fbpx
Mánudagur 27.janúar 2025

Leyndarmál systkinanna: „Hann kom, sparkaði í mig og stakk mig síðan og skar mig með rakhníf”

Ritstjórn DV
Laugardaginn 31. ágúst 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 1927, eða þar um bil, var 28 ára, hugguleg, skosk kona, Annie Gillon, þerna í Plummers Plain House í Lower Beeding í Sussex á Englandi. Þar vann einnig bróðir Annie, James Gillon, en hann var aðstoðargarðyrkjumaður.

Undarleg í háttum

Það var ekki af þeim tekið að systkinin voru dugnaðarforkar og féll varla verk úr hendi, en voru að sögn frekar undarleg í háttum. Annað vinnufólk í Plummers Plain House tók eftir því að þegar systkinin voru saman þá töluðu þau saman í lágum hljóðum og 15 ára drengur, sem þar vann, sá þau einu sinni kyssast og fannst sem kossinn sá væri allt annað sakleysislegur.

Samvistir að vinnu lokinni

Einnig veittu aðrir því eftirtekt að Annie og James virtust lítið samneyti vilja hafa við vinnufélaga sína á setrinu og lok hvers vinnudags fór Annie í lítið hús sem James hafði til afnota á landareigninni.

Þar útbjó hún mat handa bróður sínum og kom sjaldan í herbergi sitt í Plummers Plain House fyrr en langt var liðið á kvöld.

Annie breytist

Annie Gillon hafði verið ráðin til starfa í maí, árið 1927, og bróðir hennar um tveimur mánuðum síðar. Allan þann tíma höfðu þau breytt eins og áður er lýst, en á því varð breyting um miðjan september.

Þá varð Annie félagslyndari og blandaði einkum og sérílagi geði við brytann, George Mercer, sem var einnig bílstjóri fjölskyldunnar í Plummers Plain House ef svo bar undir.

Óhlýðnast bróður sínum

Þann 19. september þurfti George að skjótast til Brighton einhverra erinda fyrir húsbónda sinn. George bauð Annie og matseljunni, frú Lilian Crouchman, að slást með í för. Það fannst Annie spennandi hugmynd og varð alsæl, en James setti í brýnnar og sagði systur sinni að vera heima.

Annie virti fyrirmæli James að vettugi og sagði George að það yrði henni sönn ánægja að fara með honum og frú Crouchman.

Þegar bíllinn rann úr hlaði var greinilegt að James var ævareiður.

Annie óhlýðnast aftur

Annie var í skýjunum þegar þau komu heim frá Brighton um kvöldið. Ánægjan hvarf eins og dögg fyrir sólu þegar bróðir hennar byrjaði að nöldra í henni. James kvartaði yfir því að hann hefði hvorki fengið vott né þurrt allan þann dag vegna sjálfselsku Annie, sem hafði valið að fara til Brighton í stað þess að hugsa um hann.

James sagði Annie að koma í kotið hans og útbúa kvöldverð handa honum. Annie hélt nú ekki, sagði James að láta hana í friði og strunsaði til herbergis síns.

Rakhnífur og gapandi sár

Klukkan átta næsta morgun heyrði garðyrkjumeistarinn hávær vein sem bárust frá álmu þjónustufólksins í Plummer Plain House. Hann rauk þangað og hljóp nánast í flasið á James sem staulaðist um með rakhníf í hönd og skurði á hálsi og úlnliðum.

Annie virtist hafa lyppast niður í stól og var með gapandi skurð á hálsinum. Síðar kom í ljós að hún hafði verið stungin með hnífi í bakið, af svo miklu afli að blaðið brotnaði og sat eftir í sárinu.

Yfirlýsing Annie

James féll á gólfið og læknir sem kallaður var til sá samstundis að Annie var nær dauða en lífi. Læknirinn bað Annie að segja hvað hefði gerst, hann, frú Crouchman og garðyrkjumeistarinn myndu verða vottar að yfirlýsingu hennar sem lögreglan fengi.

Læknirinn skrifaði niður það sem Annie gat með harmkvælum sagt: „Ég, Annie Gillon, lýsi því yfir, í þeirri trú að ég muni brátt deyja, að bróðir minn, James Gillon, sagði mér að færa honum morgunverð. Ég sagði að ég myndi ekki gera það og hann kom, sparkaði í mig og stakk mig síðan og skar mig með rakhníf. Þetta er yfirlýsing mín 20.9.27, klukkan 9 að morgni.“

Ekki lífs auðið

Systkinin voru flutt á sjúkrahús og ljóst að sár James voru ekki alvarleg. Hann var handtekinn og ákærður fyrir morðtilraun og sjálfsmorðstilraun. Ástand Annie var öllu alvarlegra og átta dögum síðar lést hún á sjúkrahúsinu.

Áður en Annie lést hafði hún upplýst að hún hefði um nokkurt skeið viljað segja skilið við bróður sinn, en ekki getað. Henni hefði fundist sem hún væri föst í gildru og að hún myndi aldrei losna við hann.

Gamalt leyndarmál

Þegar réttað var yfir James í Lewes bar hann fyrir sig geðveiki. Kviðdómur hafnaði þeirri vörn og James var sakfelldur og dæmdur til dauða.

Dómnum var áfrýjað og þá kom í ljós gamalt mál upp úr kafinu. James hafði verið dæmdur, árið 1921, fyrir að hafa átt samræði við systur sína og fengið þriggja ára fangelsisdóm fyrir vikið. Afrakstur sifjaspellanna var barn sem Annie bar og fæddi. Samband systkinanna hafði haldið áfram eftir að James losnaði úr fangelsi.

Áfrýjunin bar ekki árangur, dauðadómurinn stóð óhaggaður og 31. janúar, 1928, var James Gillon hengdur. Böðularnir sem fullnægðu dómnum hétu Robert Baxter og Thomas Philips.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Hleypti óvart af hólknum í miðju hlaðvarpsviðtali – „Hver skaut hvern?“

Hleypti óvart af hólknum í miðju hlaðvarpsviðtali – „Hver skaut hvern?“
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Áttatíu afbókanir í janúar og fleiri á leiðinni

Áttatíu afbókanir í janúar og fleiri á leiðinni
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

England: Leicester vann Tottenham á útivelli

England: Leicester vann Tottenham á útivelli
Fyrir 11 klukkutímum

Björn Jón skrifar: Við heimtum sólarsýn!

Björn Jón skrifar: Við heimtum sólarsýn!
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Áslaug Arna býður sig fram til formennsku í Sjálfstæðisflokknum

Áslaug Arna býður sig fram til formennsku í Sjálfstæðisflokknum
Fókus
Fyrir 13 klukkutímum

Af hverju eigum við svona erfitt með að einbeita okkur?

Af hverju eigum við svona erfitt með að einbeita okkur?
Fókus
Fyrir 15 klukkutímum

Ferðaðist til allra landa og var hrifinn af Íslandi – „Allt virkar og vegirnir eru í frábæru ástandi“

Ferðaðist til allra landa og var hrifinn af Íslandi – „Allt virkar og vegirnir eru í frábæru ástandi“
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Bannar barnsmóður sinni að koma með: Virðist hafa lítinn áhuga á krökkunum – ,,Hann hló bara þegar hann heyrði af þessu“

Bannar barnsmóður sinni að koma með: Virðist hafa lítinn áhuga á krökkunum – ,,Hann hló bara þegar hann heyrði af þessu“