fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024

Konan í vatninu – Myrt á hrottalegan hátt – Bundin í fósturstellingu og plástur yfir augum hennar

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 5. janúar 2020 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Carol Park, þrítug bresk kona, hvarf í Cumbria á Englandi 17. júní árið 1976. Carol, sem var kennari, sást ekki á lífi eftir það. Áður en Carol hvarf hafði hún, að sögn vina og kunningja, virst hálfniðurdregin. Hún hafði talað um að finna blóðforeldra sína, en hún hafði verið ættleidd í æsku.

Að sögn eiginmanns hennar, Gordons Park, hafði Carol yfirgefið hann fyrir annan karlmann og það þótti ekki ósennilegt í ljósi þess að hjónaband þeirra hafði verið róstusamt og Carol hafði í reynd í tvígang látið sig hverfa af heimili þeirra í Leece. Þess vegna, að eigin sögn, hafði Gordon ekki haft fyrir því að tilkynna yfirvöldum um hvarf hennar fyrr en að sex vikum liðnum.

Sagðist slöpp og var heima

Fjarvistir sínar hafði Carol alla jafna miðað við upphaf nýrrar annar í skólanum, en í þetta skipti var hana hvergi að finna við þau tímamót. Það var sem sagt ekki fyrr en þá sem Gordon ályktaði að eitthvað væri að og fyrir milligöngu lögfræðings síns hafði hann samband við lögreglu og upplýsti fjölskyldu Carol um stöðu mála.

Carol og Gordon Park
Kynntust á unglingsaldri.

Daginn þegar Carol hvarf var ætlunin að fjölskyldan færi í dagsferð til Blackpool, en Carol sagðist vera slöpp og ákvað að taka því rólega heima.

Gordon sagði síðar að þegar hann kom heim hefði Carol greinilega yfirgefið húsið og skilið eftir giftingarhring sinn. Ekkert hefði bent til átaka.

Óstaðfestur orðrómur

Lausleg rannsókn var framkvæmd en skilaði engu. Sagan segir að skýrslan um hvarf Carol hafi síðar týnst og sú saga fór á kreik að Gordon og rannsóknarlögreglumaðurinn sem fór fyrir þessari fyrstu rannsókn hefðu verið stúkufélagar í Frímúrarareglunni. Þeirri sögu var síðar hafnað og sagt að Gordon hefði í raun aldrei verið frímúrari.

Nú, jæja. Tíminn leið og ekkert spurðist til Carol fyrr en árið 1997 þegar lík hennar fannst á botni Coniston-vatns, sem er þriðja stærsta vatnið í Vatnahéraðinu.

Coniston-vatn
Lík Carol fannst á syllu undir vatnsyfirborðinu.

Konan í vatninu

Þegar kafarar fundu lík Carol á botni vatnsins, þann 13. ágúst, var það aðeins íklætt náttfötum. Var hún nefnd eftir skáldsögu Raymonds Chandler; The Lady in the Lake.

Líkið var vafið í ermalausan slopp og við það bundinn bakpoki úr strigaefni og plastpokar fylltir með grjóti. Carol hafði verið bundin með reipi og auk grjótsins höfðu blýrör verið notuð til að þyngja líkið. Plástur hafði verið límdur yfir augu hennar.

Carol Park
Afdrif hennar voru óþekkt í 21 ár.

Líkið hafði lent á syllu og ljóst að ef því hefði verið fleygt í vatnið aðeins fjær landi þá hefði það að öllum líkindum aldrei fundist.

Flóknir hnútar

Miklir áverkar voru á höfðinu og greinilega hafði Carol verið barin ítrekað í andlitið. Síðar varð ljóst að ísöxi hafði verið notuð við barsmíðarnar. Líkið var bundið í fósturstellingu og hnútarnir voru margir hverjir óvenjulegir og flóknir og leiddi rannsókn í ljós að álíka hnúta var að finna heima hjá Gordon og um borð í báti hans.

Þegar lík Carol fannst var Gordon á hjólreiðaferðalagi í Frakklandi ásamt þriðju eiginkonu sinni og þar sá hann fréttir af líkfundinum. Þegar hann kom heim, 24. ágúst, viðhafði lögreglan engin vettlingatök og handtók hann hið snarasta enda var hann eðlilega grunaður um að hafa komið eiginkonu sinni fyrir kattarnef.

Ákæra felld niður

Hann var þó frjáls ferða sinna gegn greiðslu tryggingar og svo fór að ákæra á hendur honum var felld niður þann 6. janúar, 1998, vegna skorts á sönnunargögnum.

