fbpx
Miðvikudagur 15.janúar 2025

Pan-hópurinn setti upp villtar sýningar

Auglýstu hjálpartæki ástarlífsins – Vændi stundað – Ungar fyrirsætur

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 24. febrúar 2018 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tíu árum áður en Bóhem, fyrsti íslenski nektarstaðurinn, var opnaður við Vitastíg sýndu ungmenni í Pan-hópnum svokallaða nærföt og hjálpartæki ástarlífsins á skemmtistöðum, í félagsheimilum og einkasamkvæmum. Sýningarnar voru upphaflega hugsaðar sem kynning fyrir Póstverslunina Pan sem flutti inn hjálpartæki ástarlífsins frá Bretlandi en fljótlega öðluðust þær sitt eigið líf. Áhugi Íslendinga á hinum goðsagnakennda Pan-hópi varð fljótlega gríðarlegur enda hafði enginn kynnst neinu sambærilegu.

Reyndar höfðu stöku fatafellur komið til landsins og sýnt listir sínar á skemmtistöðum, en heill hópur af stelpum og strákum sem stripluðust um á leðurpjötlum og sýndu framandi hjálpartæki ástarlífsins, slíkt var með öllu framandi á Íslandi árið 1986. Saumaklúbbar kraumuðu með sögum af krökkunum í Pan-hópnum og sumt var satt en annað logið.

Kynntu víbratora fyrir Íslendingum

Haukur Haraldsson, annar stofnenda Pan, starfaði sem verslunarstjóri í kjötverslun áður en hann varð landsþekktur fyrir sölu á hjálpartækjum ástarlífsins og sem kynnir líflegra sýninga Pan-hópsins. Í samtali við DV segist Haukur hafa rambað inn á þennan markað fyrir tilviljun þegar hann hóf að flytja inn notuð sjónvarpstæki frá Bretlandi. Í einni ferðinni árið 1985 slóst Guðmundur Ásmundsson pípari í för með honum og fengu þeir þá hugmynd að flytja inn smokkasjálfsala. „Þá var þessi umræða um alnæmi að byrja. Þessir sjálfsalar voru inni á öllum börum og brautarstöðvum sem við komum á.“

Þeir fóru til Birmingham þar sem þeim var sagt að hægt væri að kaupa slíka sjálfsala. Þar hittu þeir konu á miðjum aldri sem vildi að þeir tækju sýnishorn af öðrum vörum verslunarinnar með heim til Íslands en það voru víbratorar og kynæsandi nærföt. „Ég tók þá með tvö dúsín af venjulegum hvítum juðurum og bæklinga. Þegar við komum heim reyndum við að selja apótekunum þetta en það var bara hlegið að okkur.“ Settu þeir þá auglýsingu í einkamáladálk DV og opnuðu pósthólf til að taka við pöntunum. Viðbrögðin létu ekki á sér standa því daginn eftir höfðu þeim borist um 300 bréf. „Það var eins og við hefðum komið til landsins með mat fyrir hungraðan heim.“ Þar með varð til Póstverslunin Pan með hjálpartæki ástarlífsins til og félagarnir flugu aftur út til að kaupa meira.

Helgarpósturinn, maí 1986.
Baldur Brjánsson og Alfreð Alfreðsson á sýningu Helgarpósturinn, maí 1986.

Jón langi, Ástríður og Stobbi fjölhraðall

Fóru nú að birtast hressilegar auglýsingar með vörum sem Íslendingar voru ekki vanir að sjá, víbratorar af ýmsum stærðum og gerðum, gervipíkur, dúkkur og fleira. „Hamingja ykkar er okkar fag“ var slagorðið. Tólin fengu íslensk nöfn sem gladdi væntanlega alla málfriðunarmenn.

