Árið 1951 kom Circus Zoo, sænskur sirkus með dýrum og fjölleikafólki, til landsins á vegum SÍBS. Var sýningunni ætlað að safna fé til að byggja upp vinnuskála við Reykjalund. Hundruð ungmenna biðu við höfnina þegar danska skipið Drottningin kom með sirkusinn til landsins. Þar var mikið af tömdum dýrum: ljónum, björnum, öpum og einnig fíllinn Baba, sem börnin voru svo áfjáð í að sjá að varnarlína lögreglunnar brast. Tjald var sett upp í Skerjafirði og aðsóknin var gríðarleg. Auk dýranna mátti sjá loftfimleikafólk, trúða, marokkóska fimleikamenn og pólskan dverg. Ekki voru allir sáttir við komu sirkussins því að sumir töldu að verið væri að sóa verðmætum gjaldeyri í skrípalæti.