Og meðal annars einn besti texti sem til er á íslensku
Ég greip út úr hillu á dögunum bók Halldórs Guðmundssonar vinar míns „Skáldalíf“ frá 2006 en hún fjallar um og ber saman ævi tveggja af mestu meisturum íslenskra bókmennta á liðinni öld, þeirra Þórbergs Þórðarsonar og Gunnars Gunnarssonar. Þórbergur var ári eldri, fæddur 1888 en Gunnar 1889, og eins og í samræmi við það þá lést Þórbergur ári fyrr, í nóvember 1974 en Gunnar í nóvember 1975. Aðferð Halldórs er sígild í ævisagnaritun, það er talað um „parallel lives“ og er þá fjallað um líf tveggja ólíkra manna hverra ævi verður samt á einhvern hátt furðulega hliðstæð eða samfallandi. Gunnar og Þórbergur virðast í fljótu bragði ólíkir menn og svo ólíkir höfundar að eflaust eru ýmsir til sem hrífast af verkum annars þeirra en hundleiðist hinsvegar það sem hinn skrifaði, og öfugt, en samt sem áður eru hliðstæðurnar með þeim furðu miklar.
Um þetta segir Halldór í fyrsta kafla bókarinnar Skáldalíf: „Þeir voru fæddir með árs millibili /…/ hvor á sínum sveitabæ á Austurlandi. Báðir voru elstir sinna systkina, báðir sprottnir úr samfélagi sem var miklu skyldara átjándu öldinni en þeirri tuttugustu. Og báðir fundu ungir að þeir tilheyrðu ekki alveg þessum heimi, gátu ekki hugsað sér að feta í fótspor kynslóðanna, þráðu eitthvað annað; það var í þeim þessi kláði sem Þórbergur kallaði skrifsýki. Átján ára gamlir fóru þeir endanlega að heiman, Þórbergur til Reykjavíkur, Gunnar til Danmerkur. Þeir héldu sannarlega ólíkar leiðir sem rithöfundar en ekki alltaf sem menn; þeir áttu sterkar rætur í íslenskri kristni og háðu marga glímu við guð; þeir upptendruðust af hugsjónum sem sumar gengu þvert á aldarfarið; og ástin setti sterkan svip á verk þeirra beggja, enda kynntust báðir forboðinni ást og áttu börn í því sem af óræðum ástæðum er kallað lausaleikur. Og um skeið komust þeir undir óhugnanlegt áhrifavald hvor síns einræðisherrans, Hitlers og Stalíns.“
Það er auðvitað næg ástæða til að lesa Skáldalíf hvað bókin er læsileg og skemmtileg, en svo kemur hitt líka til að hún minnir á hvað höfundarnir sem hún fjallar um eru mikilsverðir fyrir okkar bókmenntasögu; hún mun hvetja fólk til að rifja upp bestu bækur þessara góðu en ólíku skálda, og leiða okkur á spor fleiri merkilegra bóka um þessa tvo reginsnillinga sem báðir voru upprunnir fyrir austan.
Mér sýnist augljóst að verk Þórbergs séu nú um stundir nokkuð mikið lesin og lifandi, það sér maður á ýmissi umfjöllun eldra fólks og yngra og tilvitnunum í hans frægustu bækur. Kannski er örlítið þyngra fyrir fæti með bækur Gunnars, maður heyrir stundum og finnur svona utan að sér að margir telji að hans skrif séu meira gamaldags og hátíðleg, á einhvern hátt úrelt. Og vissulega má finna sumt í öllu hans höfundarverki sem ekki hefur elst sérlega vel, og stundum getur stíllinn á hans bókum virst þunglamalegur og stirfinn; á það ekki síst við um hans eigin íslenskun á bókum sem hann áður hafði skrifað á dönsku, en Gunnar eins og flestir vita tók sig til á efri árum og þýddi mörg af sínum verkum þótt til væru afbragðsgóðar þýðingar ýmissa snillinga; hann mun hafa viljað að þetta væri aðgengilegt með sínum eigin orðum. En burtséð frá þessu öllu þá á enginn bókmenntaunnandi að fara á mis við að lesa bestu bækur Gunnars, enda alger klassík þar á ferð. Allir ættu til dæmis að lesa „Svartfugl“ í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar, þessa frábæru litlu bók um morðin á Sjöundá á Rauðasandi.
