Vorið 2001 vildu Húsvíkingar ólmir flytja inn krókódíla. Hugmyndin kom upp þegar veitustjóri bæjarins fékk sent ljósrit af grein um krókódílaeldi í Colorado. Myndað hafði verið kælilón rétt utan við Húsavík og töldu Reinhard Reynisson bæjarstjóri og fleiri tilvalið að geyma krókódílana í því. Þá myndu krókódílarnir borða lífrænan úrgang úr kjöt- og fiskvinnslu og yrðu einhvers konar „endurvinnslugæludýr“ sem myndu auk þess laða að ferðamenn. Hugmyndin gekk svo langt að sett var upp umferðarskilti með mynd af krókódíl þar sem stóð „væntanlegir“. Þáverandi landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, eyðilagði hins vegar draum Húsvíkinga og bannað innflutninginn. Sagði hann: „Krókódílar eru stórhættuleg kvikindi sem geta hlaupið á sextíu kílómetra hraða og étið Húsvíkinga.“