fbpx
Miðvikudagur 04.desember 2024

Ósyndi Fransmaðurinn og örlög hans

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 7. apríl 2019 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frakkinn Jean-Paul Drillard hafði gaman af lífinu. Hann var glaðsinna náungi, alltaf með bros á vör og gamanyrði á takteinum. Skotveiðar voru líf hans og yndi, stangaveiðar ekki svo mjög því hann var, eins og hann sagði við sambýliskonu sína, Genevieve, ósyndur. „Og,“ bætti hann við, „satt best að segja hræðist ég vatn.“

Lítil hamingja

Jean-Paul og Genevieve bjuggu í litlu húsi í Chevinay, litlu þorpi í Rhone-dalnum í Frakklandi, ekki langt frá Lyon. Þegar þarna var komið sögu, fyrri hluta árs 2008, fannst Jean-Paul lífið leika við sig en raunin hafði ekki alltaf verið sú.

Þar til ári áður hafði hann verið kvæntur maður, átt fjögur börn (sem hann átti svo sem enn, þegar hann og Genevieve fóru að rugla saman reytum) og unnið hjá vatnsfyrirtæki. Hann hafði ekki verið hamingjusamur maður.

Kunni ekki að elda

Heimilið þá var gamall bóndabær. Bærinn var nógu stór fyrir alla fjölskylduna, það vantaði ekki, en Jean-Paul var ekki ánægður. Honum fannst eiginkona sín engan veginn standa sig í stykkinu, þrifnaði var ábótavant og Guð mátti vita hvað.

Jean-Paul Drillard
Glaðsinna Frakki sem líkaði góður matur.

Jean-Paul þreyttist aldrei á að kvarta yfir því, en það var eitt sem honum mislíkaði meira en allt annað. Konan hans, sagði hann, gæti ekki eldað sómasamlega máltíð þótt líf hennar lægi við.

Skilnaður og ný kona

En sem sagt, Jean-Paul sagði skilið við eiginkonuna og einhæfa eldamennsku hennar og má leiða líkur að því að hún hafi ekki verið ósátt við þá ákvörðun því samskipti þeirra voru með ágætum í kjölfarið. Hún flutti með börnin en Jean-Paul bjó áfram á gamla bænum.

Nú tíminn leið, eins og honum er tamt að gera, og Jean-Paul kynntist einstæðri konu; Genevieve Bertry.

Eiginmaður Genevieve hafði beðið lægri hlut fyrir krabbameini þremur árum fyrr og eini lífsförunautur hennar síðan hafði verið langhundur.

Frábær kokkur

Að sögn fór því fjarri að Genevieve væri sem sólargeisli, en hún var einum ótvíræðum kosti búin – hún kunni að elda frábæran mat. Um leið og Jean-Paul var búinn að sannreyna það varð ekki aftur snúið. Þau tóku saman og fluttu inn í nýtt heimili á Chevinay.

Húsið í Chevinay
Hér bjuggu Jean-Paul og Genevieve.

Jean-Paul hafði unun af að innbyrða góðan mat, en þátttaka í matseldinni kannski ekki eins mikið. Því sat hann gjarna á hverfiskránni ásamt veiðifélögum sínum og dreypti á víni á meðan Genevieve stóð við hlóðirnar.

Ekki eilíf hamingja

Leið nú ár eða svo og var eftir því tekið að Jean-Paul virtist hafa glatað sinni alkunnu gleði. Sagði hann vinum sínum að Genevieve gæti ekki sofið án þess að innbyrða sterkar svefntöflur og þeir vissu einnig að hún átti til að verða þunglynd. Til að bæta gráu ofan á svart þá voru þau farin að rífast oftar en góðu hófi gegndi.

Þungamiðja deilna þeirra var langhundur Genevieve. Jean-Paul vildi ekki sjá hundinn inni á heimili þeirra, enda taldi hann, sem veiðimaður, að hundar ættu að vera í hundageymslu. Genevieve mátti ekki heyra á slíkt minnst.

Kviðverkir

Þegar lífið lék við Genevieve og Jean-Paul áttu þau til að ganga saman á bökkum vatns sem var í nokkurra kílómetra fjarlægð frá húsi þeirra. Það var einmitt í einni slíkri gönguferð sem Jean-Paul upplýsti Genevieve um vatnshræðslu sína og væri ósyndur.

Það var þó fleira sem olli honum hugarangri. Heiftarlegir kviðverkir sem virtist nánast vera viðvarandi. Hver veit, sagði hann í gríni við vini sína, nema dásemdar matseld Genevieve væri að gera út af við hann.

