fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024

Vildi eiginmann sinn feigan – Ástmaður hennar tók að sér verkið – Ráðabruggið endaði á annan veg en þau ætluðu

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 15. mars 2020 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óhætt er að segja að Bandaríkjamaðurinn Alexander Algeri hafi verið óheppinn með eindæmum því hann var myrtur 17. janúar, árið 2001, fyrir mistök.

Lee Ann Reidel
Lagði á ráðin ásamt ástmanni sínum.

Þannig var mál með vexti að kona að nafni Lee Ann hafði alltaf verið veik fyrir vöðvabúntum. Hún taldi sig því himin höndum hafa tekið þegar hún kynntist Paul Reidel. Paul átti líkamsræktarstöð og uppfyllti allar þær kröfur sem Lee Ann gerði til karlmanna og þau gengu í hnapphelduna árið 1998, þegar Lee Ann var 31 árs.

Lukkunnar velstand um sinn

Vinir Lee Ann virtust ánægðir fyrir hennar hönd, töldu enda að hún og Paul væru nánast sköpuð fyrir hvort annað. Sjálf var Lee Ann ánægð með ráðahaginn, þrátt fyrir að Paul væri kannski ekki massaður engill í mannsmynd, því hann hafði setið í fangelsi í sex mánuði vegna fíkniefnabrota.

Um skeið gekk allt eins og í sögu hjá hjónakornunum en síðan kom í ljós að einn galli var á gjöf Njarðar; Paul fannst krakk-kókaín helvíti gott, svo gott reyndar að hann neytti þess meira en góðu hófi gegndi – eða þannig.

Aðskilnaður og forræðisdeila

Nú, í júlí árið 2000 var Lee Ann nóg boðið, tók barnungan son þeirra hjóna og fór heim til móður sinnar, en hún bjó í Flórída. Sagan segir að Lee Ann hafi ekki aðeins tekið son þeirra með sér heldur 120.000 dali sem strangt tiltekið tilheyrðu Paul, sem varð eftir í New York. Þannig var staðan í um hálft ár.

Paul sat reyndar ekki með hendur í skauti því hann réð lögfræðing með það fyrir augum á fá forræði yfir syni þeirra. Lögfræðingnum tókst að neyða Lee Ann til að koma til New York með son þeirra og þar skyldu þau vera þar til niðurstaða fengist í forræðisdeiluna.

Vitgrannt vöðvabúnt

Nú voru góð ráð dýr og Lee Ann velti fyrir sér þeim kostum sem voru í stöðunni. Þannig var mál með vexti að hún hafði ekki heldur setið með hendur í skauti þann tíma sem hún dvaldi í Flórída.

Ástmaðurinn
Ralph Salierno var að sögn vitgrannt vöðvabúnt.

Þar hafði hún kynnst karli nokkrum, Ralph Salierno, vitgrönnu vöðvabúnti sem sá sér farborða með handrukkun. Lee Ann varð ástfangin af Ralph og með þeim tókust góð kynni sem enduðu sem ástarsamband.

Að sögn lögðu Lee Ann, Ralph, móðir Lee Ann og ástkona hennar á ráðin um að „letja“ Paul til aðgerða í forræðisdeilunni og „tuska hann til“ svo hann yrði ekki til vandræða yfirhöfuð.

Ill áform

Áform Lee Ann og Ralphs áttu síðan eftir að taka miklum breytingum. Skötuhjúin komust að þeirri niðurstöðu að best væri að fyrirbyggja með öllu að hann væri hangandi yfir þeim til framtíðar litið og að Lee Ann kæmist yfir fé hans og hluta hans í líkamsræktarstöðinni án þess að standa í sóðalegum skilnaði.

Hjálparhellan
Scott Paget samþykkti að aðstoða Ralph gegn greiðslu.

Með þetta í huga hafði Ralph samband við kunningja sinn Scott Paget sem samþykkti að hjálpa Ralph við að koma Paul fyrir kattarnef. Scott þessi, sem var hvort tveggja forfallið líkamsræktarbuff og fíkniefnaneytandi, fékk 3.000 dali fyrir að keyra Ralph frá Flórída til New York og til baka.

Fyrirsát á Long Island

Félagarnir lögðu síðan land undir fót. Í farteskinu höfðu þeir mynd af Paul Reidel sem Lee Ann hafði fengið þeim ásamt leiðbeiningum um hvar hann væri að finna.

