fbpx
Mánudagur 27.janúar 2025

Grímur grallari

Þér að segja

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 12. febrúar 2016 10:21

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einhvern tímann í fyrra var töluverður hvellur á samfélagsmiðlum þegar Ríkisútvarpið sjónvarp auglýsti að það væri að hefja sýningar á nýjum leiknum sjónvarpsþáttum fyrir börn frá breska sjónvarpinu, og myndu þeir heita „Bara Villi.“ Og innan sviga stóð á frummálinu: (Just William). Því að það var sem marga grunaði að hér væri átt við sögupersónu sem fyrir svona hálfri öld var eftirlæti margra íslenskra krakka og hér þá Grímur grallari. Ég var einn af þeim sem skrifaði reiðilegan status, mig minnir að ég hafi notað orðalagið að það væri „verið að spræna yfir þjóðmenninguna“, með óbeinni tilvísun í upphaf frægra blaðadeilna Thors Vilhjálmssonar við Kristmann Guðmundsson. Stundum þarf að draga fram stóru kanónurnar. Og auðvitað fór það svo að okkar góða Sjónvarp sá að sér og þættirnir hétu Grímur grallari, og Bara Villi innan sviga.

Snillingurinn Richmal Crompton

Bókaflokkurinn Just William eftir Richmal Crompton kom upphaflega út í Bretlandi á þriðja áratug liðinnar aldar og er löngu orðin bókmenntaklassík þar í landi. Það var svo upp úr 1960 sem bókaútgáfan Setberg fór að gefa flokkinn út á íslensku: „Grímur grallari“, „Grímur og útilegumennirnir“, „Áfram Grímur grallari“, „Grímur og smyglararnir“ o.s.frv. Prýðilega þýðingu gerði Guðrún Guðmundsdóttir, en þess sem gerði teikningarnar fyrir íslensku útgáfuna er ekki getið, en þær myndskreytingar eru reyndar ekkert sérstakar, svona fyrir minn smekk. Það var Arnbjörn í Setbergi sem gaf bækurnar út og þegar ég var formaður í Rithöfundasambandinu var hann formaður útgefenda svo að við hittumst stundum, og alltaf spurði ég hann hvenær hann ætlaði að endurútgefa Grím grallara. Þá sagðist hann reyndar hafa fengið stundum ákúrur á sínum tíma fyrir að bjóða upp á svona óknyttabókmenntir, eins og sumum þótti þær vera.

Hylling lífsgleðinnar

Það má kannski segja að helsta inntak bókanna sé hylling á lífsgleðinni, og þá helst í andstöðu við fágun og yfirborðsmennsku, sem ekki síst er að finna hjá Bretum, en bækurnar gerast að mestu í einhverri óskilgreindri enskri smáborg. Það er lífsgleði krakkanna, Gríms og vina hans, sem gefur tilverunni gildi. Hann er einn af þessum krökkum sem ekki getur setið kyrr, þarf að vera úti að leita uppi ævintýri, og hugmyndaflugið til þess er endalaust. Fyrir vikið þykir ekkert verra en að þurfa að sitja í prúðmannlegum stellingum, fylgja fáguðum kurteisisreglum, vera látinn klæðast sparifötum. Ein af skemmtilegustu Grímsbókunum sem ég endurlas um daginn heitir „Grímur grallari og Lotta frænka“. Þar kemur meðal annars fram að hann eigi guðmóður, sem heitir frú Krans. Og móðir Gríms finnur upp á því að fara með drenginn á ljósmyndastofu til að geta sent guðmóðurinni mynd af drengnum – fyrst þarf hann auðvitað að stríla sig upp í spariföt og stífbónaða blankskó, og það þótt það sé ekki sunnudagur. Systir hans og vinkona hennar eru sendar með drenginn á ljósmyndastofuna og þær eru að kafna af hlátri á meðan stimamjúkur ljósmyndarinn er að reyna að fá drenginn til að brosa með því að kalla hann Gimma litla, en án árangurs, því að hann er sérlega „alvarlegur“ á myndinni sem send er guðmóðurinni; „raunamæddur“ segir hún í svarbréfi, þar sem hún býður honum í afmæli til sín – sjálfsagt í von um að gleðja hans dapra geð.

