fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024

Fyrri heimsstyrjöldin

„Þegar siðmenningin fór fjandans til“

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 26. febrúar 2016 14:01

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir svona þremur árum fór ég til að halda upplestrardagskrá í þýsku borginni Osnabrück. Ég vissi ekkert um staðinn og varla hvar hann var fyrr en ég fór að kynna mér ferðaáætlun. En merkilegt er að nær alltaf þegar maður kemur í þannig pláss þá reynast þau jafnan sögufræg fyrir eitthvað, og eitt það merkilegasta við þessa smáborg var að þar hafði verið saminn hinn „vestfalíski friður“ sem batt endalok á þrjátíu ára stríðið og lagði í raun grunn að helstu ríkjaskipan Evrópu eins og hún hefur verið síðan; áðurnefndur friðarsamningur var semsé undirritaður í Osnabrück 24. október 1648. Og öðru ekki síður merkilegu hafði þessi borg af að státa, en þaðan var semsé rithöfundurinn Erich Maria Remarque, höfundur bókarinnar frægu „Tíðindalaust á Vesturvígstöðvunum“, einni stórbrotnustu stríðsádeilu bókmenntanna. Ég man að ég las hana kornungur, svona þrettán ára kannski, og þar voru atriði sem ég gleymi ekki síðan. Hún byggir á reynslu höfundarins og segir frá táningsstrákum sem sendir eru í fyrra stríðið, skólabræðrum sem halda af stað spenntir og uppveðraðir en eiga eftir að komast að því fullkeyptu. Einn þeirra á snemma bókar betri leðurstígvél en hinir og er nokkuð öfundaður af þeim, þar sem þeir vaða kalda drullu. Svo lendir sprengja á hópnum og sá í stígvélunum særist illa. Félagarnir heimsækja hann á spítala, hafa fengið að vita að það hafi þurft að taka af honum fæturna en að hann viti það ekki sjálfur. Þeir ætla ekki að tala um það, en einn, sem er illa skæddur, getur þó ekki stillt sig um að spyrja hvort hann muni nú mega eiga stígvélin, og þá rennur upp hvað gerst hefur fyrir táningnum í sjúkrarúminu.

Fleiri bækur um fyrra stríðið

Því rifja ég þetta upp að það rann semsé upp fyrir mér á dögunum að hingað til hefði ég mest kynnst sögu fyrri heimsstyrjaldarinnar í gegnum skáldskap. Enn frægari er önnur bók úr sama stríði, gjörólík reyndar, og hana hef ég lesið svo oft að ég kann langa kafla utan að, en það er auðvitað meistaraverk Tékkans Jaroslavs Hasek um Góða dátann – sem óþarft er kannski að kynna meira hér, svo vinsæl sem hún hefur verið á Íslandi lungann úr heilli öld. Og önnur bók úr sama stríði varð mér líka mjög hugleikin, frönsk þótt ég hafi lesið hana á ensku; „Ferð á enda nætur“ eftir franska höfundinn Louis Ferdinand Celine. Hún byggir sömuleiðis á eigin reynslu, en höfundurinn var sendur kornungur á vígstöðvarnar í fyrra stríði, særðist þar illa og er ekki talinn hafa barið fyllilega sitt barr eftir það; með endalausar höfuðkvalir og svefnleysi, þótt hann ætti eftir að lifa langa, undarlega og vægast sagt viðburðaríka ævi. En fyrsti hluti áðurnefndrar bókar greinir semsé frá hryllingnum sem hann upplifði í Styrjöldinni miklu. Og vilji fólk leita í smiðju bókmenntanna til að skilja hversu ógurlegur atburður þessi styrjöld var má vísa til verks sem margir þekkja og unna: „Veröld sem var“ eftir Stefan Zweig; hún fjallar reyndar um árin fyrir styrjöldina, veröld sem leið undir lok með henni – og sýnir að sumt fólk sem var á dögum þessi ár upplifði heimsófriðinn sem einhverskonar heimsendi.

