fbpx
Mánudagur 27.janúar 2025

Minningar frá hrundögunum 2008

Þér að segja

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 22. mars 2016 14:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er ógleymanlegt þetta haust stórra atburða og mikilla tilfinninga, og byrjaði allt í mikilli gleði; í byrjun september vorum við fjölskyldan í miðbænum með hálfri þjóðinni að fagna silfurmeisturunum í handbolta frá Ólympíuleikunum í Peking; það var þar og við það tilefni sem frasinn „stórasta land í heimi“ heyrðist fyrst. Svo hélt ég sjálfur utan annan október í langþráða skemmtiferð og ætlað að vera tæpa viku á ferðinni. Maður hafði reyndar dagana á undan heyrt um að það væri mikill órói í fjármálaheiminum; Glitnir var að fara á hausinn, íslenska efnahagsundrið, sem hafði um sinn gert okkur að ríkustu þjóð heimsins virtist standa á brauðfótum. En það var verið að funda, menn reiknuðu með aðgerðum frá ríkisstjórninni; engan óraði fyrir því að allt gæti hrunið, það var bara ómögulegt. Og þegar maður var kominn út til Spánar þá var heimsins áhyggja fjarri; við vorum fjórir gamlir bekkjarbræður út Menntaskólanum við Tjörnina í þessari för; sigldum í heila viku glaðir á seglskútu í Miðjarðarhafinu, stemningin í hópnum var frábær, við höfðum ekki verið í svona félagsskap allir saman í áratugi, veðrið var snilld og með góðum byr, lífið frábært.

Meðan Róm brann

Það er dálítið skrýtið til þess að hugsa að þegar mesta efnahagskreppa í manna minnum reið yfir Ísland, þegar allt bankakerfið hrundi á einu bretti og hrein neyð virtist skyndilega vofa yfir landinu sem hafði árum saman baðað sig í peningum og hagsæld, þá skuli maður hafa verið á siglingu, áhyggjulaus og glaður í Miðjarðarhafinu.

Það hljómar allavega eitthvað einkennilega. Að vísu vorum við bara á seglskútu, en ekki einhverri af lúxussnekkjum útrásarinnar, en það er sama. Við sigldum á daginn, fyrir nes og framhjá klettum, inn í víkur og voga, heimsóttum ólíka hafnarbæi á kvöldum, og þá fóru menn að huga að farsímum sínum eftir að hafa komist í hafnasturturnar og við vorum svo sestir með drykk í hlýrri kvöldgolunni, og alltaf urðu fréttirnar að heiman enn ískyggilegri en þær höfðu verið daginn áður, og hafði það þó hljómað sem heimsendir.

Við töluðum auðvitað við eiginkonur okkar og heyrðum kvíðann, ríkisstjórnin hafði fundað allan daginn, menn bjuggust við að heyra um björgunaraðgerðir innan skamms. Svo fréttist að það yrðu engar aðgerðir. Það væri nefnilega ekkert hægt að gera. Það væri allt farið á hausinn. Við áttum vini í bisnesslífinu, þeir skulfu og nötruðu; einn okkar átti vin sem var einn af auðugustu milljarðamæringunum, einn af þeim sem áttu einkaþotu; hann var orðinn mjög hrokafullur uppá síðkastið, hafði ekki nennt í eitt tvö ár að hitta menn sem áttu minna en hundrað milljarða eða svara símtölum frá slíkum ræflum; nú hringdi hann, einn af okkur bátsverjum fór upp á bryggju með farsímann við eyrað, kom svo aftur aðeins sleginn og undrandi; þetta var auðkýfingurinn, bljúgur og viðkvæmur, var bara að hringja til að athuga hvort hann ætti ekki einhverja vini ennþá. Daginn eftir var Geir Haarde í sjónvarpinu: Guð blessi Ísland. Við heyrðum að það væri allt að lamast heima, hæpið að hægt yrði að kaupa eldsneyti eða lyf til landsins. Spurning hvort ekki yrði matarskortur. „Ég mun nú alltaf geta gaukað að ykkur saltfiski strákar mínir,“ sagði einn í áhöfninni, en hann fæst við fiskverkun. Einhver heyrði að Baugur væri farinn á hausinn, og þar með allar búðirnar. Ég sendi sms á góðan vin minn heima: „Er Baugur farinn á hausinn?“ Og fékk heldur kaldhamrað svar: „Baugur?? Það er allt farið á hausinn!“ Við fundum að íslensk kreditkort voru ekki lengur tekin gild í spænskum hraðbönkum. Ískyggilegast fyrir mig var samt að heyra að líklega væri Icelandair líka um það bil að rúlla, að vélar félagsins yrðu kyrrsettar á erlendum flugvöllum; ég átti að fljúga með einni slíkri heim daginn eftir.

