Skattaskjól eru þau ríki kölluð sem gera litlar eða engar kröfur um að eignarhald fyrirtækja sé þekkt og innheimta litla eða enga skatta af fyrirtækjum. Með þessu skapa skattaskjólin fyrirtækjum og fjárfestum aðstöðu til að komast hjá skattlagningu. Skattheimta er forsenda þess að stjórnvöld geti byggt upp nauðsynlega innviði og veitt mikilvæga þjónustu. Skattaskjólin veikja því velferðarsamfélagið um leið og þau auka á ójöfnuð þar sem skattaundanskot leiða til þyngri skatta á þá sem standa í skilum.
Í bókinni The Hidden Wealth of Nations eftir G. Zucman er fjallað um eignir í skattaskjólum og þær metnar á 7,6 þúsundir milljarða USD. Í Mið-Austurlöndum og Rússlandi er ríflega helmingur eigna falinn í skattaskjólum, í Evrópu er hlutfallið 10% en 4% í Bandaríkjunum og Asíu. Zucman áætlar að 80% af eignum félaga í skattaskjólum séu ekki talin fram til skatts.
OECD telur upp 38 ríki sem uppfylla ekki lágmarkskröfur um upplýsingaskipti. Á lista OECD má finna Bresku Jómfrúaeyjarnar, Panama, Möltu og Kýpur. Tvö síðasttöldu ríkin eru aðilar að ESB en á listanum er einnig Liechtenstein sem er aðili að EES-svæðinu. En vandinn er víðar ef marka má óháð samtök sem kalla sig „Tax Justice Network“. Samtökin hafa birt athyglisverðan lista yfir skattaskjól en þar tróna Sviss, Hong Kong og Bandaríkin í efstu sætum. Luxemborg og Þýskaland eru einnig ofarlega á listanum en samkvæmt samtökunum geta erlendir aðilar í vissum tilvikum notið nafnleyndar eða mjög lágra skatta í þessum ESB-ríkjum.
Ísland er þátttakandi í átaki á vegum OECD sem meðal annars felst í því að skiptast á gögnum um fyrirtæki og skattgreiðslur þeirra. Á næstunni mun Ísland staðfesta reglur OECD sem skylda fjölþjóðleg fyrirtæki til að sundurliða ársreikninga sína niður á einstök ríki. Með því að upplýsa hvernig hagnaður myndast í hverju ríki fyrir sig verður erfitt fyrir fjölþjóðleg fyrirtæki að flytja hagnað sinn til skattaskjóla. Einnig hafa verið innleiddar hér reglur um milliverðlagningu sem draga úr möguleikum fjölþjóðlegra fyrirtækja til að færa hagnað milli dótturfélaga sinna í ólíkum löndum.
Auk þess að taka þátt í alþjóðlegri samvinnu gegn skattaskjólum er mikilvægt að kanna hvaða lagabreytingar hér á landi gætu miðað að sama marki. Til að kynna sér það nánar hefur Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis boðað til sín fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra, Fjármálaeftirliti og Seðlabanka.
Ljóst er að það verður ekki einfalt að ná til þeirra sem vilja leyna eignum sínum. Þótt sett yrði bann við því að íslenskir aðilar ættu félög í skattaskjólum, væri mögulegt að komast hjá banninu með því að setja upp erlent skúffufélag utan skattaskjóla. Erlenda félagið gæti þá stofnað félag í skattaskjóli og haft milligöngu um viðskipti við það.
Það yrði til bóta ef upplýst væri hverjir séu raunverulegir eigendur að ráðandi eignarhlutum í íslenskum félögum. Slík upplýsingaskylda er í ýmsum löndum. Raunverulegur eigandi er sá einstaklingur sem nýtur ávinnings af hlutafjáreigninni þótt það kunni að vera í gegnum skúffufélag. Hugsanlega mætti setja hliðstæða kröfu um raunverulega eigendur annarra fjármálagerninga svo sem innstæðna og skuldabréfa. Einnig hefur verið nefndur sá möguleiki að leggja skatt á greiðslur íslenskra félaga til félaga í skattaskjólum en fleiri leiðir koma til greina og verða skoðaðar nánar á næstunni. Í ljósi umfangs vandans hér á landi er afar mikilvægt að Ísland verði í fremstu röð í hinni alþjóðlegu baráttu gegn starfsemi skattaskjóla.