fbpx
Mánudagur 15.júlí 2024

Saklaus í sautján ára prísund – Hrottalega árásin sem öllu lífinu breytti

Ritstjórn DV
Laugardaginn 14. desember 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður er nefndur Martin Tankleff, sem kallaður var Marty af þeim sem til hans þekkja. Marty kom í heiminn á Long Island í New York 29. ágúst á því herrans ári 1971.

Af bernsku Martys segir fátt en eitt hafði þó áhrif á allt hans líf og það var dauði foreldra hans, Seymours og Arlene, árið 1988. Þann 7. september, það ár, þegar Marty var 17 ára, kom hann, að eigin sögn, að móður sinni látinni og föður sínum vart með lífsmarki. Höfðu þau bæði verið stungin ítrekað með eggvopni.

Fórnarlömbin
Tankleff-hjónunum var ráðinn bani með hrottalegum hætti.

Marty hringdi umsvifalaust á Neyðarlínuna og gerði hvað hann gat til að halda lífi í föður sínum.

Marty grillaður

Þegar lögreglan kom á heimili Tankleff-fjölskyldunnar upplýsti Marty hana um þann sem líklega bæri ábyrgð á verknaðinum. Taldi Marty lítinn vafa á að þar væri um að ræða viðskiptafélaga Seymours, Jerry Steuerman, en þeir áttu og ráku beyglubakarí.

Sagði Marty að meðeigandinn skuldaði föður hans hálfa milljón dala og hefði nýlega hótað Seymour og Arlene öllu illu. Að auki hefði hann farið, síðastur gesta, af heimili Tankleff-fjölskyldunnar kvöldið áður.

Næstu viku gerðist ýmislegt. Faðir Martys lá meðvitundarlaus á sjúkrahúsi og viðskiptafélagi hans setti á svið eigin dauða, dulbjó sig og fór til Kaliforníu undir uppdiktuðu nafni. Þrátt fyrir það beindist grunur lögreglunnar í Suffolk-sýslu aldrei að Steuerman en Marty var færður á lögreglustöð og grillaður þar.

Rumskaði ekki

Það sem vakti grunsemdir lögreglunnar, að hennar sögn, var sú fullyrðing Martys að hann hefði steinsofið þegar ráðist var á foreldra hans, þrátt fyrir að verksummerki sýndu að árásin hefði verið hrottaleg. Einnig taldi lögreglan að þær tilfinningar sem hann sýndi á vettvangi hefðu ekki verið í samræmi við það sem hann stóð frammi fyrir.

Fjölskyldan
Martin missti foreldra sína og 17 ár að auki.

Yfirheyrslur stóðu klukkustundum saman og Marty játaði, en sagði allar götur þaðan í frá að hann væri saklaus og játningin hefði verið fengin með þrýstingi og þvingunum. Játningin fékk að standa fyrir dómi þrátt fyrir fullyrðingar Martys, en hann neitaði alla tíð að undirrita játninguna.

Uppdiktað símtal

Að sögn hafði Marty verið alinn upp í trausti í garð lögreglunnar og ekki síður að trúa föður sínum. Við yfirheyrslu setti lögreglan á svið símtal og fullyrti að faðir Martys hefði verið á hinum enda línunnar, hann hefði komist til meðvitundar og sagt að Marty hefði ráðist á hann.

Við þessi tíðindi runnu tvær grímur á Marty og hann velti því fyrir sér hvort hann hefði hreinlega „dottið út“ og ráðist á foreldra sína með þessum hrikalegu afleiðingum.

Rannsóknarlögreglumenn drógu alls ekki úr þessum vangaveltum, ýttu frekar undir þær en hitt og, sem fyrr segir, játaði Marty á sig morðin. Þegar þarna var komið við sögu hafði faðir hans skilið við.

Talaði fyrir daufum eyrum

Lyktir urðu þær að árið 1990, þegar Marty var 19 ára, var hann dæmdur til til fangelsisvistar. Hann fékk tvisvar sinnum 25 ára dóm. Marty hafði talað fyrir daufum eyrum. Enginn hafði áhuga á að vita hvernig rannsóknarlögreglumaður að nafni McCready hafði þrýst á hann, skrifað játninguna og reynt árangurslaust að fá Marty til að skrifa undir hana.

Sekur
Frá upphafi beindust sjónir lögreglu að Martin Tankleff.

Enginn vildi velta fyrir sér af hverju Jerry Steuerman hafði sviðsett eigin dauða, dulbúið sig og lagt á flótta með nýtt nafn. Nú eða þeirri staðreynd að Steuerman hafði síðastur manna séð foreldra Martys á lífi og skuldaði í þokkabót föður Martys fúlgur fjár.

Umdeildur vinskapur

Árið 2004 fóru lögfræðingar Martys fram á ný réttarhöld og byggðu kröfu sína á nýjum sönnunum. Marty sagði að umræddar nýjar sannanir sýndu að glæpamenn á vegum Steuerman hefðu myrt foreldra hans.

Einnig voru lagðar fram sannanir, sem saksóknari gat ekki hrakið, þess efnis að rannsóknarlögreglumaðurinn sem leiddi rannsókn á málinu á sínum tíma væri vinur og fyrrverandi viðskiptafélagi Steuerman. Það gekk þvert á vitnisburð umrædds rannsóknarlögreglumanns við fyrstu réttarhöldin. Einnig kom fram að rannsóknarlögreglumaðurinn hafði gerst sekur um meinsæri í öðru morðmáli.

Sleppt gegn tryggingu

Ekki riðu lögfræðingar Martys feitum hesti frá sinni umleitan, Marty var áfram á bak við lás og slá og árin liðu. Það gerðist síðan árið 2007 að áfrýjunardómstóll New York ákvað að endurskoða málið og í desember það ár var sektardómi Martys snúið, ný réttarhöld heimiluð og, þann 27. desember, Marty sleppt gegn tryggingu.

Þann 29. desember birtist frétt í New York Times þar sem fram kom að New York-fylki hefði hafið opinbera rannsókn á vinnubrögðum löggæslunnar í Suffolk-sýslu og framgöngu hennar í rannsókn á morðunum á Tankleff-hjónunum.

Frelsi og síðbúnar bætur

Saksóknari Suffolk-sýslu tilkynnti 2. janúar, 2008, að ekki yrði réttað yfir Martin Tankleff. Í janúar, árið 2014, dró aftur til tíðinda þegar New York-fylki greiddi Marty 3,3 milljónir dala í bætur fyrir þau 17 ár sem hann sat í prísund.

Jerry Steuerman sat eiðsvarinn fyrir svörum vegna málsins árið 2013 og beitti fyrir sig fimmta stjórnarskrárákvæðinu oftar en 140 sinnum, til að forðast sjálfsásökun um refsivert athæfi. Þannig er nú það.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Staðfesta brottför hans frá Arsenal

Staðfesta brottför hans frá Arsenal
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Vísaði frá máli gegn Donald Trump varðandi stuld á leynilegum skjölum – Skipaði sjálfur dómarann í embætti

Vísaði frá máli gegn Donald Trump varðandi stuld á leynilegum skjölum – Skipaði sjálfur dómarann í embætti
Fókus
Fyrir 8 klukkutímum

Þetta eru stórstjörnurnar sem velja Ungfrú Ísland 2024

Þetta eru stórstjörnurnar sem velja Ungfrú Ísland 2024
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins styður ekki Coda Terminal verkefnið við Vellina – Þyrfti aðkomu minnihlutans til að koma málinu í gegn

Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins styður ekki Coda Terminal verkefnið við Vellina – Þyrfti aðkomu minnihlutans til að koma málinu í gegn