Ralph og Scott komu til Long Island 17. janúar 2001, og lögðu bílnum í grennd við líkamsræktarstöð Pauls. Þar sáu þeir mann sem þeim virtist vera Paul og sannfærðust þeir enn frekar um það þegar þeir sáu að hann gekk að bíl eins og Paul átti, samkvæmt upplýsingum frá Lee Ann.

Ralph lét til skarar skríða og skaut manninn til bana.

Myrtur fyrir mistök

Víkur nú sögunni aftur að Alexander Algeri, því maðurinn sem lá andvana á götunni var ekki Paul. Þar var um að ræða Alexander, besta vin Pauls og meðeiganda að líkamsræktarstöðinni og þeir vinirnir áttu eins bíl – því miður fyrir Alexander.

Fórnarlambið
Alexander Algeri var rangur maður á réttum stað.

Hvort Ralph og Scott voru meðvitaðir um mistökin þegar þeir óku aftur til Flórída liggur ekki fyrir, en þeir hafa án efa komist að því fljótlega að Paul var enn sprelllifandi.

Hvað sem því öllu líður þá hafði morðið enga eftirmála fyrir þá fyrr en ári síðar og gott betur.

Scott handtekinn

Rúmu ári eftir morðið var Scott Paget handtekinn. Þegar hann var yfirheyrður kjaftaði á honum hver tuska og hann upplýsti að Ralph hefði skotið Alexander. Þá fyrst varð ljóst að Alexander hafði verið myrtur í misgripum fyrir Paul, því Scott sagði lögreglunni alla söguna; frá ástarsambandi Ralphs og Lee Ann og fyrirætlunum þeirra.

Lee Ann og Ralph voru umsvifalaust handtekin og ákærð fyrir morð.

„Ég vil að hann verði drepinn“

Við réttarhöldin sór Lee Ann og sárt við lagði að hún hefði ekkert haft með morðið að gera og væri alsaklaus. Á meðal vitna ákæruvaldsins var eiturlyfjasali að nafni Michael Paglianti og hann sagðist hafa verið viðstaddur þegar Lee Ann lét Ralph fá ljósmyndina af Paul. Michael sagði að Lee Ann hefði þá sagt við Ralph: „Ég vil að hann verði drepinn.“

Tvennum sögum fer af frásögnum Lee Ann og Ralphs við réttarhöldin. Annars vegar segir að Ralph hafi aldrei bendlað ástkonu sína við ódæðið og hins vegar að þau hafi reynt að skella skuldinni á hvort annað.

Þegar upp var staðið fengu skötuhjúin lífstíðardóm og Scott Paget fékk átján ára dóm.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Líkfundurinn var aðeins byrjunin á ótrúlegri fléttu – „Ruglað fólk gerir ruglaða hluti“

Líkfundurinn var aðeins byrjunin á ótrúlegri fléttu – „Ruglað fólk gerir ruglaða hluti“
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Sagður efstur á óskalista Liverpool sem er til í að greiða meira en 10 milljarða

Sagður efstur á óskalista Liverpool sem er til í að greiða meira en 10 milljarða
EyjanFastir pennar
Fyrir 16 klukkutímum

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Inga segir eiganda Lumex ljúga – Ítrekað hindrað aðgengi fatlaðra og rifið kjaft

Inga segir eiganda Lumex ljúga – Ítrekað hindrað aðgengi fatlaðra og rifið kjaft
433
Fyrir 19 klukkutímum

Valdi hóp til æfinga á nýju ári

Valdi hóp til æfinga á nýju ári
Fókus
Fyrir 20 klukkutímum

Björgvin fékk magnaða kveðju frá Jóni – „Ég felli bara tár við þessi skrif vinur“

Björgvin fékk magnaða kveðju frá Jóni – „Ég felli bara tár við þessi skrif vinur“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

„Þetta eru fyrirtækin að baki gervikjarasamningi Sveit og Virðingar“

„Þetta eru fyrirtækin að baki gervikjarasamningi Sveit og Virðingar“
Pressan
Fyrir 21 klukkutímum

Trump segir „algjörlega nauðsynlegt“ að Bandaríkin eignist Grænland

Trump segir „algjörlega nauðsynlegt“ að Bandaríkin eignist Grænland