Frederick Henry Seddon hét maður sem bjó í London í upphafi 20. aldar. Þegar þessi saga hefst var herra Seddon 40 ára og var forstöðumaður London and Manchester Industrial Assurance Company (núna London and Manchester Group Plc.).
Seddon bjó í stóru húsi í Tollington Park í Islington ásamt eiginkonu sinni, Margaret, fimm börnum þeirra hjóna og föður sínum, sem var kominn á efri ár.
Í júlí árið 1910 ákvað Seddon að taka inn leigjanda, piparjúnku að nafni Eliza Mary Barrow, 49 ára, og einstaklega viðskotaill og ógeðfelld í umgengni.
Frederick Henry lét það ekki á sig fá, enda hafði hann um mikilvægari hluti að hugsa. Þannig var nefnilega mál með vexti að fröken Barrow var ágætlega fjáð því hún átti 4.000 sterlingspund í reiðufé, gulli, verðbréfum og fasteignum.
Ástæða þess að fröken Barrow gerðist leigjandi hjá herra Seddon var sú að henni hafði, engum til furðu, sinnast við frændur sína sem hún hafði búið með. Seddon var ekkert að tvínóna við hlutina, því neyta skal meðan á nefinu stendur, eins og sagt er.
Innan nokkurra mánaða hafði Seddon komist yfir öll auðæfi frökenar Barrow, gegn vikulegum afborgunum upp á þrjú sterlingspund.
En Seddon sá eftir hverju penníi sem hann þurfti að greiða fröken Barrow og hann ákvað því að losa sig við þessar vikulegu afborganir – með því að losa sig við lánardrottininn.
Sem fyrr tvínónaði Seddon ekki við hlutina og 1. september 1911 kvartaði fröken Barrow sáran yfir magakrampa, steinsmugu og almennum krankleika.
Læknir hennar skrifaði upp á hinar ýmsu mixtúrur og leit reglulega til hennar næsta hálfa mánuðinn.
Árla morguns 14. september tilkynnti Seddon lækninum að frökenin hefði gefið upp öndina og gaf læknirinn út dánarvottorð; banamein var niðurgangur af völdum alvarlegrar sýkingar.
Frederick Henry Seddon lét síðan hola fröken Barrow niður meðal sótsvarts almennings í Islington-kirkjugarðinum og kórónaði athöfnina með því að krefja útfararstjórann um þóknun fyrir að hafa fært honum þessi viðskipti.
Dauði frökenar Barrow hafði gjörsamlega farið fram hjá frændum hennar og það var ekki fyrr en annar þeirra ákvað að heimsækja hana sem þeir fengu vitneskju um það allt saman.
Eðli málsins samkvæmt spurði frændinn um eignir hennar og Seddon fullvissaði hann um að samkvæmt afborgunarskilmálum hefðu allar eignir frökenar Barrow runnið til hans.
Frændanum fannst þó svör Seddon helst til loðin og leitaði því til yfirvalda og sagðist telja að maðkur væri í mysunni hvað dauða frænku sinnar áhrærði.
Það varð úr að lík frökenar Barrow var grafið upp og rannsakað og fundust í því leifar af arseniki. Herra Seddon var handtekinn 4. desember og ákærður fyrir morð. Frú Seddon var síðan einnig handtekin og ákærð fyrir slíkt hið sama.
Saksóknarinn fullyrti að hjónin hefðu í sameiningu bruggað fröken Barrow banaráð til að komast yfir fjármuni hennar. Herra Seddon hefði soðið arsenik-flugnapappír í vatni sem hann síðan blandaði saman við mixtúrurnar sem læknirinn hefði skrifað upp á fyrir frökenina.
Málalyktir urðu þær að herra Seddon var sakfelldur en eiginkona hans var sýknuð.
Þannig vildi til að herra Seddon og dómarinn, herra Buckhill, voru báðir í Frímúrarareglunni og í þann mund sem dómarinn var að fara að kveða upp dóm sinn reyndi Seddon að notfæra sér þá staðreynd með því að fara með háfleyga yfirlýsingu: „Ég lýsi því yfir, frammi fyrir hinum mikla skapara alheimsins, að ég er saklaus.“
Dómarinn svaraði: „Við vitum báðir að við tilheyrum sama bræðralagi. En bræðralag okkar hvetur ekki til glæpa.“ Segir sagan að sést hafi tár á hvarmi Buckhill þegar hann mælti þau orð. Síðan kvað hann upp dauðadóm.
Svo skemmtilega vill til að böðullinn sem sá um að fullnægja dómnum, John Ellis, skrifaði endurminningar sínar og sagði meðal annars um þetta mál að Margaret Seddon hefði sést í grennd við fangelsið að morgni aftökunnar. Frú Seddon ku hafa leigt herbergi gegnt fangelsinu og hafði vakað þar í angist alla nóttina.
Um herra Seddon skrifaði John Ellis: „Seddon veitti mér enga athygli þegar ég vatt mér að honum og batt handleggi hans fyrir aftan bak.“
Ellis sagði að Seddon hefði verið hnarreistur þegar hann gekk að gálganum. „Svo sá hann snöruna dinglandi á bitanum og missti aðeins ró sína. Hann lokaði augunum til að útiloka þessa sýn og gekk það sem eftir var með sigin augnlok.“
Böðullinn gat ekki á sér setið að hafa orð á eigin frammistöðu: „Yfirfangavörðurinn tók tímann frá því að ég gekk inn í klefa þess dæmda þangað til boltinn var dreginn úr fallhleranum á gálganum eftir að Seddon hafði gengið þá 18 metra sem aðskildu þessa tvo staði. Frá upphafi til enda lauk þessu verki á aðeins 25 sekúndum.“