fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024

Líkið í garðinum

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 24. nóvember 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikið stóð til að Fitzhamon Embankment númer 29 í Cardiff í Wales á Bretlandi árið 1989. Eigendurnir höfðu ákveðið að koma þar niðurníddum raðhúsum í betra horf og breyta húsnæðinu í séríbúðir svo þeir gætu aukið innkomu sína.

Á vettvangi
Verkamenn grófu sig niður á óhugnanlegan fund.

Þann 7. desember hljóp snurða á þráðinn og öll vinna lagðist niður. Ástæðan var sú að í garði fyrir framan eitt raðhúsið grófu vinnumenn sig niður á óhugnanlegan fund í garðinum; upprúllað teppi, sem bundið var saman með rafmagnsleiðslum. Innihaldið var beinagrind og var plastpoki reyrður um höfuðkúpuna og handleggirnir höfðu verið bundnir með rafmagnsvír fyrir aftan bak.

Fimmtán ára stúlka

Lögreglan velktist ekki í vafa um að þarna væri um að ræða morðmál og lagði því áherslu á að kennsl yrðu borin á fórnarlambið eins fljótt og auðið yrði. Það yrði þrautin þyngri því ekki var mikið til að byggja á. Fyrir lá að beinagrindin var úr kvenmanni.

Tannlæknir, David Whittaker, var meðal annarra lögreglu innan handar. Sagðist hann geta með 80 prósenta vissu fullyrt að um væri að ræða stúlku sem hefði verið fimmtán og hálfs árs þegar hún mætti örlögum sínum.

Talið var að hún hefði liðið ofbeldisfullan dauðdaga og sennilega kyrkt.

Borin kennsl á fórnarlambið

Aðrir sérfræðingar töldu að hún hefði verið grafin fyrir að minnsta kosti fimm árum og að hún hefði ekki verið af albreskum, hvítum uppruna.

Leitað var til listamanns við Manchester-háskóla og hann fengin til að gera mót af hans hugmynd um andlit stúlkunnar.

Endurgerðin
Listamaður var fenginn til að endurbyggja andlit óþekktu stúlkunnar.

Tveimur dögum eftir að mynd af endurgerð andlits stúlkunnar birtist, í útsendingu BBC í janúar 1990, var lögreglan komin með nafn til að tengja við líkamsleifarnar. Idris nokkur Ali hafði hringt til lögreglunnar og sagst telja sig þekkja stúlkuna, Karen Price.

Karen hafði fimmtán ára horfið af heimili á vegum hins opinbera, í Pontypridd í Wales, þann 3. júní árið 1981. Til hennar hafði ekki spurst síðan.

Ömurleg æska

Karen fæddist 4. september, 1965, móðir hennar var spænsk og faðir hennar átti rætur að rekja til Kýpur. Þau höfðu skilið þegar Karen var sex ára og hún hafði alist upp hjá föður sínum þar til henni var komið í fóstur tíu ára gamalli.

Karen Price
Lík hennar fannst fyrir tilviljun.

Hvað sem því líður þá var það engin nýlunda að Karen léti sig hverfa og því varð lítið uppnám á fósturheimilinu þegar það gerðist árið 1981. Líkt og fleiri börn á heimilinu, með brotinn bakgrunn, átti Karen það til að strjúka.

En í þetta skipti sneri hún ekki til baka, og vakti það furðu þrátt fyrir allt og allt. Viðleitni til að finna hana bar ekki árangur, hún virtist einfaldlega horfin og í átta ár var hennar saknað og hún skráð sem slík hjá yfirvöldum.

Ónafngreind kona

Upphaflega hafði Ali haft samband við lögregluna einfaldlega sem einhver sem hafði þekkt Karen Price og lögreglan taldi hann í besta falli geta varpað ljósi á síðustu vikurnar í lífi Karenar. Það átti eftir að breytast.

Þekkti Karen
Idris Ali þekkti bar kennsl á endurgert andlit hennar.

Í febrúar, 1990, gaf sig fram við lögreglu ung kona sem hafði verið þrettán ára þegar hún dvaldi á sama heimili og Karen. Konan, sem aldrei var nafngreind, sagði að á sínum tíma hefði hún tekið þátt í kynlífi með karlmönnum gegn greiðslu.

