Árið 1963 var maður á jarðýtu að vinna við framkvæmdir í hafnargarðinum í Þorlákshöfn. Þar kom hann niður á eldri grafreit staðarins, sem notaður var frá þrettándu fram á nítjándu öld, og komu upp bein tólf manna. Voru þau færð yfir í kirkjugarðinn í Hjalla.
Í kringum árið 1980 reið yfir bæinn mikil slysaalda og urðu einhver slysanna við höfnina. Á örfáum árum fórust alls átta manns þar og fimm af þeim á örfáum mánuðum í lok árs 1980 og upphafi 1981. Kenndu menn beinaflutningunum um þetta og kröfðust þess að beinin yrðu aftur færð á sinn stað. Í DV frá 23. mars árið 1981 segir: „Segja þeir sem biðja um beinaflutning að ekki muni linna fyrr en 12 menn hafi farist.“