Valur Grettisson, rithöfundur og ritstjóri Reykjavík Grapevine, á lof vikunnar.
Í þeirri menningarlegu eyðimörk sem virðist einkenna fjölmiðlalandslagið hér á landi þá er hin dularfulla heimasíða Ástu B, Bókaskápur Ástu B, þakklátt frí frá nýjustu tíðindum af meðalmennskunni í Eurovision. Umsjónarmaður síðunnar birtir smámola um bókmenntir á hverjum einasta degi, þar sem farið er yfir allt og ekkert á fróðlegan og skemmtilegan hátt. Það er ljóst að Ásta B er dulnefni, en Hallgrímur Helgason rithöfundur ljóstraði hugsanlega upp um höfundinn í pistli sem hann birti á síðunni, en þar heldur hann því fram að Ásta sé hliðarsjálf Snæbjörns Arngrímssonar, sem stofnaði bókaforlagið Bjart, en sá er þekktastur fyrir að hafa komið Harry Potter-bókunum í hendur ungmenna í íslenskri þýðingu. Það skiptir náttúrlega engu máli. Heimasíðan er frábær.