Ertu búinn að ferðast um alla jörðina og langar að prófa eitthvað ójarðneskt? Hefur þig dreymt um að svara í símann og segja „Ég kemst ekki í kvöld, ég er ekki á jörðinni“? Áttu milljarð til að eyða í nokkurra daga frí? Þá er Aurora-hótelið eitthvað fyrir þig.
Um er að ræða fyrsta „lúxus-geimhótelið“ sem komið verður í sporbaug umhverfis jörðu árið 2021. Hótelið er hannað af tækifyrirtækinu Orion Span og á að taka á móti fyrstu gestunum eftir fjögur ár. Hótelið er aðeins 42 fermetrar og pláss er fyrir fjóra gesti, tólf daga í einu, ásamt tveimur starfsmönnum.
Aurora-hótelið fer eina ferð umhverfis jörðina á 90 mínútum sem þýðir að gestir fá að upplifa dag og nótt sextán sinnum á sólarhring. Aðal aðdráttaraflið er að fá að lifa í þyngdarleysi en gestir fá að taka þátt í rannsóknum, rækta grænmeti og reyna að koma auga á heimabyggð sína úr 320 km fjarlægð úr lofti.
Verðmiðinn er hár, bara til að bóka pláss þarf hver gestur að reiða fram 8 milljónir króna, svo kostar 12 daga dvöl rúman milljarð. Svo þurfa gestir einnig að undirgangast ítarlega læknisskoðun áður en farið er um borð í eldflaugina sem fer upp í geimstöðina. Frank Bunger, stofnandi og forstjóri Orion Span segir þó í samtali við Robb Report að hann sjái fram á að verðmiðinn lækki þegar líður á næsta áratuga:
„Okkar markmið er í grunninn að koma sem flestum upp í geim með það að langtímamarkmiði að búa í geimnum.“