fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024

Raunir saklausu ekkjunnar – Var sökuð um morð af mági sínum

Ritstjórn DV
Laugardaginn 1. febrúar 2020 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Oft er haft á orði að hjól réttvísinnar snúist hægt og það fékk breska konan Beatrice Annie Pace að reyna á eigin skinni árið 1928. Þannig var mál með vexti að Beatrice hafði misst eiginmann sinn, Harry Pace, þann 10. janúar þetta ár. Hjónin bjuggu á Starveacre Farm í Bleak Moor í Gloucestershire þar sem þau héldu nokkrar ær og segir ekkert frekar af þeirra högum þar. Harry Pace hafði lengi verið heilsuveill og hafði að sögn iðulega haft á orði að hann þjáðist og að lífið væri ekki þess virði að lifa því. Enn fremur hafði hann hótað að innbyrða fjárbaðlyf, sem að mestu samanstóð af arseniki.

Í ljósi alls þessa taldi Beatrice að hinn lífsleiði 36 ára eiginmaður hennar hefði einfaldlega látið verða af hótun sinni.

Grunsemdir bróðurins

Í ljósi alls og alls var ekki fráleitt að ætla að Beatrice hefði rétt fyrir sér og hver veit nema að þarna og þá hefði málinu verið lokið, ef ekki hefði verið fyrir bróður Harrys, Elton Pace.

Elton sagðist muna að Beatrice hefði tíðum óskað þess að „sá gamli myndi deyja“. Elton grunaði Beatrice um græsku og viðraði þær grunsemdir sínar við lögreglu og sagði öllum sem vildu heyra að Beatrice væri morðkvendi.

Það varð úr að fyrirskipuð var rannsókn á líkamsleifum Harrys og fundust leifar af arseniki í þeim. Beatrice var kærð fyrir morð en naut mikillar samúðar almennings, svo mikillar að þess voru fá fordæmi þegar um var að ræða glæp sem varðaði dauðadóm.

Einangrun og endurtekin frestun

Nú tóku við fyrrnefnd hjól réttvísinnar og í fjóra mánuði var Beatrice haldið í einangrun í Harrow, en fátt annað gerðist. Í lok varðhaldsins var Beatrice loksins ákærð fyrir að hafa orðið eiginmanni sínum að aldurtila með eitri.

Ekkjan
Beatrice Pace upplifði hálfs árs helvíti fyrir réttarhöldin.

Þá tóku við enn frekari hörmungar hjá ekkjunni. Réttarrannsókninni var frestað og síðan frestað enn á ný og Beatrice varð ásýnd hörmungar.

Ítrekað bugaðist hún undan álaginu og langvarandi yfirheyrslum og að lokum missti almenningur, sem hafði fylgst með málinu af miklum áhuga, þolinmæðina.

Þess var krafist að réttað yrði yfir Beatrice án tafar eða henni sleppt – þessi meðferð væri ekki nokkurri manneskju bjóðandi.

Slæmur eiginmaður

Það varð úr og málflutningur hófst. Sækjandi í málinu sagði að Beatrice hefði vissulega elskað eiginmann sinn, en hefði mátt þola 19 ára hjónabandseymd. Hún hefði verið einkar falleg, ung kona þegar hún, sautján ára að aldri, giftist Harry, en hjónabandssælan hefið orðið skammlíf.

Harry ku hafa látið hendur skipta oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, meðal annars skömmu áður en Beatrice ól eitt barna þeirra.

Það kom, að sögn lækna, þó ekki í veg fyrir að Beatrice hefði sinnt Harry af alúð í langvinnum veikindum hans. Hún hefði að lokum komið honum á sjúkrahús, en Harry hefði krafist þess að fara heim, sem varð raunin. Beatrice hefði þá haldið áfram að annast um hann af sömu ástúð og fyrr. 

Tryggð og umhyggja

Svo komu jólin árið 1927 og Harry elnaði sóttin. Fyrir dómi sagði læknir frá því hvernig Beatrice fór um fimm kílómetra leið, fótgangandi í gegnum hnéháan snjóinn, í kafaldsbyl til að sækja hann og síðan sömu leið til baka.

Elton Pace gaf ekki mikið fyrir þessa frásögn læknisins eða aðrar sem báru Beatrice gott vitni. Hann sagði fullum fetum að þessi tryggð og umhyggja af hennar hálfu væri leikaraskapur, og slíkt hið sama gilti um þá sorg sem hún sýndi í kjölfar dauða Harrys.

Af forsíðu Thomson’s Weekly News
Ásakanir mágs Beatrice settu af stað atburðarás.

Beatrice, sagði Harry, vildi eiginmann sinn feigan og sakaði hana um að hafa verið með leynimakk svo hún fengi ósk sína uppfyllta.

Stuðningur almennings

Meðan á öllu þessu gekk innan veggja dómshússins átti sér stað ákveðin þróun utan veggja þess. Almenningur fór ekki í launkofa með stuðning sinn við Beatrice. Tilboðum um að sjá um börn Pace-hjónanna rigndi inn sem og gjöfum til barnanna. Stuðningshróp ómuðu í hvert sinn sem Beatrice sást koma til dómhússins eða yfirgefa það.

Daily Sketch
Fjölmenni flykktist að dómhúsinu í Gloucester Beatrice til stuðnings.