Ofbeldisfullt atvik

Einn umræddra manna hafði verið dyravörður að nafni Alan Charlton. Í annað skipti sem konan hitti Alan vildi hann að hún tæki þátt í kynferðislegum athöfnum, sem henni hafði ekki hugnast. Fyrir vikið hafði Alan þessi skorið hana með hnífi í lærið.

Konan bætti um betur og sagði lögreglunni af einu ofbeldisfullu atviki sem átti sér stað með Alan og lauk með morðinu á Karen Price. Konan þekkti annars Karen ekki vel þótt þær hefðu hist í vafasömum félagsskap hér og hvar í bænum.

Að sögn konunnar hafði Karen verið myrt í íbúð Alans Charlton þar sem þær höfðu verið staddar. Viðstaddur morðið var annar karlmaður; Idris Ali.

Karen kyrkt

Þetta var vending sem lögreglan hafði ekki séð fyrir og þegar gengið var á Idris brotnaði hann saman og staðfesti frásögn konunnar og aðild Alans.

Idris játaði að hafa verið hórmangari og gert út ónafngreindu stúlkuna, Karen Price og þriðju stúlkuna.

Alan dyravörður bjó þá í Fitzhamon Embankment númer 29 og bauð Idris, Karen og ungu stúlkunni heim. Þar krafðist Alan þess að stúlkurnar afklæddust svo hægt væri að taka af þeim klámmyndir.

Dyravörður
Alan Charlton missti stjórn á skipi sínu með banvænum afleiðingum.

Karen vildi ekki taka þátt í því og Alan missti stjórn á skapi sínu. Fyrst gekk hann í skrokk á Karen, kyrkti hana síðan og hafði að lokum samfarir við lík hennar.

Fjórum dögum síðar grófu Alan og Idris lík Karenar í garðinum.

Dómur og áfrýjun

Réttarhöld yfir kumpánunum hófust 21. janúar, 1991, og aðalvitni ákæruvaldsins var unga, ónafngreinda konan. Í febrúar voru þeir báðir sakfelldir fyrir morðið á Karen Price. Alan fékk lífstíðardóm og Idris dæmdur til fangelsisvistar svo lengi sem krúnunni hugnaðist.

Árið 1994 áfrýjuðu Alan og Idris dómnum og varð niðurstaðan sú að Alan yrði áfram á bak við lás og slá og dómur hans stæði. Idris fékk ný réttarhöld vegna úrskurðar geðlæknis sem sagði að hann væri á jaðri geðrænnar fötlunar. Idris játaði sig sekan um manndráp og losnaði úr fangelsi enda búinn að afplána í samræmi við það.

Síðar var Idris fangelsaður fyrir aðrar sakir og árið 2010, þegar hann var á reynslulausn, hvarf hann af gistihúsi sem honum hafði verið gert að búa á. Hann hefur ekki sést síðan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Líkfundurinn var aðeins byrjunin á ótrúlegri fléttu – „Ruglað fólk gerir ruglaða hluti“

Líkfundurinn var aðeins byrjunin á ótrúlegri fléttu – „Ruglað fólk gerir ruglaða hluti“
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Sagður efstur á óskalista Liverpool sem er til í að greiða meira en 10 milljarða

Sagður efstur á óskalista Liverpool sem er til í að greiða meira en 10 milljarða
EyjanFastir pennar
Fyrir 16 klukkutímum

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Inga segir eiganda Lumex ljúga – Ítrekað hindrað aðgengi fatlaðra og rifið kjaft

Inga segir eiganda Lumex ljúga – Ítrekað hindrað aðgengi fatlaðra og rifið kjaft
433
Fyrir 19 klukkutímum

Valdi hóp til æfinga á nýju ári

Valdi hóp til æfinga á nýju ári
Fókus
Fyrir 19 klukkutímum

Björgvin fékk magnaða kveðju frá Jóni – „Ég felli bara tár við þessi skrif vinur“

Björgvin fékk magnaða kveðju frá Jóni – „Ég felli bara tár við þessi skrif vinur“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

„Þetta eru fyrirtækin að baki gervikjarasamningi Sveit og Virðingar“

„Þetta eru fyrirtækin að baki gervikjarasamningi Sveit og Virðingar“
Pressan
Fyrir 21 klukkutímum

Trump segir „algjörlega nauðsynlegt“ að Bandaríkin eignist Grænland

Trump segir „algjörlega nauðsynlegt“ að Bandaríkin eignist Grænland