Í haust greindi DV frá því að Íslendingar leituðu til Ungverjalands til að fá ódýrari tannlækningar. Slíkur tannlækningatúrismi er þó ekki nýr af nálinni því að árið 1989 streymdu Íslendingar til Búlgaríu til að láta laga stellið. Það var ferðaskrifstofan Ferðaval sem sá um skipulagninguna og hver ferð kostaði 63 þúsund krónur.
Tannlæknakostnaðurinn í Búlgaríu var þá aðeins 10 prósent af kostnaði hér á Íslandi. Yfirleitt var fólk að fara í stærri viðgerðir, svo sem að láta setja upp brú eða falskar tennur. Á þessum tíma var Búlgaría enn þá undir járnhæl Sovétríkjanna en undir árslok féll kommúnisminn í landinu.