Ljóðlistin – Georg Trakl

Af öllum skáldskap úr fyrri heimsstyrjöldinni held ég að ljóð eftir Austurríkismanninn Georg Trakl hafi haft almest áhrif á mig. Þeim kynntist ég fyrst í tímum í Háskólanum hjá snillingnum Kristjáni Árnasyni, skáldi og þýðanda. Trakl fór sem sjúkraliði í stríðið og hlúði að særðum mönnum í Galisíu, og varð svo mikið um að hann reyndi að skjóta sig; grimmdin og hörmungarnar sem hann upplifði í kringum sig yfirbuguðu hann algerlega, og eftir nokkra stríðsmánuði drap hann sig með of stórum skammti af kókaíni, aðeins 27 ára gamall. Til er stríðsljóð eftir hann í góðri þýðingu Jóhanns Hjálmarssonar, úr bókinni „Hillingar á ströndinni“ (1971):

*Grodek

Á kvöldin bergmála af banvænum vopnum
haustlegir skógar, gullnar sléttur
og blá vötn. Yfir þeim sólin
myrkari snýst. Nóttin umkringir
deyjandi hermenn, villta kveinstafi
tættra vara.
En í högunum, heimkynnum reiðs guðs,
hljóðlega safnast rauð ský,
hið úthellta blóð, kalt skin mánans;
allar götur enda í svartri rotnun.
Undir gullnu limi nætur og stjarna
reikar systurskugginn gegnum þögulan lundinn
til að heilsa öndum hetjanna, blæðandi höfðum;
og lágt óma í sefinu dimmar flautur haustsins.
Ó stoltari sorg! Þér málmölturu,
heitur logi andans elur í dag voldugan sársauka:
óborna niðja.*

Okkar menn kunna líka að láta það heita eitthvað

Frægir íslenskir höfundar hafa gert þessum árum skil, því að þótt Ísland hafi á þeim tíma að sönnu verið „norðan við stríð“ þá urðu menn hér að sjálfsögðu áþreifanlega við það varir og sæfarendur týndu lífinu af tundurduflum og skotárásum. Og stríðslokaárið 1918 er eitt það viðburðaríkasta í sögu þjóðarinnar: hófst með einhverjum lengstu og mestu frosthörkum frá því land byggðist, svo að hægt var að ganga á frosnum sænum frá Reykjavík og upp á Akranes. Í október sama ár hófst svo Kötlugos sem fylgdu mikil flóð og öskufall og sól tér sortna. Og svo kom drepsótt í landið sama haust, spænska veikin svonefnda, en henni lýsir Sjón í listaverki sínu, skáldsögunni „Mánasteini“ (2013): „Reykjavík hefur gersamlega skipt um ásýnd. Ógnvekjandi ró hvílir yfir annasamasta og fjölfarnasta hluta bæjarins. Ekkert hófatak, ekkert skrölt í vagnhjólum, engin vélarhljóð í bifreiðum, engar drunur í mótorhjólum, engar hringingar í bjöllum reiðhjóla. /…/ Dyr verslana hvorki opnast né lokast – enginn fer inn í þær, enginn út úr þeim – enginn flýtir sér heim frá vinnu, enginn fer til vinnu. Enginn býður góðan daginn og enginn býður góða nótt. /…/ Göturnar gapa mannlausar, nema hér og hvar bregður fyrir stakri skuggaveru á ferli.“ Í Mánasteini Sjóns er líka að finna þessa lýsingu sem segir frá því er söguhetjan fer sem aðstoðarmaður læknis í sjúkravitjanir: „Í torfbæ á Bráðræðisholtinu liggur stirðnað karlmannslík í hjónarúmi og fyrir framan það fársjúk kona með lík af kornabarni í hvorum handarkrika. Með veggjum standa barnarúm og gægjast einn eða tveir kollar yfir hverja rúmbrík. Húsbóndinn hafði látist frá fimm smábörnum og kona hans veikst áður en hún gat gert viðvart. Stuttu síðar fæddi hún andvana tvíbura. Nágranni fann hana fyrir tilviljun.“

