fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024

Fláræði í Fíladelfíu – „Ég er farin,“ sagði hún þegar hún yfirgaf húsið og kom aldrei til baka

Ritstjórn DV
Laugardaginn 21. september 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Atvinna getur verið af ýmsu tagi og sum störf eru talin virðingarverðari en önnur. Starf Jimmys Logue, sem fæddist í Fíladelfíu árið 1835, verður sennilega seint talið ærlegt, en Logue lagði fyrir sig þjófnað og spannaði ferill hans í þeim geira yfir fjörutíu ár.

Aðeins tíu ára var Logue handtekinn fyrir þjófnað og sat inni á einhvers konar stofnun fyrir vikið. Þegar hann losnaði gerðist hann lærlingur hjá manni að nafni Joe Keyser, vel þekktum vasaþjófi í Baltimore. Logue sóttist námið greinilega vel því hann haslaði sér völl í bankaránum og varð bara þónokkuð snjall á þeim vettvangi.

Tilvera Logue var tvískipt; öðrum hluta hennar varði hann við ágæt efni og velsæld og hinum hlutanum á bak við lás og slá.

Skammlífur hjúskapur

Það væri vægt til orða tekið að segja að óreiða hafi ríkt í einkalífi Logue. Þar var nánast allt í einum graut. Þegar Logue var 23 ára kvæntist hann Mary Jane Andres. Hjúskapur þeirra entist í tvö ár og þá gekk Logue í hjónaband með Mary Gahan. Hann lét þó undir höfuð leggjast að skilja formlega við Mary Jane, fannst það sennilega óþarfa vesen.

James „Jimmy“ Logue lagði fyrir sig bankarán og innbrot með góðum árangri.

Mary Gahan átti óskilgetinn son, Alphonse, sem nánar verður vikið að síðar. Logue fór illa með Mary og flúði hún á náðir föður síns og dó árið 1869.


Johanna bíður eiginmannsins

En áður en Mary yfirgaf Logue hafði hann tekið upp ástarsamband með systur hennar, Johönnu. Þau gengu í hjónaband tveimur árum eftir að Mary dó, árið 1871, en um það leyti var Logue að búa sig undir afplánun sjö ára dóms í Cherry Hill-fangelsinu fyrir innbrot. 

Johanna beið þess að Logue fengi frelsi að nýju og þegar það gerðist hreiðruðu þau um sig á Occidental-hótelinu í New York-borg.

Logue var loðinn um lófana, enda hafði hann komið illa fengnu fé sínu fyrir á reikningum í hinum ýmsu bönkum í borginni. Hann tók upp fyrri iðju með félaga sínum, Peter Burns, með áherslu á almenna þjófnaði og innbrot.


Hjálpar stjúpsyninum

Hinn óskilgetni stjúpsonur Logue, Alphonse, sem notaði eftirnafn föður síns, Cutaiar, var enn inni í myndinni hjá Logue. Alphonse naut góðs af hagsæld Logue sem samþykkti að hjálpa honum að koma undir sig fótunum sem rakari. Logue keypti hús að North Eleventh Street 1250 í Fíladelfíu og rakarastofa Alphonse var til húsa þar, á jarðhæð.

Um skeið bjuggu Logue og Johanna í húsinu, auk tveggja starfsmanna rakarastofunnar. Logue og Johanna yfirgáfu Fíladelfíu árið 1879 og fluttu til New York. Logue ákvað að fara í „þjófnaðarleiðangur“ til Boston með kollega sínum, George Mason, en Johanna varð eftir í New York.


Johanna hverfur

Þegar Logue kom aftur til New York var Johönnu hvergi að finna og hann hafði samband við Alphonse og leitaði tíðinda. Jú, Alphonse sagði Logue að Johanna hefði komið til Fíladelfíu, hellt ótæpilega í sig og síðan rokið á dyr. „Ég er farin,“ sagði hún þegar hún yfirgaf húsið og kom aldrei til baka, að sögn Alphonse.

Margir voru þeirrar skoðunar að hún hefði fengið sig fullsadda af barsmíðum Logue, sem voru á allra vitorði.

Logue hóf leit að Johönnu og auglýsti meira að segja eftir henni í dagblöðum í Fíladelfíu og bauð 500 dali í verðlaun, hverjum þeim sem gætu veitt upplýsingar um hana.

Logue taldi reyndar ekki loku fyrir það skotið að Johanna hefði leitað hófanna hjá Peter Burns og leitaði þeirra í Denver.

 

Beinagrind undir gólfborðum

Um þetta leyti var Logue handtekinn fyrir rán og að lokinni afplánun hvarf hann. Johanna og afdrif hennar féllu í gleymsku og ekkert um þau hugsað fyrr en árið 1893. Þá voru verkamenn að vinna að viðgerðum í húsinu við North Eleventh Street og fundu beinagrind konu undir gólfborðum í eldhúsinu. Á einum fingri var hringur með áletruninni „Frá JL til JL“.

