fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024

Mannshvarfið í Öskjuvatni: „Þarna er dauði og þögn“

Kristinn H. Guðnason
Miðvikudaginn 28. febrúar 2018 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í Ódáðahrauni norðan Vatnajökuls situr eldstöðin Askja umkringd Dyngjufjöllum. Vorið 1875 hófst þar mikið gos sem olli því að margir Austfirðingar fluttu vestur yfir haf. Þá seig Askja og til varð Öskjuvatn, næstdýpsta vatn Íslands, um 220 metrar. Gosið olli miklum áhuga fólks á eldstöðinni, bæði innanlands og utan. Til dæmis komu danskir vísindamenn hingað árið eftir gosið og teiknuðu upp svæðið. Sumarið 1907 komu þrír Þjóðverjar til að rannsaka Öskju en sú ferð endaði með hvarfi tveggja þeirra. Ómar Ragnarsson er vel kunnugur á svæðinu og sagði DV hvað hann teldi að hefði komið fyrir.

Eldfjallafræðingur.
Walter von Knebel Eldfjallafræðingur.

Ætluðu að rannsaka Öskju

Sá sem leiddi rannsóknina hét Walter von Knebel, fullt nafn Johann Heinrich Carl Matthaeus Ralph Walther von Knebel. Hann var einungis 27 ára gamall en hafði þegar sett svip sinn á eldfjallafræði Evrópu, sér í lagi með rannsóknum á Kanaríeyjum. Knebel kom fyrst til Íslands árið 1905 til að kynna sér jarðmyndun landsins, sér í lagi undir og við jökla. Ferðaðist hann um Reykjanesið, við Heklu og norður við Mývatn. Hann málaði myndir á ferðum sínum og með honum í för var Ögmundur Sigurðsson, kennari frá Hafnarfirði.

Tveimur árum síðar fékk hann styrk hjá Humboldt-sjóðnum hjá Konunglegu prússnesku vísindaakademíunni til að heimsækja Ísland á ný og rannsaka Öskju. Með honum í för voru tveir aðrir Þjóðverjar. Annars vegar Hans Spethmann, ungur jarðfræðinemi, og hins vegar Max Rudloff málari. Sigldu þeir frá Þýskalandi til Reykjavíkur í lok júní og þaðan norður til Akureyrar. Ögmundur tók aftur að sér að vera leiðsögumaður og fylgdi þeim að Öskju þar sem þeir settu upp tjaldbúðir.

Skiluðu sér ekki um kvöldið

Í tímaritinu Hugin frá því í ágúst árið 1907 er atburðarásinni lýst. Þann 10. júlí var Ögmundur á ferð til Akureyrar til að kaupa vistir og sækja póst. Um hádegisbil var Spethmann sendur norðaustur fyrir Öskjuvatn til að mæla og teikna upp fjallið en Knebel og Rudloff héldu út á vatnið í bát sem þeir höfðu meðferðis. Ætluðu þeir að finna sér góðan stað á vatninu til að mála öll fjöllin í kring.

Þegar Spethmann kom aftur að tjaldbúðunum, við suðausturbakka vatnsins, klukkan tíu um kvöldið voru Knebel og Rudloff hvergi sjáanlegir. Mikil þoka var á svæðinu og Spethmann taldi óráðlegt að leita félaga sinna enda taldi hann víst að þeir sneru von bráðar til baka. Þegar þeir skiluðu sér ekki næsta morgun fór hann að leita. Einsamall leitaði hann í fimm daga og var nú farinn að óttast mjög.

Kvöldið 15. júlí sneri Ögmundur til baka frá Akureyri og daginn eftir leituðu þeir saman að félögum sínum. Þá fundu þeir bæði spor mannanna, ummerki eftir bátinn og vettlinga. Í tíu daga til viðbótar var leitað og aðstoðuðu bændur úr nágrenninu við leitina. Þá var ræst út tíu manna leitarsveit úr Bárðardal sem fínkembdi svæðið í kringum Öskjuvatn á fjórum dögum og hélt út á vatnið með bát. Fundu þeir þá eina ár og tvö brot úr kössum.

Á þessum tíma var enginn kafarabúnaður til en leitarmenn settu niður línur með önglum með litlum árangri. Dýpið var of mikið og hraunið braut önglana jafnharðan. Þá voru einnig hverir undir vatninu á einum stað. Voru þeir sannfærðir um að Knebel og Rudloff hefðu drukknað í vatninu og eina vonin til að þeir kæmust í leitirnar væri ef líkin myndu fljóta upp á yfirborðið vegna rotnunargass í innyflum. Það gerðist þó ekki.

Í vörðunni sem Ina von Grumbkow reisti.
Minnisvarði Í vörðunni sem Ina von Grumbkow reisti.

Myrtir eða enn á lífi?

Þegar mannshvörf verða fara sögusagnir ævinleika á kreik. Hafði bátnum hvolft af slysni eða vegna jarðskjálfta? Eða hafði aurskriða hrifsað þá með sér út í vatnið? Pískrað hefur verið um að Spethmann sjálfur hafi myrt félaga sína. Einnig var sagt að þeir hefðu sést lifandi eftir þetta.