Mátti þar til dæmis sjá víbratorana Jón langa, Barnaskellinn með mismunandi hraðastillingu og Stobba fjölhraðal, „tíu tommu flykki, sérhannaðan fyrir konur af stærri gerðinni.“ Einnig Jöfur jöfra „tveggja gaura skelfi sem titrar og snýst. Mjög hentugan fyrir tvær af veikara kyninu.“

Dúkkurnar fengu einnig nöfn. Uppblásna og útlimalausa ambáttin Ástríður og Cheryl með ekta hár og tíu tommu djúp. „Sumir segja reyndar að hún sé betri en raunveruleg og segir aldrei nei.“

Upptalningunni lauk ekki þar. Sjá mátti Ruddann, Ótemjuna, Didda hrekkjótta, Tortímandann, Kjaftakerlinguna, Þroskahjálp, Broddgöltinn, Bragðarefinn, Limakrúnuna, Frikka fljóta, Skeiðvarginn og margt margt fleira.

Sýndu nærföt, leður og tól

Haukur segir að verslunin hafi fengið margar beiðnir um að sýna vörurnar, bæði í saumaklúbbum og annars staðar. Þá kom upp sú hugmynd að ráða fyrirsætur til að sýna vörurnar. „Við auglýstum eftir stelpum til að auglýsa undirfatnað og djarfan leðurfatnað. Það voru svo margar stelpur sem sóttu um að þú myndir ekki trúa mér. Þær vilja náttúrlega allar vera módel.“ Haukur og Guðmundur réðu þá nokkrar stúlkur til að sýna í saumaklúbbum.

„Við vorum alltaf í fréttunum og það var farið að líta á mig sem einhvern dónakarl þó að ég hefði upprunalega ekki viljað tengja nafn mitt sérstaklega við þetta. Blaðamaður Helgarpóstsins tók viðtal og lofaði að birta engin nöfn en stóð auðvitað ekki við það, heldur birti þriggja síðna grein um nýjung í ástarlífinu á Íslandi og birti myndir úr Hustler og öðrum klámtímaritum með.“

Þá hafði eigandi skemmtistaðsins Sigtúns samband við Hauk og bauð honum að setja upp opna sýningu á staðnum. Þeir tóku boðinu og ákváðu jafnframt að bæta strákum inn sem fyrirsætum. Sú sýning vakti mikla athygli, svo mikla að Vilhjálmur Svan, eigandi skemmtistaðarins Upp og Niður, bauð þeim að halda sýningu í hverri viku sem var samþykkt. Fram að þessu höfðu sýningarnar fyrst og fremst verið hugsaðar sem auglýsing fyrir vörurnar en fljótt öðluðust þær sjálfstætt líf.

„Ég vissi það ekki þá og það var ekkert vændi á sýningunum.“
Haukur Haraldsson „Ég vissi það ekki þá og það var ekkert vændi á sýningunum.“

Ein stúlkan í vændi

Fram að þessu hafði Upp og Niður verið í rekstrarkröggum en það breyttist eftir að Pan-hópurinn mætti á svæðið. „Það var fullt hús í eitt og hálft ár, allar helgar og öll kvöld.“ Einnig var farið út á land, á Akureyri, Ísafjörð, Vestmannaeyjar og víðar til að sýna og í einkasamkvæmum. Hópnum var skipt í þrennt en einn var aðalhópur og yfirleitt voru þrjár stúlkur og tveir strákar á sviðinu í senn. Haukur segist ekki hafa haft vaxtarlagið í að sýna sjálfur en hann gegndi hlutverki kynnis.

Á sýningunum voru sýnd nærföt og leðurföt af ýmsum gerðum og sum ansi efnislítil. Einnig voru sýndar svipur, handjárn og fleira sem nýta mátti í hjónalífinu. Fyrirsæturnar voru mjög ungar, á 16 til 20 ára aldri. Miklar sögur spunnust um Pan-hópinn, að þar væri mikið eiturlyfjasvall og vændi stundað.

Var einhver óregla í gangi?