Tanngarðurinn hauskúpu Johönnu sýndi svo ekki varð um villst hverjum hauskúpan hafði tilheyrt.

Lögregla komst fljótlega að því að húsið hafði tilheyrt Jimmy Logue á árum áður og að Johanna hefði horfið af yfirborði jarðar. Frekari rannsókn á beinagrindinni og nokkrum munum sem fundust hjá henni tóku af allan vafa um að um væri að ræða líkamsleifar Johönnu. Leit hófst að Jimmy Logue. 

Logue gefur sig fram

Að kvöldi 5. mars, 1895, bankaði maður upp á hjá réttarlækni Fíladelfíu. Þegar réttarlæknirinn, Ashbridge, fór til dyra sá hann nokkuð roskinn mann sem sagði: „Ég er Logue – James Logue – og ég gef mig fram, mér skilst að það sé gild handtökuskipun á mig.“

Logue hafði eytt að minnsta kosti átta undanfarinna ára í fangelsi og sagðist hafa verið í Chicago þegar hann frétti að hans væri leitað. Hann hefði komið eins fljótt og auðið var.

Réttarlæknirinn fór með Logue á lögreglustöðina og hann var formlega handtekinn, en einhverra hluta vegna ákvað lögreglan að halda því leyndu og skráði hann inn sem William Casey. Það varðar framvindu sögunnar ekki neitt.

Fjarvistarsönnun stenst

Logue sór af sér alla sök um aðkomu að morðinu á Johönnu. Hann gaf skýrslu þar sem hann lýsti í smáatriðum ferðum sínum og Georges Mason í Boston; hvaða hótelum þeir hefðu dvalið á og jafnvel hvenær þeir fóru í leikhús og sáu leikverkið Róbinson Krúsó, sem þá var til sýninga þar í borg.

Lögreglan gleypti frásögn Logue ekki hráa, en eftirgrennslan sýndi að þeir félagar höfðu í reynd verið á nefndum hótelum og allt annað reyndist standast skoðun. Erfitt var að bera brigður á fjarvistarsönnun Logue.

Alphonse gefur sig

Þá beindust sjónir lögreglu að Alphonse Cutaiar. Upp úr kafinu kom að Alphonse hafði í fórum sínum allmikið af skartgripum Johönnu og einnig að um það leyti sem Johanna hvarf hafði hann látið bræða gull- og silfurgripi og síðan selt.

Alphonse Cutaiar, stjúpsonur Logue, var ekki allur þar sem hann var séður.

Alphonse neitaði sök og reyndi af fremsta megni að skella skuldinni á Logue. Honum var ekki trúað og var yfirheyrður tímunum saman. Axð lokum gaf Alphonse sig og sagði sem var að Jimmy Logue hefði ekkert vitað um morðið á Johönnu.

Kvöldið sem Johanna hvarf

Atburðarás kvöldsins sem Johanna hvarf var, að sögn Alphonse, á þá leið að hann kom, að kvöldi 22. febrúar, 1879, að Johönnu dauðadrukkinni. Hann óttaðist að hún myndi snúa aftur til New York,  þar sem Logue myndi án efa ganga allduglega í skrokk á henni.

Til að koma í veg fyrir það bar Alphonse Johönnu upp í svefnherbergi og batt hana þar niður í rúmið með þvottasnúru. Þar skildi hann við hana og fór aftur niður. Þgar hann síðar fór upp til að athuga með hana sá hann að hún hafði náð að velta sér og hafði kafnað í sænginni. Hann þorði ekki fyrir sitt litla líf að segja þetta nokkrum manni og brá á það ráð að fjarlægja allt skart Johönnu og úr og faldi síðan líkið undir eldhúsgólfinu.

Málalok

Í apríl, 1896, var réttað yfir Alphonse Cutaiar vegna morðsins á Johönnu. Hann var sekur fundinn um morð og dæmdur til að hanga í hæsta gálga. Rúmu ári síðar, í júní 1897, tókst lögfræðingum Alphonse að sannfæra sýknunarnefnd um að milda dóm Alphonse. Var dauðadómnum breytt í lífstíðardóm.

Og þá er sagan öll.

Byggt á murderbygaslight.com

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 
Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum

Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn systur sinni á árunum 2003 til 2007

Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn systur sinni á árunum 2003 til 2007
Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Arnar hefði áhuga á landsliðsþjálfarastarfinu

Arnar hefði áhuga á landsliðsþjálfarastarfinu
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Björn Valur líkir ferð Sigmundar Davíðs í VMA við æluferð Ásmundar Einars

Björn Valur líkir ferð Sigmundar Davíðs í VMA við æluferð Ásmundar Einars
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Íslenska landsliðið mætir Englandi í dag

Íslenska landsliðið mætir Englandi í dag
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Katrín framlengir í Kópavoginum

Katrín framlengir í Kópavoginum
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?