fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024

Hvað er að breytast í húsnæðismálum?

Ritstjórn DV
Föstudaginn 8. janúar 2016 23:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er flestum ljóst að ástandið á leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu er ekki eins og við viljum hafa það og jafnframt er staðreyndin sú að víða um landið, jafnt í minnstu samfélögunum sem þeim stærri, er verulegur skortur á íbúðum til langtímaleigu.

Eitt af stærri verkefnum komandi vorþings er að halda áfram vinnu að úrbótum í húsnæðismálum, til að bæta umhverfi leigumarkaðarins, og nú þegar hefur félags- og húsnæðismálaráðherra lagt fram fjögur frumvörp um það efni.

Þessi frumvörp byggja m.a. á yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, frá maí 2015, og vinnu verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála. Þá hafa frumvörpin verið unnin í samvinnu við hagsmunaaðila, í gegnum samráðsnefnd um húsnæðismál.
Frumvörpin sem nú eru komin fram eiga það sameiginlegt að vera ætlað að auka jöfnuð og öryggi á húsnæðismarkaði, þannig að allir hafi raunverulegt val um búsetuform og eigi aðgang að húsnæði á viðráðanlegu verði.

Fyrst má nefna frumvarp um almennar íbúðir, sem fjallar um stofnframlög til húsnæðis á vegum leigufélaga en umgjörðinni svipar til þess sem við höfum til þessa þekkt sem félagslegt leiguhúsnæði. Lögð er til ný umgjörð um svokallaðar almennar leiguíbúðir og kveðið á um að þessar íbúðir verði að hluta fjármagnaðar með stofnframlögum úr ríkissjóði og frá sveitarfélögum. Stofnframlögunum er ætlað að lækka fjármagnskostnað sem eins og margir vita hefur orðið baggi á sumum fyrri verkefnum af þessu tagi. Almennu íbúðafélögin munu annast kaup eða byggingu, eignarhald, rekstur og úthlutun íbúðanna. Félögin geta verið í eigu ólíkra aðila svo sem sveitarfélaga, stúdentafélaga, hagsmunafélaga eða íbúafélaga. Sýnt hefur verið fram á að möguleiki er á að lækka leiguverð um allt að 18% með þessu fyrirkomulagi.

Áhersla verður lögð á íbúðir af hóflegri stærð og að tryggð verði félagsleg blöndun í leiguíbúðunum. Stefnt er að því að íbúar verði í lægstu tveimur tekjufimmtungum þegar flutt er inn í húsnæðið. Þannig verði tekjulágum fjölskyldum sem hingað til hafa ekki átt kost á íbúðum í félagslegu kerfi sveitarfélaganna veittur aðgangur að ódýru og öruggu leiguhúsnæði. Jafnframt er horft til þess að þetta fyrirkomulag standi til lengri tíma og geti tryggt viðvarandi uppbyggingu og endurnýjun leiguhúsnæðis.

Frumvarpi um húsnæðisbætur er ætlað að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda með greiðslu húsnæðisbóta vegna leigu á íbúðarhúsnæði. Þannig verði stuðningurinn við leigjendur jafnari stuðningi við kaupendur íbúðarhúsnæðis innan vaxtabótakerfisins. Frumvarpið er liður í að jafna húsnæðisstuðning hins opinbera við ólík búsetuform. Helstu breytingar yrðu að grunnfjárhæðir taki mið af fjölda heimilismanna óháð aldri.
Þá verður það félags- og húsnæðismálaráðherra sem fer með yfirstjórn húsnæðisbóta til leigjenda og Tryggingastofnun ríkisins fer með framkvæmdina. Þannig flyst stjórnsýsla og umsýsla með almennum húsaleigubótum frá sveitarfélögum til ríkisins. Fram hafa komið nokkrar áhyggjur af því að leiguverð muni hækka samhliða breytingum á húsnæðisbótum. Til mótvægis var samþykkt á Alþingi í desember síðast liðnum að lækka fjármagnstekjuskatt af leigutekjum.

Frumvarpi til húsaleigulaga er ætlað að auka réttaröryggi leigjenda og koma á meiri festu í samskiptum leigjenda og leigusala svo að draga megi úr líkum á ágreiningi. Sett eru fram skýrari fyrirmæli en áður um hvernig samskiptum leigusala og leigjanda skuli háttað. Lögð eru til ákvæði um fullnægjandi brunavarnir og ástand leiguhúsnæðis. Stuðlað er að gerð ótímabundinna leigusamninga. Lögð eru til ítarlegri ákvæði en áður um eftirlit ráðherra með starfsemi leigumiðlara.

Frumvarpi um húsnæðissamvinnufélög er ætlað að auðvelda starfrækslu slíkra félaga á Íslandi, að auka vernd búseturéttarhafa, skýra og styrkja réttarstöðu þeirra, jafnframt að skýra réttarstöðu annarra félagsmanna sem og húsnæðissamvinnufélaganna sjálfra. Einnig er frumvarpinu ætlað að stuðla að sjálfbærum rekstri slíkra félaga. Lagt er til að nákvæmari ákvæði verði í samþykktum um fjármál þeirra og að óheimilt verði að kveða á um kaupskyldu á búseturétti.
Nú þegar eru öll þessi frumvörp komin í umsagnarferli á vegum velferðarnefndar Alþingis. Í næstu viku koma umsagnaraðilar á fund nefndarinnar og stefnt er að því að afgreiða þessi húsnæðismál sem lög frá Alþingi sem allra fyrst.
Óhætt er að segja að mikið samráð hefur verið haft við vinnuna. Þannig þekkja þeir sem starfa á þessum markaði vel til væntanlegra breytinga og því má ætla að þegar frumvörpin verða að lögum, skili umbætur á húsnæðismarkaði sér fljótt og vel.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 5 klukkutímum

Rússi handtekinn á flugvellinum í Billund með mikið magn sprengiefnis

Rússi handtekinn á flugvellinum í Billund með mikið magn sprengiefnis
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Kona á Vesturlandi óttaðist um líf sitt þegar eiginmaðurinn beindi að henni haglabyssu – „Ég kvaddi börnin mín í huganum“

Kona á Vesturlandi óttaðist um líf sitt þegar eiginmaðurinn beindi að henni haglabyssu – „Ég kvaddi börnin mín í huganum“
Pressan
Fyrir 14 klukkutímum

Féllst þú fyrir þessari falsfrétt? – Ekki er allt sem sýnist

Féllst þú fyrir þessari falsfrétt? – Ekki er allt sem sýnist
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Aron Einar byrjaði í Meistaradeildinni – Verður hann í landsliðshópnum á miðvikudag?

Aron Einar byrjaði í Meistaradeildinni – Verður hann í landsliðshópnum á miðvikudag?
Pressan
Fyrir 16 klukkutímum

Með nýrnabilun eftir að hafa borðað þrjá hamborgara

Með nýrnabilun eftir að hafa borðað þrjá hamborgara
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Töluvert annar hljómur í Sigurði Inga um útlendingamál á nokkrum dögum

Töluvert annar hljómur í Sigurði Inga um útlendingamál á nokkrum dögum