafs, og reyndar veit ég alltaf um hvað er verið að tala þegar einhver segir við mig: „Já, ég hef lesið þarna bókina!“ að þá er átt við Úti að aka.

Sumir hafa gert grín að okkur Óla, tveimur miðaldra mönnum að láta einhvern stráka- og töffaradraum rætast, og sumpart gerum við það sjálfir í bókinni, en auðvitað var það fyrst og fremst löngunin til að ferðast á spennandi slóðir sem kveikti í okkur. Sjálfur þýddi Óli Gunn fyrir aldarfjórðungi bókina „Á vegum úti“ eftir bítskáldið Jack Kerouac, mikla uppáhaldsbók okkar beggja, og í kringum mann hafa alla ævi hljómað lög eins og „You get your kicks / on Route 66“ en það er einmitt sá vegur sem við fylgdum megnið af leiðinni. Við Óli, sem höfum lengi þekkst, höfðum oft talað um að fara svona ferð, og þegar við ákváðum loks að láta verða af henni og skrifa svo bók um reisuna og bárum málið undir útgefanda vorn, Jóhann Pál, þá varð hann svo spenntur að hann ákvað semsagt að slást í förina. Þegar svo var orðið klárt að við færum þetta á hálfrar aldar gömlum kagga varð ljóst að einhver yrði að vera með sem kynni að laga bilanir í þannig bílum, og það varð okkur til happs að meginsnillingurinn Steini í Svissinum var tilbúinn í slaginn. Enn bættist svo í föruneytið þegar ég hitti semsé gamlan vin og samstarfsmann, Svein M. Sveinsson í Plúsfilm, og þegar hann heyrði um væntanleg plön fannst honum ekki annað koma til greina en að hann fylgdi í humátt á eftir og filmaði okkar för. Og er hann semsé að frumsýna afraksturinn þessa dagana.

Arnaldur Indriða í San Fransisco

Svo gerast óvæntir hlutir í sambandi við svona lagað, eins og allt annað. Þegar við, fyrir semsé rúmum áratug, vorum að búa okkur undir að leggja af stað, þá hitti ég kollega okkar Óla, Arnald Indriðason, í einhverju boði með útlendingum sem hér voru staddir. Í spjalli okkar tveggja barst í tal væntanleg ökuferð yfir Ameríku og að við Óli værum þar með að láta gamlan draum rætast, láta verða af þessu sem við höfðum talað um í tíu, tuttugu ár. Og þá kom í ljós að þetta hafði einnig verið draumur Arnaldar og vinar hans og samstarfsmanns, Sæbjörns Valdimarssonar, sem nú er látinn. Og það varð að samkomulagi að við myndum allir halda hópinn, þeir á sínum bíl sem þeir myndu leigja, og við á okkar gamla. Og ætlunin var að leggja í hann um 20. apríl 2006. Þegar til kom neyddumst við Óli til að fresta okkar för um mánuð, einn úr föruneytinu var kallaður inn í smá aðgerð, en frestunin hentaði ekki Arnaldi, því að hann ætlaði að útskrifa son sinn úr menntaskóla um það bil sem við Óli myndum leggja í hann. Niðurstaðan varð sú að Arnaldur og Sæbjörn færu af stað svona viku á eftir okkur, flygju til Denver inni á miðri heimsálfunni, og svo héldum við allir hópinn seinni hluta leiðarinnar. En fyrir einhvern misskilning þá gleymdist að ákveða hvernig við myndum hittast eða verða í sambandi; ég hélt að forlagið hefði gengið frá slíku við Arnald, en þar á bæ héldu menn að ég myndi sjá um það, svo að þegar til kom vorum við ekki í neinu sambandi og hittumst ekkert á leiðinni; þá voru farsímar mun ófullkomnari en nú er og farsímakerfi virkuðu lítt í dreifbýli, og enginn okkar sérlega tækjasinnaður. Ameríka er óhemju flæmi eins og menn vita, og þótt tveir bílar séu á svipuðum slóðum á svipuðum tíma er næstum útilokað, bara út frá líkindareikningi, að þeir muni hittast; við „ferðafélagarnir“ vorum semsé einungis á þann hátt samferðamenn að við vorum á ferð í sömu heimsálfunni sömu vikurnar. En á endastöð, í milljónaborginni San Fransisco, hittumst við samt fyrir tilviljun; ég var einn á gangi einhvers staðar miðsvæðis þegar ég heyri Arnald kalla til mín.

