fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024

Afdrifarík átök á bílastæði

Ritstjórn DV
Laugardaginn 11. janúar 2020 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í 19 ár leitaði lögreglan í Avignon í Frakklandi dyrum og dyngjum að morðingja Evelyne Boucher, 16 ára stúlku sem var myrt árið 1987.

Það var ekki fyrr en árið 2006 sem hljóp á snærið hjá þeim sem höfðu af mikilli elju skoðað í þaula allar þær vísbendingar sem fyrir lágu á þeim tíma.

Oft þarf ekki nema smávægileg atvik til að gömul mál opnist upp á gátt, eins og máltækið segir; oft veltir lítil þúfa þungu hlassi.

Hvarf á heimleið

Áður en lengra er haldið er vert að huga að málavöxtum 19 árum fyrr. Að kvöldi 9. desember, 1987, lauk kennslustund í kvöldskóla sem Evelyne sótti í Avignon. Hún fór með strætisvagni til þorpsins Villeneuve-les-Avignon þar sem hún bjó.

Hún steig af vagninum ásamt vinkonu sinni, sem var henni samferða, og skildi leiðir þeirra þegar þær voru í um 300 metra fjarlægð frá heimili Evelyne.

Evelyne Boucher
Ómerkilegt atvik leiddi lögregluna á slóð morðingja hennar.

Evelyne Boucher sást ekki á lífi eftir þetta.

Fátt um vísbendingar

Nánast nakið lík Evelyne fannst daginn eftir í kjarri í bænum Angles í um 100 kílómetra fjarlægð frá Villeneuve-les-Avignon. Föt hennar höfðu verið brotin saman og lögð snyrtilega við hlið skólatösku hennar.

Evelyne hafði verið nauðgað og hún síðan skotin til bana með riffli af stuttu færi.

Eina vísbendingin sem lögreglan fékk var frá konu sem bjó þar ekki langt frá. Sagði konan að hún hefði séð lítinn, ljósan bíl sem ekið hefði verið frá vettvangi. Það var allt og sumt.

Slegist um bílastæði

Vindur nú sögunni fram til 2006, að litlu þúfunni og þunga hlassinu. Svo bar til um þær mundir að tveimur karlmönnum lenti saman á bílastæði í borginni Nimes.

Deiluefnið var ekki merkilegt; hvor ætti rétt á auðu stæði, hvor hefði komið fyrst og eitthvað viðlíka. Merkilegt eða ekki, þeir létu hendur skipta og lögreglan var kölluð til.

Annar karlanna kemur ekki frekar við sögu, en hinum, Robert Greiner, fyrrverandi slökkviliðsmanni sem þá var sestur í helgan stein, var gert að mæta fyrir dómara í Nimes og gera grein fyrir sínum þætti.

Lífsýnis krafist

Robert fór að þeim fyrirmælum og var þegar upp var staðið sektaður fyrir uppákomuna á bílastæðinu. Maður skyldi ætla að þar með væri þætti Roberts lokið.

Því fór þó fjarri því saksóknarinn fór fram á að Robert Greiner, 53 ára, tveggja barna faðir, léti réttinum í té DNA-sýni sem var reyndar talið nokkuð fast verklag á þeim bæ.

Mikið varð fólk hissa þegar Robert hristi neitandi höfuðið og sagði: „Það kemur ekki til mála.“

Robert heimsóttur

Reynsluboltar innan réttarkerfisins reyndu að telja Robert hughvarf en töluðu lengi vel fyrir daufum eyrum. Um síðir lét Robert þó undan og samþykkti að afhenda DNA-sýni.

Nokkrum vikum síðar, í júní nánar til tekið, bönkuðu lögreglumenn upp á heima hjá Robert sem varð furðu lostinn þegar einn lögreglumannanna sagði: „Okkur langar að spyrja þig nokkurra spurninga í tengslum við morð sem var framið fyrir 19 árum.“

Eilíf öngstræti

Sem fyrr segir hafði lögreglan víða leitað hófanna í leit að morðingja Evelyne. Á meðal þess sem gert hafði verið var að bera saman DNA-sýni af vettvangi glæpsins við DNA-sýni úr Michel nokkrum Fourniret, raðmorðingja sem fékk viðurnefnið „Úlfurinn í Ardennes“.

Einnig hafði verið grafið upp lík raðmorðingja að nafni Robert Succo á Ítalíu, því það þótti fullsannað að hann hefði verið í grennd við Avignon daginn eftir að lík Evelyne fannst.

En lögreglan hafði siglt í strand í allri sinni viðleitni.

Neitaði sök

Þegar Robert var upplýstur um samsvörun lífsýnanna reiddist hann og neitaði að hann ætti nokkra aðild að morðinu á Evelyne.

Ónafngreind kona, sem á sínum tíma hafði verið besta vinkona Evelyne, sagði að hún hefði iðulega séð Robert á kránni sem Evelyne vandi komur sínar á.

Robert Greiner
Réttvísin náði í skottið á honum eftir 19 ára leit.

Robert vísaði því á bug og sagðist aldrei hafa stigið fæti sínum inn á umræddan bar.

Robert leggur spilin á borðið

Réttarhöld yfir Robert Greiner hófust í apríl árið 2008 og bar lögfræðingur hans brigður á niðurstöðu rannsóknar á lífsýnunum.

Sérfræðingur í rannsókn lífsýna var kallaður til og sýndi svo ekki varð um villst að lífsýni sem fannst á Evelyne gat ekki tilheyrt öðrum en Robert.

Að lokum viðurkenndi Robert að hafa átt samræði við Evelyne og var á honum að skilja að hann hefði ekki munað eftir henni því hann hefði haldið framhjá með svo mörgum konum.

Lífstíðardómur

Robert Greiner fékk lífstíðardóm í apríl 2008. Hann áfrýjaði dómnum í tvígang, í september 2008 og í júní 2010. Í fyrra skiptið var lífstíðardómurinn staðfestur og í síðara skiptið vísaði áfrýjunardómstóll áfrýjuninni einfaldlega frá.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Líkfundurinn var aðeins byrjunin á ótrúlegri fléttu – „Ruglað fólk gerir ruglaða hluti“

Líkfundurinn var aðeins byrjunin á ótrúlegri fléttu – „Ruglað fólk gerir ruglaða hluti“
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Sagður efstur á óskalista Liverpool sem er til í að greiða meira en 10 milljarða

Sagður efstur á óskalista Liverpool sem er til í að greiða meira en 10 milljarða
EyjanFastir pennar
Fyrir 16 klukkutímum

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Inga segir eiganda Lumex ljúga – Ítrekað hindrað aðgengi fatlaðra og rifið kjaft

Inga segir eiganda Lumex ljúga – Ítrekað hindrað aðgengi fatlaðra og rifið kjaft
433
Fyrir 19 klukkutímum

Valdi hóp til æfinga á nýju ári

Valdi hóp til æfinga á nýju ári
Fókus
Fyrir 19 klukkutímum

Björgvin fékk magnaða kveðju frá Jóni – „Ég felli bara tár við þessi skrif vinur“

Björgvin fékk magnaða kveðju frá Jóni – „Ég felli bara tár við þessi skrif vinur“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

„Þetta eru fyrirtækin að baki gervikjarasamningi Sveit og Virðingar“

„Þetta eru fyrirtækin að baki gervikjarasamningi Sveit og Virðingar“
Pressan
Fyrir 21 klukkutímum

Trump segir „algjörlega nauðsynlegt“ að Bandaríkin eignist Grænland

Trump segir „algjörlega nauðsynlegt“ að Bandaríkin eignist Grænland