Á níunda áratugnum stóðu miklar deilur um hvalveiðar, bæði á Íslandi og erlendis. Fór svo að Alþjóða hvalveiðiráðið bannaði veiðarnar árið 1986. Það sama ár virtist Bubbi Morthens gagnrýna hvalveiðar með beittum texta lagsins Er nauðsynlegt að skjóta þá, af plötunni Frelsi til sölu. „Seðlar stjórna lífinu auma hvíslar brotin rödd, hvur trúir á drauma trúir á draumsins heimsku rödd?“ Í myndbandi lagsins mátti sjá Bubba í fjörunni við Þorlákshöfn ásamt myndbrotum frá hvalveiðum. Í viðtali við Vikuna ári síðar sagðist Bubbi ekki alfarið á móti hvalveiðum „heldur varpaði ég aðeins fram spurningu um hvort það væri nauðsynlegt að drepa þá.“