Á meðal þeirra sem gátu ekki sætt sig við óvissuna var Ina von Grumbkow, unnusta Knebels. Ári eftir hvarfið sigldi hún hingað til lands ásamt ungum jarðfræðingi að nafni Hans Reck til að kanna aðstæður og rannsaka hvarfið. Ferðuðust þau um Reykjanes, Skaftafellssýslur og síðan norður til Öskju þar sem þau dvöldu í viku.

Í tímaritinu Nýjar kvöldvökur segir að þau hafi búið í tjöldum, verið út af fyrir sig og haft heldur lítil afskipti af fólki yfirleitt. Leit þeirra bar engan árangur en reistu þau minnisvarða, stóra vörðu, og meitlaði Reck nöfn mannana sem týndust í grágrýtisstein. Síðar var minnismerki úr málmi sett upp á sama stað.

Þó að leit Grumbkow hafi verið árangurslaus líkt og þeirra tuga manna sem leituðu árið 1907, hreifst hún af landi og þjóð. Þegar hún sneri aftur heim til Þýskalands skrifaði hún bók um Ísland sem nefndist „Ísafold: ferðaþættir frá Íslandi“ þar sem hlýhugur til Íslands sést.

Ómar segist styðja kenningar Jóns Jónssonar jarðfræðings um að Knebel og Rudloff hafi lent fyrir skriðu. „Jón taldi að þeir hefðu verið að sigla meðfram bakkanum og þá hafi hrunið úr bakkanum, jafnvel á þá sjálfa. Eða þá í vatnið og flóðbylgja hafi steypt bátnum. Þeir voru þá einfaldlega óheppnir eða feigir. Árið 2014 féll alveg ofboðslega stór skriða þarna aðeins ofar sem sýnir hvað getur gerst á þessu svæði. Það var eitt allra mesta framhlaup sem hefur mælst hér á Íslandi.“

Er þetta varasamur staður?

„Nei, ekki þar sem ferðamenn ganga. Þar er ekkert varasamt.“

„Þeir voru þá einfaldlega óheppnir eða feigir.“

Ómar Ragnarsson „Þeir voru þá einfaldlega óheppnir eða feigir.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Dauði og þögn

Svæðið hefur verið sveipað dulúð síðan Knebel og Rudloff hurfu og margir fullyrða að þar sé reimt. Ómar orti ljóðið Kóróna landsins um staðinn og þriðja erindið fjallar að hluta um hvarf Þjóðverjanna:

„Beygðir í duftið dauðlegir menn
Dómsorði skaparans hlíta.
Framliðnar sálir við Öskjuvatn enn
sig ekki frá gröf sinni slíta.“

Finnur þú fyrir einhverjum ónotum við Öskjuvatn?

„Nei, ekki nokkrum. En þessi staður er kynngimagnaður og þeim sem eru þar aleinir finnst þeir komnir alveg aftur að sköpun jarðarinnar. Þarna er dauði og þögn, þetta er upplifun sem þú getur hvergi fengið nema þarna. Ég þekki dæmi þess að menn hafi orðið fyrir nokkurs konar vitrun og upplifað sig sem eina í alheiminum. Jafnvel þrælvönustu menn fyllast blöndu af ótta og alsælu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Svarar dóttur sinni sem lét allt flakka í nýju viðtali: Fyllibytta sem er aldrei til staðar – ,,Þú ert með símanúmerið mitt“

Svarar dóttur sinni sem lét allt flakka í nýju viðtali: Fyllibytta sem er aldrei til staðar – ,,Þú ert með símanúmerið mitt“
Pressan
Fyrir 4 klukkutímum

Héldu að 11 ára dóttirin væri heiladauð – 4 árum síðar vaknaði hún og skýrði frá öllu

Héldu að 11 ára dóttirin væri heiladauð – 4 árum síðar vaknaði hún og skýrði frá öllu
Pressan
Fyrir 6 klukkutímum

Harmleikurinn í Halifax

Harmleikurinn í Halifax
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Sjáðu rauða spjald Duran gegn Newcastle – Sanngjörn niðurstaða?

Sjáðu rauða spjald Duran gegn Newcastle – Sanngjörn niðurstaða?
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Þyrla kölluð til vegna áreksturs í Öræfum – Tveir með áverka

Þyrla kölluð til vegna áreksturs í Öræfum – Tveir með áverka
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Mun United borga 75 milljónir fyrir arftaka Rashford?

Mun United borga 75 milljónir fyrir arftaka Rashford?
Pressan
Fyrir 9 klukkutímum

Jólasaga lögreglumanns – Hana ættu allir að lesa

Jólasaga lögreglumanns – Hana ættu allir að lesa
Pressan
Fyrir 9 klukkutímum

Hjálpaði unnustunni við heimilisþrifin í fyrsta sinn – Endaði með skelfingu

Hjálpaði unnustunni við heimilisþrifin í fyrsta sinn – Endaði með skelfingu
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Sakamál ársins II: Harmleikur í sumarhúsi, afi og amma geymdu dóp, blaðamanni DV hótað og Gabríel réðst á fangaverði

Sakamál ársins II: Harmleikur í sumarhúsi, afi og amma geymdu dóp, blaðamanni DV hótað og Gabríel réðst á fangaverði