Fjölskyldualbúmið

Aftur er hann kominn í sparifötin og í þetta afmæli, á meðan vinir hans eru úti í skógi að leita að hreiðrum. „Hann var reyndar fyrsti gesturinn og var vísað til stofu. Hún var með hátíðlegum glæsibrag, en þunglamaleg og ógnvekjandi eins og allt heimili frú Krans, að henni sjálfri meðtalinni.“ Hann er settur niður og látinn skoða fjölskyldualbúm, en hefur sem betur fer blýant sér til aðstoðar. En svo birtist frú Krans sjálf í stofunni „ásamt þeim gestum, sem höfðu ekki verið nógu snarráðir að afsaka fjarveru sína. Boðin hjá frú Krans voru á við jarðarför. Allur gáski koðnaði niður á þröskuldinum, og gestirnir liðu eins og vofur inn í stofuna og heilsuðu húsmóðurinni í lágum hljóðum. Rödd hennar var dimm og djúp.“

Um aðra konu í bókinni, sjálfa Lottu frænku sem getið er um í titli hennar, hugsar Grímur þegar hann lítur á hana að hún „hljóti að eyðileggja hverja skemmtun með nærveru sinni einni saman.“ Og svo bætir höfundurinn við: „Faðir hennar hafði verið í Fíladelfíusöfnuðinum, og dóttur hans hafði verið kennt að líta á dýrkendur gleðinnar sem handbendi djöfulsins.“ Einhver gæti kannski haldið, að óathuguðu máli í ljósi þessara tilvitnana, að stíll bókanna hljóti að litast af einhverri karlrembu, en þá er þess að gæta að höfundurinn, Richmal Cromton, var kona, eins og svo margir góðir barnabókahöfundar. Um hana má fræðast með því að gúgla nafn hennar, eða Just William.

Þær reynast stórfínar

Og reyndar er það svo að á endanum semur Grími stórvel við þessar gömlu stífu konur. Fólkið í veislu frú Krans fær óvænta skemmtun við að skoða fjölskyldualbúmin þar sem Grímur er með blýantinum búinn að bæta yfirskeggi og múnderingum inn á; sú gamla veit ekkert af því en finnur af hyggjuviti sínu að það er guðsyninum að þakka að það er miklu léttari og betri stemning í veislunni hennar núna en vanalega. Og Grímur dregur Lottu frænku með sér í Tívolí, og vinum sínum líka, og þótt frænkan sé í upphafi efins um húmbúkk og syndsamlegar brellur sem þar sé boðið upp á þá fer það svo að hún hrífst með fjörinu og lífsgleðinni, gleymir sér í kókoshnetukasti og ætlar ekki að geta slitið sig frá hringekjunni. Á endanum eru það drengirnir sem verða dauðuppgefnir á því hvað frænkan skemmtir sér, vinir Gríms laumast heim, en hann neyðist kúguppgefinn til að fylgja henni í öll tæki og alla viðburði. Þegar þau loks koma heim spyr Helga móðir Gríms hvort ferðin hafi ekki verið þreytandi fyrir frænkuna, sem var sest í stól og hugleiddi atburði kvöldsins: „Nei, hún gat ekki hafa gert þetta allt – ellegar séð svona margt. Það var ógerningur – alveg óhugsandi! Hana hlaut að hafa dreymt þetta. Hún hafði horft á einhvern annan gera þetta. Sjálf hlaut hún að hafa gengið um í hægðum sínum og horft á Grím skemmta sér. Þannig hlaut það að hafa verið! Hún brosti örlítið raunamædd og svaraði: „Auðvitað er ég dálítið þreytt. En mér sýndist Grímur litli skemmta sér vel.““

Grímur og sálfræðingurinn.

