Sumarið 1904 kom fyrsti bíllinn til Íslands, kallaður Thomsenbíllinn eftir danska kaupmanninum Ditlev Thomsen. Fékk hann styrk frá Alþingi upp á 2.000 krónur til að kaupa bílinn í Kaupmannahöfn. Bíllinn var af gerðinni Cudell, notaður fjögurra sæta blæjubíll og þótti hinn mesti gallagripur. Hann var kraftlaus og dugði illa í íslenskri veðráttu og vegaleysi. Thomsen réð Þorkel Clementz til að vera bílstjóri og sótti hann námskeið í Danmörku en ári eftir að bíllinn kom til landsins var hætt að nota bílinn. Árið 1908 var bíllinn síðan sendur aftur út en öld seinna, árið 2008 smíðaði Sverrir Andrésson á Selfossi endurgerð hans.