Priority pass

Ég flaug frá Palma um hádegisbil og var lentur á Heathrow-flugvelli um tvö leytið að staðartíma um eftirmiðdaginn; vélin mín til Keflavíkur var ekki á áætlun fyrr en um átta eða níu leytið um kvöldið svo ég átti fyrir höndum langa bið á þessum stóra enska alþjóðaflugvelli. Sem var á sinn hátt heldur kvíðvænlegt, ekki síst út af hinu óljósa ástandi heimafyrir; maður vissi að það væri undir hælinn lagt hvort íslensk greiðslukort virkuðu lengur, og þótt svo færi að greiðsluvélar tækju þau gild hafði enginn hugmynd um gengi íslenska gjaldmiðilsins í hamförunum; maður gat vænst þess að bjór og róstbífsamloka myndi kosta þegar upp væri staðið eitthvað í líkingu við tvenn daglaun. En ég var svo heppinn að hafa í veskinu aðgang að betri stofu flugvallarins, „The lounge“; eins og flestir aðrir Íslendingar reyndist maður hafa ferðast á fyrsta farrými í lífinu undanfarin velti- og bóluár, og einhvern tíma þegar bankinn minn, sem síðan er farinn á hausinn í gjaldþroti af heimssögulegri stærð, fann upp á því að öppgreida hjá mér kreditkortið fylgdi með „Priority Pass“ – aðgangur að „lánsum“ á flestum skárri flugvöllum, og nú gat ég semsé fundið mér athvarf á slíkum stað allan eftirmiðdaginn og fram á kvöld; þar voru leðursófasett og mikið úrval dagblaða og tímarita, maður gat setið í friði eins og breskur hefðarmaður í chesterfieldsófa, vantaði bara opinn eld í arni og hund við lappirnar – svo var líka boðið upp á bjór og maísflögur með salsaídýfu.

Háð og níð í íhaldspressunni

Og þarna kom ég mér fyrir. Þar var mjög rólegt og fámennt lengi eftirmiðdagsins, en mér þurfti ekki að leiðast, því að frá sjónarhóli Íslendings höfðu bresku dagblöðin sjaldan verið eins spennandi og einmitt þennan dag; forsíðurnar og raunar megnið af fréttasíðum gjörvallrar bresku pressunnar voru undirlagðar af fréttum um efnhagshamfarirnar á Íslandi, menn höfðu aldrei upplifað annað eins; gjörvallt bankakerfi heils ríkis á hliðina á einni nóttu, „total economical meltdown“ í nágrannalandinu í norðri, og það sem gerði málið enn meira krassandi var að á umliðnum fáum árum höfðu menn staðið á öndinni yfir sívaxandi veldi ungra íslenskra auðmanna sem virtist allt verða að gulli; þeir höfðu keypt upp fyrirtæki, fasteignir og verslunarkeðjur um allar Bretlandseyjar, og opnað bankaútibú sem gátu boðið betri kjör en virðuleg og gamalgróin fjármálafyrirtæki í The City; að auki höfðu þessir íslensku greifar sífellt verið með í sínu föruneyti, sínu staffi hreinlega, forystumenn þjóðarinnar, forseta og ráðherra sem voru óþreytandi að tala við breska fjölmiðla og útskýra þá staðreynd að íslenskir braskarar virtust geta breytt vatni í vín vegna þess að þeir væru afkomendur þeirra frjálsbornu ofurmenna sem áður buðu hafi og stormum byrginn og sigldu þá sjói sem engir aðrir þorðu að hætta sér út á og birtust fyrir vikið á ströndum framandi landa eins og geimfarar frá fjarlægum stjörnum og legðu undir sig löndin. Og upprifjanir á þeim ræðuhöldum og öðrum slíkum fylltu nú spaltana hjá dálkahöfundum sömu blaða, og enskir eru meistarar háðs og tvíræðni í slíkum skrifum, ekki síst voru pistlahöfundar íhaldspressunnar nístandi naprir; ég las lengi dags Daily Telegraph og Daily Mail fullur af samblandi aðdáunar á stílsnilld og hugkvæmni þessara penna og hryllings yfir því af hve ríkri innistæðu þórðargleði þeirra reyndist vera yfir ógæfu lands míns og þjóðar.

