Gunnar Salómonsson, eða Gunnar Úrsus eins og hann var gjarnan nefndur, var glímumaður úr Ármanni sem keppti á Ólympíuleikunum í Berlín árið 1936. Eftir það sýndi hann aflraunir í fjölleikahúsum víða um heim og kom oft fram ásamt Jóhanni Svarfdælingi. Gunnar var þekktur fyrir að lyfta bílum, hestum og prömmum sem sjálfboðaliðar úr áhorfendaskaranum stóðu á. Í október árið 1942, í miðri heimsstyrjöld, barst kveðja frá Gunnari til allra Íslendinga í útvarpi frá Berlín. Þá var tilkynnt að Gunnar hefði lyft tveggja tonna þungum fíl hjá einum þekktasta sirkus veraldar fyrir framan sjö þúsund áhorfendur. Gunnar lést árið 1960 aðeins 53 ára að aldri.