fbpx
Þriðjudagur 03.desember 2024

Varmennska vondu stjúpunnar: „Hún hefði haft unun af því að sjá fórnarlömb sín engjast af sársauka og fengið af því kynferðislega fullnægingu“

Ritstjórn DV
Laugardaginn 7. mars 2020 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ástralska konan Martha Rendell fæddist 10. ágúst, árið 1871. Af bernsku hennar fer fáum sögum og var hún komin á fertugsaldur þegar þessi saga hefst.

Martha hóf sambúð með Thomas Nicholls Morris sem hafði þá skilið við eiginkonu sína. Eiginkonan fyrrverandi flutti af heimilinu og kom sér fyrir annars staðar.

Herra Morris hafði, ótrúlegt en satt, fengið forræði yfir fimm börnum þeirra hjóna. Martha Rendell þekkti Morris frá fyrri tíð og hafði reyndar elt hann frá Adelaide til Perth, þar sem þessi saga á sér stað.

Martha flutti sem sagt inn til Thomas í Perth sem eiginkona hans væri og börnin fimm fengu þau fyrirmæli að kalla hana „mömmu“.

Börnunum slæm móðir

En Martha var börnunum lítil móðir. Hún níddist á þeim og eitt sinn fékk Annie, ein dætra Thomas, svo miklar barsmíðar að hún gat vart gengið í kjölfarið.

Annie, þá sjö ára, varð síðan fyrsta fórnarlamb Mörthu. Talið var að það hefði Martha gert með því að setja eitthvert efni í mat Annie, sem síðar olli kláða eða sviða í hálsinum.

Ekki öll þar sem hún var séð
Var sögð bersyndug kona í dagblöðum þess tíma.

Undir því yfirskini að um lyf væri að ræða bar Martha síðan saltsýru á aftanvert kok Annie. Sýran olli að lokum slíkri bólgu að Annie gat ekki lengur kyngt með góðu móti og svalt í hel.

Annie dó 28. júlí, 1907, og læknir að nafni Cuthbert skráði á dánarvottorðið að barnaveiki hefði dregið Annie til bana.

Iðin við kolann

Eftir að hafa fyrirkomið Annie beindi Martha athygli sinni að fimm ára systur hennar, Olive. Þann 6. október þetta sama ár andaðist Olive og aftur skellti Cuthbert læknir skuldinni á barnaveiki.

Martha var iðin við kolann og veturinn 1908 var röðin komin að 14 ára syni Thomas, Arthur. Arthur reyndist Mörthu erfiður viðureignar, kannski hafði hann sökum aldurs til að bera meiri þrautseigju og viðnám gegn þeirri ólyfjan sem Martha gaf honum.

Hvað sem því líður þá tókst henni að reka smiðshöggið á ódæði sitt og Arthur andaðist loksins 6. október, 1908. Einhverra hluta vegna fór Cuthbert fram á að líkið yrði krufið í þetta sinn og krafðist Martha þess að fá að vera viðstödd. Það gekk eftir en ekkert fannst sem varpað gat sök á hana eða nokkurn annan.

George flýr í ofboði

Þá var eftir eitt barn, George, elsta barn Thomas. Eftir að hafa drukkið te einn góðan veðurdag í apríl 1909 kvartaði hann yfir eymslum í hálsi. Sem fyrr var Martha boðin og búin að huga að eymslunum og bar á hálskirtlana saltsýruna góðu.

„Vonda stjúpan“
Martha reyndist börnunum vægast sagt illa.

George leist ekki á blikuna, hafði enda upplifað að þessi meðferð hafði ekki gert systkinum hans nokkuð gott. George lagði á flótta og hljóp sem fætur toguðu heim til móður sinnar sem bjó nokkrum götum fjær.

Nágrannar Thomas tóku eftir því að lítið sást til Georges eftir þetta en aðspurður hverju sætti svaraði Thomas að hann hreinlega vissi ekki hvar drengurinn væri niðurkominn.

Óhugnanlegar frásagnir

Sumir nágrannanna létu gott heita. Aðrir gerðu það ekki og höfðu samband við lögregluna. Það kom í hlut Harrys Mann, rannsóknarlögreglumanns að kanna málið.