Allt sem bilað gat …

Fyrsti hluti leiðarinnar var frá New York og til Chicago. Þar hefst Route 66 og liggur fyrst að mestu í suðurátt og svo í vestur alla leið til Los Angeles. Í Chicago beið okkar hálfrar aldar gamli kagginn, og virtist satt best að segja ekki vera í sérlega góðu standi; fyrsta hluta leiðarinnar fórum við á öðrum örlítið yngri. Þar sem við Sveinn í Plúsfilm vorum saman á gangi í útjaðri Chicago og í námunda við verkstæðið þar sem var verið að tjasla saman kagganum gengum við fram á bílasölu og þar skellti Svenni sér á gamlan BMW með topplúgu; úr henni myndi hann geta filmað ef einhver keyrði fyrir hann. Og við lögðum semsé af stað þessa óraleið á tveimur gömlum og slitnum bílum sem alltaf voru að bila á víxl, og stundum báðir í einu. Setti þetta mjög svip á okkar för, sem varð ólíkt minna túristaleg fyrir vikið; í stað þess að stoppa eingöngu á þeim merkilegustu stöðum á leiðinni þar sem allir stoppa og túristabækur mæla með, þá vorum við líka langdvölum í hinum fáheyrðustu plássum, því það var verið að reyna að laga bílana. Eitt sinn vorum við á vegamóteli þar sem við höfðum gist þá nóttina, vorum að fá okkur morgunverð og búa okkur til farar, og hittum þá þýskan ferðamann sem var á sömu leið og við, nema hvað hann var á reiðhjóli! Þótti okkur það ærið kúnstugt, enda leiðin óralöng, og óskuðum við honum glottandi góðrar ferðar, vonuðum að hann myndi um síðir ná lokatakmarkinu. Svo spændum við úr hlaði á köggunum okkar. Þegar liðið var á dag hittumst við aftur; hann hjólaði framhjá og veifaði elskulega til okkar þar sem við vorum að reyna að laga bílana í vegarkanti.

Sérvitringar í svækju

Það varð ærið heitt inni í bílunum, sérstaklega eftir því sem við komum sunnar og vestar, það voru langar leiðir sem lágu um eyðimerkur Arizona og Nýju-Mexíkó, og í Mojave-eyðimörkinni var hitinn kominn yfir 40 gráður. Og hafi einhvern tíma verið loftkæling í gömlu bílunum okkar, þá var hún í það minnsta fyrir löngu hætt að virka. Við ferðafélagarnir vorum allir heldur sérvitrir, eins og menn verða gjarnan með árunum, vilja hafa hlutina eftir sínu höfði, og stundum stönguðust hugmyndir okkar um ferðatilhögun og annað slíkt á. Var ekki alveg laust við að menn væru að verða örlítið leiðir hver á öðrum er við loksins náðum til Kyrrahafsins eftir vegina um sólbakaðar eyðimerkurnar. Í Los Angeles stoppuðum við í tvo eða þrjá daga og héldum okkur við ströndina, Venice Beach eins og hverfið heitir. Þar fannst mér gott að geta setið einn, á útikrám við ströndina, drukkið nokkra kalda, ameríska bjóra og horft á öldur Kyrrahafsins á meðan þreytan og ferðastressið leið úr mér. Þar sem ég var á gangi síðla dags að hótelinu okkar eftir langa slíka setu sá ég mann sem var að selja bómullarboli með ýmsum myndum og áletrunum, meðal annars þessari sem vakti áhuga minn: „I‘m not an alcoholic. Alcoholics go to meetings!“ Og þá rifjaðist upp frasi sem ég heyrði einu sinni hjá Sigga Valgeirs, en hann sagði vera tilvitnun í leikarann og söngvarann Dean Martin: „Maður er ekki fullur ef maður getur legið á gólfinu án þess að halda sér.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Rashford orðaður við félag í frönsku deildinni

Rashford orðaður við félag í frönsku deildinni
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Sannfærður um að Salah sé ekki á förum frá Liverpool

Sannfærður um að Salah sé ekki á förum frá Liverpool
Pressan
Fyrir 12 klukkutímum

10 hlutir sem farþegar gera sem pirra flugþjóna – „Hættu að snerta okkur. Ekki pota í mig eða banka í mig“

10 hlutir sem farþegar gera sem pirra flugþjóna – „Hættu að snerta okkur. Ekki pota í mig eða banka í mig“
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Benoný fékk sénsinn gegn úrvalsdeildarfélagi

Benoný fékk sénsinn gegn úrvalsdeildarfélagi
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Tottenham í basli með liði í fimmtu deild

Tottenham í basli með liði í fimmtu deild
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Skoraði sitt fyrsta mark í 392 daga – Fékk að taka vítaspyrnu

Skoraði sitt fyrsta mark í 392 daga – Fékk að taka vítaspyrnu