Og svo er það Fjallkirkjan, þessi mikli bálkur um æskuár skáldsins. Ég las hana alla á táningsárunum, hafði fengið smjörþefinn í lesbókum í skóla þar sem birtir voru kaflar úr Fjallkirkjunni, meðal annars um afa á Knerri, og mér fannst þetta spennandi. Ég fór í framhaldinu af þeim kynnum á bókasafn og náði í bálkinn, og ég man að eins og mér fannst fyrri helmingurinn áhrifamikill að hún yrði minna spennandi eftir því sem leið á, það er að segja eftir að Gunnar, eða semsagt Uggi Greipsson eins og hann heitir í bókinni, er kominn til Danmerkur og farinn að reyna að hasla sé þar völl sem höfundur. Seinna gerði ég mér ljóst að þar myndi hafa verið margt áhugavert sem kannski fór einfaldlega framhjá mér fyrir æsku sakir; auðvitað hlaut að vera spennandi að fylgjast með kynnum unga mannsins af menningarlífi í útlandinu, auk þess sem þar birtast undir öðru nafni ýmsir frægir menn, eins og til dæmis norska stórskáldið Knut Hamsun, en í Fjallkirkjunni lenda þeir Gunnar saman á kenderíi í Kaupmannahöfn. Svo að þegar ég rakst á bókina á fornbókasölu fyrir nokkrum árum þá skellti ég mér á hana. Þetta eru um átta hundruð stórar síður með smáu letri og ég hugsaði að ég myndi fara hratt yfir fyrri partinn, Íslandshlutann, en lesa seinni helminginn almennilega. En ég hafði ekki grautað lengi í fyrstu köflunum þegar ég gerði mér ljóst að yfir svona snilld færi maður ekki á hundavaði. Ég var semsagt með hina gömlu stórkostlegu þýðingu Halldórs Laxness, og í stuttu máli þá fann maður svo víða og sá að þessi fyrri hluti bókarinnar, Gunnar í þýðingu Halldórs, sé einhver besti texti sem skrifaður hefur verið á íslensku. Þarna er frábær náttúruupplifun, snilldarlega dregnar persónur, miklar tilfinningar og ljóðræna, en sjálfur textinn er samt kannski það mikilvægasta af öllu. Halldór hafði auðvitað sinn stíl og snilldarvald á málinu, en ég þykist vita að hann hafi í sínum eigin bókum reynt að forðast áhrif frá stíl Hamsuns, sem er afar smitandi og endurómaði mjög víða í bókum skálda á þessum árum, og gerir reyndar enn. Gunnar var hinsvegar ekkert feiminn við að nota hamsúnskan stíl, svo að segja má að kostir allra þessara meistara komi saman í þýðingunni á Fjallkirkjunni; stílgaldur Gunnars, Hamsun og HKL. Og það er ærið eldfim blanda.
Með öðrum orðum: allir sem unna ritsnilld en hafa ekki nýverið lagst í Fjallkirkjuna í þýðingu Halldórs Laxness ættu að snúa sér að því sem fyrst.
Saga Gunnars er auðvitað ótrúleg, en eftir seinna stríð var hann eiginlega þurrkaður út úr danskri bókmenntasögu, og þar í landi hefur æ síðan verið litið svo á að hann hafi eiginlega aldrei verið til, og hafði hann þó í meira en aldarfjórðung verið einn helsti og mest lesni rithöfundur á danska tungu. Hann yfirgaf Danmörku nokkrum dögum fyrir hernám landsins, eftir að hafa skömmu fyrr fundað með Göbbels og öðrum foringjum Þriðja ríkisins, og hefur sá kvittur legið á æ síðan að hann hafi verið varaður við.
Um hinn höfundinn í Skáldalífi, Þórberg Þórðarson, má held ég segja að hann sé vel lifandi sem höfundur, lesinn og síteraður, og enn geta menn æst sig í pólitískri umræðu vegna ýmissa orða hans og skoðana. Þórbergur var stílsnillingur og húmoristi svo að af bar eins og aðdáendur hans vita, en hitt er ekki öllum ljóst að þetta með stílinn var honum tæpast meðfætt frekar en öðrum, heldur náði hann að virkja orðagaldurinn með þrotlausri vinnu til margra ára; það kemur ágætlega fram með því að skoða þróun óbirtra æskuverka hans sem Helgi M. Sigurðsson sagnfræðingur tók saman og gaf út í bókunum „Ljóri sálar minnar“ og „Mitt rómantíska æði“ (´86-7). Verk Þórbergs eru ólík, og misjafnt hvað fólk metur mest að þeim; ég held að kollegi minn Pétur Gunnarsson telji bernskuminningarnar, eða hinn mikla „Suðursveitarbálk“ sem Þórbergur skrifaði á efri árum hans mikilvægasta verk, en sjálfur get ég endalaust gripið í „Íslenskan aðal“ og „Ofvitann“ mér til sígildrar ánægju – þessar bækur um hugmyndaflugið og æskupælingarnar og þvælinginn og skáldastælana. Ein af áhrifamestu bókum Ameríkana á tuttugustu öld er „Á vegum úti“ eftir Jack Kerouac, og er talin hafa átt þátt í þjóðfélagsbreytingum á liðnum áratugum, en ef þeirri bók er sæmilega lýst kemur í ljós að sú lýsing á ekki síður við „Íslenskan aðal“ sem var skrifuð löngu fyrr.
Svo þegar fólk er búið að endurnýja kynni sín við verk þeirra meginsnillinga sem hér hafa verið gerðir að umtalsefni væri alveg tilvalið að kynna sér fínar bækur sem um þá hafa verið skrifaðar. Ég hef þegar nefnt Skáldalíf Halldórs Guðmundssonar, og rétt er að minna á að fyrir fimm árum kom út ný og ítarleg ævisaga Gunnars Gunnarssonar; „Landnám“ eftir Jón Yngva Jóhannsson. Um Þórberg má minna á ævisögu hans í tveimur bindum eftir Pétur Gunnarsson sem birtist fyrir fáum árum; ekki síst fannst sjálfum mér mikill slægur í seinni bókinni. Og síðast í fyrra kom út marglofuð bók um Þórberg eftir Soffíu Auði Birgisdóttur: „Ég skapa, þessvegna er ég.“
Hafi einhverjir bókmenntaunnendur áhyggjur af því hvað þeir eigi að lesa í sumar, þá tel ég að lausnin á því sé hér fram komin.