Árið 1919 var fyrsta flugvélin flutt til landsins, AVRO 504K, samfara stofnun Flugfélags Íslands. Fyrir 25 krónur gat fólk keypt sér útsýnisflug yfir Reykjavík, en aðeins var pláss fyrir einn farþega. Þann 27. júní árið 1920 var mikill mannfjöldi saman kominn í Vatnsmýrinni til að fylgjast með flugsýningu vélarinnar. Fyrsta flugslys Íslandssögunnar varð að veruleika þegar vélinni hlekktist á við lendingu. Ekki höfðu áhorfendur fylgt leiðbeiningum um hvar á túninu þeir máttu standa og reyndi flugmaðurinn að sveigja fram hjá mesta fjöldanum. Vélin lenti þó á tveimur systkinum og lést níu ára gömul stúlka, Svava Gísladóttir, samstundis. Hún varð fyrir flugvélinni miðri en bróðir hennar varð fyrir vængnum og slasaðist alvarlega.