„Nei, þetta voru flestallt mjög heilbrigðir og góðir krakkar sem voru að sýna.“

Leiðir Hauks og Guðmundar skildi þegar sýningarnar ágerðust því Guðmundi leist ekki á stefnuna sem farin var. Ákveðið var að Guðmundur héldi áfram með póstverslunina en Haukur héldi áfram með sýningarnar. Í samtali við DV í júní árið 1987 sagði Guðmundur: „Ég er sannfærður um að Pan-sýningarhópurinn stundar vændi samfara sýningarstörfunum … Rekstur sýningarhópsins var farinn úr böndum og orðinn baggi á fyrirtæki mínu. Fyrrverandi félagi minn sá um þetta og eitthvert agavandamál virðist vera innan hópsins því til mín hafa streymt áfengisreikningar sýningarfólksins, svo ekki sé minnst á leigubílanótur.“ Var nafni Pan-hópsins þá breytt í Pam. Í sömu grein stendur að hringt hafi verið í Hauk á skrifstofuna og því svarað að hægt væri að „fá eina sýningarstúlkuna.“ „Annars er ég ekki vanur að ræða þessi mál í síma.“

Var vændi í gangi?

„Ekki sem ég vissi um. Ég reyndar frétti það seinna að ein stelpan hefði verið að selja sig. Ég vissi það ekki þá og það var ekkert vændi á sýningunum. Það var bara þessi eina manneskja.“

Sýningarnar gerðust sífellt djarfari með leðjuslag, gelslag, fatafellusamkeppni og blautbolakeppni sem Baldur Brjánsson töframaður tók að sér að stýra. Stundum voru haldin sérstök karlakvöld þar sem einungis stúlkur sýndu og kvennakvöld þar sem aðeins strákar sýndu.

Í Samúel segir að áhorfendur hafi borgað fyrir sjá spjarir falla af fyrirsætunum: „Fyrir ákveðnar upphæðir tíndu þær af sér spjarirnar á „lostafullan“ hátt. Kossa og kreistingar gátu áhorfendur fengið fyrir eitt til fimm hundruð krónur. Gestir stungu peningum í nærhald stúlknanna og fengu sína fjárfestingu þá strax til baka. Fljótlega voru þrjár stúlknanna orðnar berbrjósta … Þegar hitna fór í hamsi enduðu tvær stúlkur í faðmlögum liggjandi á miðju gólfi, hvattar áfram af fremur daufum áhorfendum (miðað við aðstæður) létu þær vel hvor að annarri.“

Mættuð þið einhverri andstöðu?

„Auðvitað var fjöldi fólks á móti þessu og varð hneykslað, helst Þjóðviljinn sem sagði okkur setja upp sadistasýningu. En yfirleitt var fjallað um þetta á jákvæðum nótum.“

Helgarpósturinn, maí 1986.
Gelslagur Helgarpósturinn, maí 1986.

Blökkufólk og gott framboð af taílenskum stúlkum í Evrópu

Aðeins 18 mánuðum eftir stofnun Pan-hópsins var öllu lokið en áhugi landsmanna hafði þó síður en svo minnkað. Skipuleggjendur önnuðu vart eftirspurn og fjölgað hafði í hópi þeirra sem sýndu. Haukur bauð upp á val milli blökkufólks og hvítra en í viðtali sem birtist í DV, laugardaginn 12. júlí árið 1986 sagði hann menn geta „pantað blandaðan hóp, svartan eða alhvítan, allt eftir óskum hvers og eins.“ Hann hafði þá ráðið þeldökkt sýningarfólk til starfa og bauð sýningar á alla mannfagnaði, hvort sem væri í heimahúsum eða á opinberum skemmtistöðum. Í maí sama ár sagðist hann einnig vera að flytja inn þrjár stúlkur frá Taílandi:

„Það er nóg framboð af þessum stúlkum í Evrópu. Þessar sem við höfum verið í sambandi við starfa nú við sýningar í Þýskalandi. Það er ekkert mál að fá þær til að koma hingað. Vandinn er bara sá að við komumst ekki yfir að anna öllum þeim beiðnum um sýningar sem við fáum. Því er enn óráðið hvenær þær taílensku koma,“ sagði Haukur í baksíðufrétt DV.