„þetta djöfulsins land“

Það er töluvert annar tónn eins og vænta má í lýsingu Halldórs Laxness á sömu dögum, en þær má finna í bókinni „Sjömeistarasagan“ (1978): „Slysni væri ef ég gleymdi að segja að við Siggi höfðum þann heiður að lifa endalok heimsstyrjaldarinnar fyrri uppá lofti í Verslun Frón, en leggjast þó sama dag báðir í pest og kend var við spánverja. Þessi plága drap margfalt fleira fólk í heiminum en styrjöldin, og ekki aðeins soldátagrey og annað skyldugt sláturfé, heldur fávísar konur gamalmenni ungabörn og fólk af því tæi sem þykir ekki mikið sport að skutla í styrjöldum. /…/ Þegar við Siggi fórum að dragast í fötin aftur þótti okkur stórskrýtið að við skyldum ekki vera hrokknir uppaf. En ekki voru menn búnir að vera lengi á fótum þegar þeir fóru að gera sér eitthvað til dundurs í þjóðlífinu: að þessu sinni var farið að próklamera kvikindi sem kallað var „fullveldi Íslands“. Þetta gerðist í þeybitru síðla hausts, mig minnir í aur og hálku undir lágskýuðum himni. Í þessum hráslaga komu menn saman, allir sem ekki voru dauðir, að fagna fullveldinu í Bakarabrekkunni og Lækjargötu og horfa á Stjórnarráðið. Það var spilað á lúðrana. Danskur herforíngi stýrði lítilli fylkíngu sjóliða, og kom með íslandsfána í hendinni sem hann dró upp á Stjórnarráðinu okkar til merkis um að danir afhentu okkur íslendíngum hérmeð þetta djöfulsins land; gerði síðan honnör og marséraði til skips með hermenn sína.“

Frábær bók Gunnars Þórs Bjarnasonar

Því er ég nú að rifja upp öll þessi fínheit að á dögunum lá ég heila helgi í sófa niðursokkinn í bók sem ég gat ekki slitið mig frá, en það var semsé „Þegar siðmenningin fór fjandans til – Íslendingar og stríðið mikla 1914–1918“ eftir Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðing; hún kom út í lok síðasta árs og fékk á dögunum Íslensku bókmenntaverðlaunin. Einhvern veginn fannst mér þar tengjast allt saman sem ég hafði áður lesið, bæði skáldskapur og ýmiskonar fróðleikur, meðal annars úr sjóslysa- og svaðilfarabókum; „Þegar Nirði var sökkt“ o.s.frv. um örlög íslenskra skipa í kafbátahernaðinum. Sömuleiðis fékk maður greinargóðan aðdraganda að ríkisarfamorðinu í Sarajevó, en á því hefst einmitt Góði dátinn; maður fékk líka mynd af upplausn og óförum hers Habsborgaraveldisins sem segir frá í sömu bók eftir Jaroslav Hasek. Mest er þó um vert að þarna fær maður mynd af þjóðlífinu á þessum umbrotaárum og skilning á því að umrædd styrjöld hafði rétt eins og sú seinni mikil áhrif á gerbreytta stöðu okkar í heiminum; í stað þess að öll áhrif kæmu frá Danmörku og öll verslun í gegnum Kaupmannahöfn lentum við á yfirráðasvæði Engilsaxa, og höfum í raun verið þar síðan; enskur ræðismaður tók eiginlega að sér utanríkispólitík landsins, og við fórum að versla beint við Bandaríkin. Og ég held það þurfi varla að taka það fram að þessi bók er alger hvalreki fyrir alla sem hafa áhuga á sögu bæði okkar lands og heimsins alls.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 5 klukkutímum

Rússi handtekinn á flugvellinum í Billund með mikið magn sprengiefnis

Rússi handtekinn á flugvellinum í Billund með mikið magn sprengiefnis
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Kona á Vesturlandi óttaðist um líf sitt þegar eiginmaðurinn beindi að henni haglabyssu – „Ég kvaddi börnin mín í huganum“

Kona á Vesturlandi óttaðist um líf sitt þegar eiginmaðurinn beindi að henni haglabyssu – „Ég kvaddi börnin mín í huganum“
Pressan
Fyrir 14 klukkutímum

Féllst þú fyrir þessari falsfrétt? – Ekki er allt sem sýnist

Féllst þú fyrir þessari falsfrétt? – Ekki er allt sem sýnist
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Aron Einar byrjaði í Meistaradeildinni – Verður hann í landsliðshópnum á miðvikudag?

Aron Einar byrjaði í Meistaradeildinni – Verður hann í landsliðshópnum á miðvikudag?
Pressan
Fyrir 16 klukkutímum

Með nýrnabilun eftir að hafa borðað þrjá hamborgara

Með nýrnabilun eftir að hafa borðað þrjá hamborgara
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Töluvert annar hljómur í Sigurði Inga um útlendingamál á nokkrum dögum

Töluvert annar hljómur í Sigurði Inga um útlendingamál á nokkrum dögum