Kvöldganga

Víkur nú sögunni til kvöldsins 28. apríl 2008. Jean-Paul og Genevieve höfðu nýlokið við að gæða sér á enn einum dýrindis kvöldverði og Genevieve sagði: „Kvöldið er fagurt. Af hverju keyrum við ekki niður að vatni og fáum okkur göngutúr?“

Vatnið í Chevinay
Vettvangur gönguferða Jean-Paul og Genevieve.

Jean-Paul fann ekkert því til foráttu enda saddur, sæll og sáttur við tilveruna og þau lögðu af stað. Áður en þau komu á leiðarenda var Jean-Paul í fastasvefni í farþegasætinu frammi í.

Værð hans mátti þó ekki aðeins rekja til kvöldverðarins heldur einnig, og alls ekki að minna leyti, til svefnlyfjanna sem Genevieve hafði sett í matinn hans, og ekki sparað.

Ósyndur á kafi í vatni

Þegar þau komu að vatninu fór Genevieve út úr bílnum og lét hann síðan renna niður aflíðandi vatnsbakkann. Bíllinn rann út í vatnið og byrjaði að sökkva. Jean-Paul komst til meðvitundar, barðist um og öskraði: „Ég kann ekki að synda.“ Það voru engin ný sannindi fyrir Genevieve sem stóð á bakkanum og hélt fyrir eyrun á meðan bíllinn hvarf undir vatnsyfirborðið.

Síðar sagðist hún hafa reynt að stöðva bílinn en það hefði ekki verið gerlegt. Jean-Paul tókst með harmkvælum að opna einar dyr, en var ósyndur og því fór sem fór.

Sakleysið uppmálað

Að öllu þessu loknu gekk Genevieve heim, hringdi í bróður Jean-Paul, Jean-Marc, og spurði: „Hefur þú séð Jean-Paul?“ Genevieve sagði Jean-Marc að Jean-Paul hefði ætlað að kíkja til hans og væri ekki kominn til baka. „Ég hef smá áhyggjur. Ég vona að hann hafi ekki gert eitthvað heimskulegt,“ bætti hún sakleysið uppmálað.

Jean-Marc kom af fjöllum. „Eitthvað heimskulegt?“ sagði hann og bætti við: „Hvað í ósköpunum ætti hann að gera heimskulegt?“

Sannleikurinn sagður

Jean-Marc rauk út í bíl og ók þá leið sem bróðir hans hefði ekið ef hann ætlaði að heimsækja hann. En það var ekki tangur né tetur að sjá af hvorki bílnum né Jean-Paul.

Næsta dag fór Genevieve á lögreglustöðina og sagði að Jean-Paul hefði ekki skilað sér heim. Síðan fór hún til Jean-Marc og virtist í öngum sínum vegna óvissunnar. Þaðan fór hún til systur sinnar og hugðist dvelja þar.

Um nætur bylti hún sér þar til systir hennar fékk nóg og spurði hví hún tæki ekki eitthvað af svefntöflunum. „Ég er búin með þær,“ svaraði Genevieve. Síðan brotnaði Genevieve niður og sagði systur sinni alla sólarsöguna.

Sögulok

Að áeggjan systur sinnar fór Genevieve, daginn eftir, 2. maí, til lögreglunnar og játaði allt og síðar þann dag voru bifreiðin og líkið af Jean-Paul dregin upp úr vatninu.

Þann 4. maí var Genevieve ákærð fyrir morð og þegar hún var spurð um ástæðu verknaðarins muldraði hún eitthvað um bræðisköst Jean-Paul og að hann hefði ekki kunnað við langhundinn hennar.

Árið 2011 fékk Genevieve Bertry tuttugu ára dóm fyrir morð af yfirlögðu ráði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Neikvæðu fréttirnar um hann halda áfram – Rifust heiftarlega í hálfleik

Neikvæðu fréttirnar um hann halda áfram – Rifust heiftarlega í hálfleik
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Á Reykjavíkurborg að taka upp viðmiðunarverð á veitingastöðum?

Á Reykjavíkurborg að taka upp viðmiðunarverð á veitingastöðum?
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Van Dijk fær samningsboð – Salah næstur

Van Dijk fær samningsboð – Salah næstur
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Gunni breytti um nafn en frestaði að tilkynna móður sinni tíðindin

Gunni breytti um nafn en frestaði að tilkynna móður sinni tíðindin
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Arne Slot án sex manna í ferðalaginu norður

Arne Slot án sex manna í ferðalaginu norður
Fókus
Fyrir 7 klukkutímum

Hálfbróðir Eminem bregst við fráfalli móður þeirra með harðorðri færslu

Hálfbróðir Eminem bregst við fráfalli móður þeirra með harðorðri færslu