Svo tók Lánsið að fyllast

Ég tók varla eftir því að fleira fólk var komið inn í Lánsið; undir kvöld var raunar allt að fyllast – þegar leið að brottför Icalandair-vélarinnar til Keflavíkur – þar sem ég sat mynduðu fjórir stæðilegir leðursófar ferhyrning og ég sat í horni eins þeirra falinn á bakvið dagblaðið, og það rann upp fyrir mér að það fólk sem í kringum mig var sest talaði íslensku. Að svo miklu leyti sem eitthvað var talað; maður fann að í hvert sinn sem einhver hugðist taka til máls var sem hann þyrfti fyrst að lyfta þungum steini frá hjarta sér. Þegar ég fletti blaðinu sá ég að flestir horfðu í gaupnir sér eða ofan í borðið; fólk í fínum jakkafötum og með skrautleg bindi og hálsklúta, og það var auðheyrilegt á öllu að þau komu beint úr íslenska efnahagsundrinu, hverra rústum fólk var nú að hæðast að um allan heim, og ég fann að þessir samlandar mínir voru að sjálfsögðu á þann hátt verr settir en ég sjálfur, sem hafði ekki áhyggjur af öðru en því að samfélag mitt og heimaland var á augabragði sokkið í botnlausa skuldahít, að það var greinilega búið á umliðnum dögum að tapa atvinnu sinni, lífinu sem það hafði lifað, og kannski aleigunni með; þetta var fólk úr banka- og fjármálageiranum á leið heim; í London höfðu þau engin erindi lengur; voru tæpast velkomin ef að var gáð.

„Önnur gildi í lífinu“

Ég heyrði það skiptast á orðum, sem það dró upp úr sér með erfiðismunum, eins og fólk sem vill létta af hjarta sér talar við sína nánustu. Ég ætlaði að leggja frá mér blaðið og heilsa fólkinu, eins og siður er Íslendinga og kurteisisvenja, en fannst ég þá þegar vera búinn að liggja á hleri, það væri orðið of seint að láta fólkið vita að bakvið blaðið í horninu leyndist maður sem skildi þeirra tungumál, svo ég sat um stund hreyfingarlaus, beið færis að smokra mér burt svo lítið bæri á, úr þessu trúnaðarsamtali í sófunum fjórum inni í betri stofunni. Og heyri þá einn þeirra segja:

 -Þetta kennir manni kannski að fara að lifa fyrir önnur gildi í lífinu. Gegnum síður Daily mail fann ég streyma undrunarbylgjur frá þeim hinum. Hvað gat maðurinn átt við? Uns eitt þeirra spurði: -Eins og hvaða gildi? -Tja, eins og kannski fjölskyldu og vini …? sagði samlandi minn afsakandi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 klukkutímum

Hallur ráðinn rekstrarstjóri prentlausna hjá OK

Hallur ráðinn rekstrarstjóri prentlausna hjá OK
Fókus
Fyrir 3 klukkutímum

Fræðsluskot Óla tölvu: Splunkuný tækni frá Open AI

Fræðsluskot Óla tölvu: Splunkuný tækni frá Open AI
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Sigríður segir Áslaugu haldna ,,miklu blæti“

Sigríður segir Áslaugu haldna ,,miklu blæti“
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Frá Chelsea til Aston Villa

Frá Chelsea til Aston Villa
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Áslaug Arna selur framboðsvarning – Hjartastuðtæki og Heimlich-leiðbeiningar fylgja ekki með

Áslaug Arna selur framboðsvarning – Hjartastuðtæki og Heimlich-leiðbeiningar fylgja ekki með
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Víkingi refsað enn á ný – Sektin hækkar vegna breytinga á ákvæði

Víkingi refsað enn á ný – Sektin hækkar vegna breytinga á ákvæði