Frelsaðist og leysti upp hópinn

Skömmu eftir að Pan-hópurinn leystist upp síðla árs 1986 birtist Haukur á öldum ljósvakans á kristilegu útvarpsstöðinni Alfa, sem var forveri bæði Lindarinnar og Ómega. Síðustu þrjá áratugi hefur hann meðal annars starfað við húsamálun, flutt inn gallabuxur og selt sólgleraugu í Kolaportinu.

„Við vorum búin að innrétta og vorum að fara að opna flotta búð með hjálpartækjum ástarlífsins en ég fór þá í kirkju í Njarðvík og frelsaðist. Þá henti ég þessu öllu frá mér og fór í Biblíuskólann, akkúrat þegar allt var á toppnum. Ég var fullur og flottur á þessum tíma en væri sennilega dauður ef ég hefði ekki reddað mér út.“

Um áratug eftir að Pan-hópurinn var og hét varð Ísland skyndilega mjög kynferðislega opinskátt land. Tímaritið Bleikt og blátt seldist eins og heitar lummur, nektarstaðir spruttu upp eins og gorkúlur, Páll Óskar og Rósa á Spotlight héldu klámkvöld og fyrstu erótísku kvikmyndirnar voru framleiddar.

Myndu sýningar eins og þær sem Pan-hópurinn bauð upp á ganga upp í dag?

„Nei. Þetta myndi hvorki þykja fugl né fiskur í dag. Það hafa náttúrlega komið þessir strippstaðir og sýningar Pan-hópsins voru eins og englakór við hliðina á þeim.“

DV, maí 1986.
Linda lést í sviplegu bílslysi DV, maí 1986.

Banaslys á Hverfisgötu

Miðvikudagskvöldið 20. apríl árið 1988 lést hin 22 ára gamla Linda Björk Bjarnadóttir í bílslysi á Hverfisgötu. Linda var einn þekktasti meðlimur Pan-hópsins og sú sem kom hvað oftast fram á síðum blaðanna.

Lögreglan fékk tilkynningu klukkan 23.21 um að slys hefði átt sér stað rétt austan við Klapparstíg eftir kappakstur tveggja bifreiða. Linda gekk yfir götuna með hópi fólks þegar bílarnir komu á miklum hraða á báðum akreinum. Bílstjórarnir sáu hópinn of seint og náðu ekki að hemla. Önnur bifreiðin lenti á Lindu sem lenti á framrúðunni og svo í götuna. Hún var úrskurðuð látin við komuna á sjúkrahúsið og félagi hennar slasaðist.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 7 klukkutímum

Þessar þjóðir eru með stærstu brjóstin – Íslenskar konur ofarlega á lista

Þessar þjóðir eru með stærstu brjóstin – Íslenskar konur ofarlega á lista
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Eru að skilja eftir 30 ára hjónaband

Eru að skilja eftir 30 ára hjónaband
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Grindavíkurbær vildi ekki kaupa Sturlu sem hefur verið fluttur um set

Grindavíkurbær vildi ekki kaupa Sturlu sem hefur verið fluttur um set
Eyjan
Fyrir 9 klukkutímum

Katrín tekur við stjórnarformennsku af efnahags- og fjármálaráðherra

Katrín tekur við stjórnarformennsku af efnahags- og fjármálaráðherra
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

FH útskýrir sitt mál: Fjölmiðlar harðlega gagnrýndir og boðað til fundar – „Virtist frekar miða að því að vega að heiðri forsvarsmanna félagsins“

FH útskýrir sitt mál: Fjölmiðlar harðlega gagnrýndir og boðað til fundar – „Virtist frekar miða að því að vega að heiðri forsvarsmanna félagsins“
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Sigurjón hæðist að Guðlaugi – „Þetta kalla ég að miklast af litlu sem engu“

Sigurjón hæðist að Guðlaugi – „Þetta kalla ég að miklast af litlu sem engu“