Við eftirgrennslan sína heyrði Mann ítrekað frásagnir af lækningaraðferðum Mörthu og einnig hvernig hún hafði látið sig sársauka og kvalir barnanna litlu skipta.

Einn nágranni sagði Mann að hann hefði eitt sinn litið út um gluggann og séð Mörthu þar sem hún stóð fyrir framan eitt barnanna og vaggaði í lendunum eins og í vímu á meðan barnið hljóðaði af kvölum.

Mann tókst að hafa upp á George sem sagðist hafa lagt á flótta því stjúpmóðir hans hefði myrt systkin hans með saltsýru og hefði reynt slíkt hið sama með hann.

Lík barnanna grafin upp

Það olli þónokkrum vandræðum við rannsókn málsins hve langur tími hafði liðið frá dauða Annie og systkina hennar. Að auki gátu læknar ekki með fullri vissu sagt til um áhrif þess að bera saltsýru á hálskirtla.

En það vakti aftur á móti athygli Mann að Martha hafði keypt mikið magn af saltsýru á þeim tíma er börnin voru veik, en ekkert síðan síðasta barnið dó.

Úr Sunday Times
Mál Mörthu vakti athygli fjölmiðla og almennings.

Þessi staðreynd þótti gefa tilefni til að grafa upp lík barnanna þriggja og var það gert 3. júlí, 1909. Viti menn, enn, eftir allan þennan tíma, var að finna leyfar saltsýru í vefjarsýnum sem tekin voru úr hálsi barnanna þriggja.

Thomas sýknaður

Martha Rendell var ákærð fyrir morð og reyndar Thomas líka. Martha hélt statt og stöðugt fram sakleysi sínu; sagðist eingöngu hafa reynt að lækna börnin af barnaveiki.

Harry Mann sagði að: „hún hefði haft unun af því að sjá fórnarlömb sín engjast af sársauka og fengið af því kynferðislega fullnægingu“.

Thomas var síðar sýknaður, þrátt fyrir að hann hefði einnig komið að kaupunum á saltsýrunni. Talið var að hann hefði ekki vitað um glæpi Mörthu fyrr en síðar.

Kviðdómur var þó allur af vilja gerður til að sakfella Thomas, þó ekki væri nema fyrir að hafa verið í vitorði með Mörthu, en hafði sitt ekki í gegn.

Bersyndug, vond stjúpa

Martha Rendell var dæmd til dauða og almenningi blöskraði glæpir hennar. Í fjölmiðlum var hún kölluð „bersyndug“ kona og fékk einnig hið sígilda viðurnefni „vonda stjúpan“.

Grafreitur númer 409
Hálfri öld eftir aftökuna fékk Martha félagsskap.

Þann 6. október, 1909, fór Martha Rendell til fundar við skapara sinn þegar hún var hengd í Freemantle-fangelsinu. Hún var grafin í Freemantle-kirkjugarði og yfir hálfri öld síðar var raðmorðingja að nafni Eric Edgar Cooke holað niður í sömu gröf.

Martha var síðasta konan sem tekin var af lífi í Vestur-Ástralíu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Athæfi Mourinho fer eins og eldur um sinu – Sjáðu hvað hann gerði við aðstoðarmann sinn í gær

Athæfi Mourinho fer eins og eldur um sinu – Sjáðu hvað hann gerði við aðstoðarmann sinn í gær
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Jón Ingi fékk sex ára fangelsisdóm í Sólheimajökulsmálinu

Jón Ingi fékk sex ára fangelsisdóm í Sólheimajökulsmálinu
Eyjan
Fyrir 5 klukkutímum

Kristrún boðar Þorgerði og Ingu á fund

Kristrún boðar Þorgerði og Ingu á fund
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Dagur svekktur og játar sig sigraðan: „Ég skil ekki hvernig þetta kerfi virkar“

Dagur svekktur og játar sig sigraðan: „Ég skil ekki hvernig þetta kerfi virkar“
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Stjörnu fórnað fyrir endurkomu Neymar

Stjörnu fórnað fyrir endurkomu Neymar
Fókus
Fyrir 7 klukkutímum

Gummi og Lína ástfangin í fimm ár – „Þú og ég á móti heiminum“

Gummi og Lína ástfangin í fimm ár – „Þú og ég á móti heiminum“