Í kjölfarið sagði Gordon að hann vildi „reyna að hætta að hugsa um þetta allt, þar á meðal atburði sem áttu sér stað fyrir 21 ári, og einbeita sér að daglegu lífi.“

Gordon ákærður að nýju

Gordon tókst að gera það til 13. janúar árið 2004 þegar hann var handtekinn að nýju og ákærður fyrir morðið á Carol. Lögreglan hafði komist yfir nýjar vísbendingar, þar á meðal vitnisburð Michaels nokkurs Wainwright, klefanautar Gordons þær tvær vikur sem hann hafði verið í haldi 1997. Að sögn Michaels hafði Gordon játað fyrir honum að hafa banað Carol. Lögregla hafði einnig leitað betur þar sem lík Carol fannst og fundið þar grjóthnullung, sömu tegundar og var notuð við gerð hlaðins veggjar sem umkringdi einbýlishús Park-fjölskyldunnar.

Gordon Park
Beið í sex vikur með að tilkynna hvarf eiginkonu sinnar.

Óbein sönnunargögn og vitnisburður

Réttarhöldin yfir Gordon Park stóðu í tíu vikur og ekkert atriði eitt og sér benti til sektar hans. Ákæruvaldið benti hins vegar á að þegar sönnunargögn voru tengd saman sýndu þau að hann væri sekur, en ekki einhver „dularfullur ókunnugur maður eða leyndur elskhugi.“

Málflutningur ákæruvaldsins hvíldi því á óbeinum sönnunum og það féll í hlut kviðdóms að velta fyrir sér vægi flókinna hnúta, grjóts sem notað hafði verið til að þyngja líkið og ísaxarinnar, sem reyndar allt tengdi Gordon við glæpinn, með einum eða öðrum hætti.

Vitnisburðir Michaels Wainwright og annars klefanautar Gordons gerðu þó útslagið og Gordon fékk lífstíðardóm og úrskurðað að hann skyldi ekki afplána minna en fimmtán ár.

Miklu ofbeldi beitt

Talið var að Gordon hefði fyrst tekið um háls Carol með það fyrir augum að kyrkja hana. Hún hefði barist um og þá hefði Gordon tekið ísöxina og barið hana með „verulegu“ afli í andlitið. Þegar upp var staðið hefði hægri hluti andlits Carol verið kominn í mauk, höfuðkúpan brotin og margar tennur að engu orðnar. Að þessu loknu hefði Gordon síðan fullkomnað verkið með því að endurtaka barsmíðarnar.

Gordon hefði síðan gengið frá líkinu og fleygt því í Coniston-vatn og snúið sér að daglegu lífi, eins og ekkert hefði í skorist.

Árangurslaus áfrýjun og sjálfsvíg

Í desember árið 2007 áfrýjuðu lögfræðingar Gordons dómnum en áfrýjuninni var hafnað í nóvember árið 2008.

Á 66. afmælisdegi sínum, 25. janúar árið 2010, komu fangaverðir í Garth-fangelsi að Gordon hangandi og meðvitundarlausum í klefa hans. Hann var úrskurðaður látinn skömmu síðar. Hvað Gordon notaði til sjálfsvígsins liggur ekki ljóst fyrir en svokallað æðaband var nefnt í því samhengi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Gerrard sá besti sem hann þjálfaði á ferlinum – Vann með mörgum stórstjörnum

Gerrard sá besti sem hann þjálfaði á ferlinum – Vann með mörgum stórstjörnum
Fókus
Fyrir 12 klukkutímum

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

England: Öruggt hjá Arsenal gegn Forest – Villa tapaði stigum

England: Öruggt hjá Arsenal gegn Forest – Villa tapaði stigum
Eyjan
Fyrir 14 klukkutímum

Stjórnarmyndun eftir kosningar: Framsókn mögulega í ríkisstjórn – afdrif Ásmundar gætu gefið tóninn

Stjórnarmyndun eftir kosningar: Framsókn mögulega í ríkisstjórn – afdrif Ásmundar gætu gefið tóninn
Pressan
Fyrir 15 klukkutímum

Þetta gerist ef þú fjarlægir ekki köngulóarvef

Þetta gerist ef þú fjarlægir ekki köngulóarvef
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Zirkzee sagður vilja komast burt sem fyrst

Zirkzee sagður vilja komast burt sem fyrst
Pressan
Fyrir 17 klukkutímum

Hver er munurinn á mandarínum og klementínum?

Hver er munurinn á mandarínum og klementínum?
Fókus
Fyrir 17 klukkutímum

Blómstrar í fyrirtækjarekstri eftir atvinnumennskuna

Blómstrar í fyrirtækjarekstri eftir atvinnumennskuna