Þúsundir flykktust til Gloucester og skipulagðar voru sérstakar ferðir til borgarinnar. Lögreglan hafði í nógu að snúast og iðulega kom fyrir að raðir hennar rofnuðu og kalla þurfti til liðsauka vegna fólks sem vildi sýna Beatrice stuðning.

Yfirlið og hjartaáfall

Mikill tilfinningahiti réð ríkjum og Elton var áreittur enda illa séður vegna framburðar síns. Eitt vitna ákæruvaldsins féll í yfirlið og á öðrum degi réttarhaldanna fékk kona sem sat í kviðdómi hjartaáfall.

Dómarinn vildi í lengstu lög koma í veg fyrir óþarflega langa þrautagöngu Beatrice og tafir og fyrirskipaði að læknir og hjúkrunarkona yrðu til taks fyrir kviðdóminn.

Talið var að réttarhöldin stæðu í fjóra daga, en ákæruvaldið þurfti hálfum degi betur til að ljúka sínum málflutningi og því ljóst að réttarhöldin drægjust eitthvað.

Verjandi Beatrice sagðist engu hafa að svara fyrir hönd hennar, enda hefði sækjandi ekki sýnt fram á að Beatrice hefði byrlað eiginmanni sínum eitur. Þvert á móti hefði sækjandi undirstrikað tryggð ekkjunnar við eiginmann sinn sáluga.

Hátíðarstemning

Sækjandi sá sitt óvænna og lagði mál sitt í hendur dómara sem sagði að hann myndi mælast til sýknuúrskurðar af hálfu kviðdóms. Vart hafði hann sleppt orðinu þegar margir kviðdómara stóðu á fætur og mæltust til sýknu. Slíkur var asinn að ekki vannst tími til að leggja spurninguna formlega fyrir kviðdóminn.

Fagnaðaróp þeirra sem voru innan dyra dómhússins bárust til eyrna fjöldans sem beið fyrir utan, sem taldi um 6.000 manns.

Þar myndaðist hátíðarstemning og lúðrasveit lék þjóðsönginn. Beatrice Pace fékk að sameinast tveimur barna sinna sem höfðu beðið í ofvæni í hliðarherbergi í dómhúsinu. Síðan fékk hún lögreglufylgd að bifreið og var, við gríðarlegan fögnuð viðstaddra, ekið til Galeford-þorps þar sem hin börn hennar biðu.

Þess má geta að í kjölfarið fór Elton Pace heim og lögreglan taldi að réttast væri að fylgja honum og öflugt lið úr röðum riddaralögreglunnar gerði það svikalaust fyrstu fimm kílómetrana.

Vinnubrögð gagnrýnd

Svona fór um sjóferð þá. Þann 6. júlí, 1928, eftir um hálfs árs vafstur, málalengingar, en einna helst athafnaleysi lögreglu og ákæruvalds og vafasamrar meðferðar á Beatrice, kom á daginn að sannanir gegn henni voru engar, hvorki af hálfu ákæruvaldsins, Scotland Yard, innanríkisráðuneytisins eða sérfræðinga á sviði lyfja og eiturs.

The People
Einangrun og stífar yfirheyrslur nánast buguðu Beatrice.

Lagt var til að vinnubrögð lögreglunnar yrðu tekin til gagngerrar skoðunar hjá sérstakri nefnd sem þá þegar var í burðarliðnum.

Í leiðara Daily News var sú skoðun viðruð að vinnuferli dánardómstjóra og lögreglunnar allrar yrði kannað ofan í kjölinn.

Dagblaðið Daily Mail tók í svipaðan streng í sínum leiðara og í honum var haft á orði að almenningur muni krefjast þess að tryggt yrði að enginn þyrfti að ganga í gegnum það sama og Beatrice Pace áður en að réttarhöldum kæmi.

Endir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Líkfundurinn var aðeins byrjunin á ótrúlegri fléttu – „Ruglað fólk gerir ruglaða hluti“

Líkfundurinn var aðeins byrjunin á ótrúlegri fléttu – „Ruglað fólk gerir ruglaða hluti“
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Sagður efstur á óskalista Liverpool sem er til í að greiða meira en 10 milljarða

Sagður efstur á óskalista Liverpool sem er til í að greiða meira en 10 milljarða
EyjanFastir pennar
Fyrir 17 klukkutímum

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Inga segir eiganda Lumex ljúga – Ítrekað hindrað aðgengi fatlaðra og rifið kjaft

Inga segir eiganda Lumex ljúga – Ítrekað hindrað aðgengi fatlaðra og rifið kjaft
433
Fyrir 20 klukkutímum

Valdi hóp til æfinga á nýju ári

Valdi hóp til æfinga á nýju ári
Fókus
Fyrir 20 klukkutímum

Björgvin fékk magnaða kveðju frá Jóni – „Ég felli bara tár við þessi skrif vinur“

Björgvin fékk magnaða kveðju frá Jóni – „Ég felli bara tár við þessi skrif vinur“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

„Þetta eru fyrirtækin að baki gervikjarasamningi Sveit og Virðingar“

„Þetta eru fyrirtækin að baki gervikjarasamningi Sveit og Virðingar“
Pressan
Fyrir 22 klukkutímum

Trump segir „algjörlega nauðsynlegt“ að Bandaríkin eignist Grænland

Trump segir „algjörlega nauðsynlegt“ að Bandaríkin eignist Grænland