Árið 1627 áttu Englendingar og Frakkar í einu af sínum endalausu stríðum og teygði það anga sína til Íslandsmiða. Franskt hvalveiðiskip lá við akkeri úti fyrir Látrabjargi þegar tvö ensk herskip, Huuk og Trille, komu aðvífandi. Vildu enskir gera skipið og stóran hval upptækan en þeir frönsku snerust til varnar. Englendingar skutu en hvalveiðimennirnir hífðu hvalinn upp með skipssíðunni og notuðu sem skjöld. Eftir tveggja daga orrustu tóku hermennirnir hvalveiðiskipið en Frakkarnir flúðu upp á land og voru tveir þeirra skotnir á flóttanum. Var málið leyst í Ísafirði og tók Jón Ólafsson Indíafari þátt í því. Var svo slegið upp veislu í boði Englendinga.