Ég man eftir að í einni þessara bóka, sem hét „Grímur og sálfræðingurinn“ og ég eignaðist sem krakki, en er nú búinn að brjóta og týna, segir einmitt frá ungum barnasálfræðingi sem er að gera hosur sínar grænar fyrir Auði, stóru systur Gríms, og kemur í heimsókn á heimili þeirra og fær að gista þar. Sálfræðingurinn hafði mjög boðað endalausa þolinmæði fullorðinna gagnvart börnum, spurningum þeirra og fróðleiksfýsn. Til allrar óhamingju hefur Grímur haft veður af þessum kenningum unga mannsins, og það fer reyndar svo að þegar sá yfirgefur heimilið daginn eftir er hann algerlega búinn að snúa baki við sínum fyrri boðskap.

Fyrsta sagan í „Grímur grallari og Lotta frænka“ segir af því að Róbert, eldri bróðir Gríms, og vinir hans – þeir eru um tvítugt – ákveða að stofna „bolsévikafélag“ (frumútgáfan kom vel að merkja út á þriðja áratug liðinnar aldar, sem skýrir nafngiftina.) Þeim rennur nefnilega til rifja að allir eigi ekki jafnt; sjálfir eru þeir fátækir skólapiltar á meðan feður þeirra skarta digrum seðlaveskjum. Grímur kemst á snoðir um þetta og hrífst af hugmyndinni og stofnar ungherjadeild bolsévika með vinum sínum; sumir þeirra eiga líka eldri bræður í nýstofnuðum klúbbi Róberts. Það sem þeim yngri svíður auðvitað er það óréttlæti að þeir sjálfir eigi ekkert á meðan stóru bræðurnir búa yfir allskyns dásemdum eins og reiðhjólum, vasaúrum og sjálfblekungum, og jafnvel peningaseðlum. Og allt þetta verður til þess að stóru bræðurnir verða afhuga sinni jafnaðarhugsjón.

Alþjóðleg könnun

Einhvern tímann fyrir svona 20 árum tók ég þátt í alþjóðlegri könnun um hvað væru bestu barnabækur allra tíma, mig minnir að könnunin hafi verið á vegum fagblaðs sænska útgefendafélagsins, og eitthvað í tengslum við Gautaborgarmessuna. Ég man nú ekki nákvæmlega hvað ég setti í efstu sætin, nema að þar var Gulleyja Stevenson og eitthvað eftir Astrid Lindgren, og ég man að þar setti ég líka eina íslenska bók: Jón Odd og Jón Bjarna eftir Guðrúnu Helga. En ég rifja þetta upp nú vegna þess að ég gleymdi, til algerrar skammar, að nefna Grallarann. En það kom þó ekki að sök því að þegar ég sá niðurstöðuna birta í umræddu blaði – ég held það hafi verið þúsund eða tíu þúsund manns hvaðanæva að úr heiminum; rithöfundar, útgefendur, kennarar, bókaverðir o.s.frv. sem svöruðu – þá var Just William-serían þar á topp tíu. Og ég bíð eftir að íslenskir útgefendur fari að hugsa sér til hreyfings og gefa út þennan bókaflokk á ný; þess má geta að aðeins partur af bókunum hefur enn komið út á íslensku, að það er að sjálfsögðu menningarþjóð til vansa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 klukkutímum

Hallur ráðinn rekstrarstjóri prentlausna hjá OK

Hallur ráðinn rekstrarstjóri prentlausna hjá OK
Fókus
Fyrir 3 klukkutímum

Fræðsluskot Óla tölvu: Splunkuný tækni frá Open AI

Fræðsluskot Óla tölvu: Splunkuný tækni frá Open AI
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Sigríður segir Áslaugu haldna ,,miklu blæti“

Sigríður segir Áslaugu haldna ,,miklu blæti“
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Frá Chelsea til Aston Villa

Frá Chelsea til Aston Villa
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Áslaug Arna selur framboðsvarning – Hjartastuðtæki og Heimlich-leiðbeiningar fylgja ekki með

Áslaug Arna selur framboðsvarning – Hjartastuðtæki og Heimlich-leiðbeiningar fylgja ekki með
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Víkingi refsað enn á ný – Sektin hækkar vegna breytinga á ákvæði

Víkingi refsað enn á ný – Sektin hækkar vegna breytinga á ákvæði