Sumarið 1978 hélt fjölleikahús Englendingsins Gerry Cottle sýningar í Laugardalshöll og þar kom meðal annars fram Barnet Travell, „sterkasti maður heims“. Tókst hann á við 12 sýningargesti í reiptogi í hverri sýningu. Reynir Örn Leósson, sem komst í heimsmetabók Guinness, var ekki par sáttur við þennan titil sem Travell var gefinn, enda hafði hann hvorki hnekkt heimsmetum Reynis né annarra kraftamanna. Á þessum tíma hafði Reynir hætt aflraunum vegna blóðtappa en engu að síður bauðst hann til þess að koma fram í fjölleikahúsinu og leika sömu listir og Travell.