Ernest nokkur Ingenito fæddist í Wildwood í New Jersey í Bandaríkjunum 27. maí 1924. Foreldrar hans voru Ernest eldri og Helen og var Ernest yngri elsta barn þeirra.
Eitthvert rótleysi virðist hafa verið viðloðandi fjölskylduna sem flutti nokkuð oft á milli Wildwood og Fíladelfíu en greinilega var ekki allt í góðu milli foreldra Ernests yngri því þeir sátu vart á sárs höfði og þegar hann var þrettán ára skildu Ernest eldri og Helen.
Án efa hafði sífelldur þvælingur og deilur foreldranna áhrif á Ernest því aðeins tíu ára að aldri lenti hann í vandræðum vegna þjófnaðar og fjórtán ára var hann sendur í betrunarvist vegna afbrota. Næstu árin var hann með annan fótinn í betrunarhúsum, en að lokum sáu yfirvöld aumur á honum og leyfðu honum að flytja til Wildwood, til móður sinnar.
Tíminn leið og árið 1941 gekk Ernest í hjónaband. Eiginkona hans þoldi skapbresti hans um skeið, en fékk sig að lokum fullsadda af hvoru tveggja illri meðferð af hans hálfu og kvennafari og lét sig hverfa.
Þegar þarna var komið sögu var síðari heimsstyrjöldin hafin og Ernest gekk í herinn og var staðsettur í Fort Belvoir í Virginíu. Dvöl hans í hernum lauk árið 1946 þegar hann var afskráður með skít og skömm. Þá hafði herdómstóll réttað yfir Ernest í tvígang, annars vegar fyrir að hafa verið fjarverandi án heimildar og hins vegar fyrir að hafa slegið tvo yfirmenn.
Fyrir seinna brotið fékk Ernest átta ára dóm og afplánaði af honum tvö ár í Green Haven-herfangelsinu í Sing Sing.
Laus úr fangelsi gekk Ernest í hjónaband öðru sinni, þá með Theresu Mazzoli, 21 árs dóttur Michaels og Pearl Mazzoli. Nýju tengdaforeldrarnir áttu grænmetisrækt við Pine Hollow-veg í Franklin í Gloucester-sýslu í New Jersey.
Theresa taldi Ernest á að flytja inn til fjölskyldunnar og um sinn virtist allt leika í lyndi. Ernest hóf störf á bænum og þau hjónin eignuðust tvo syni. Vel fór á með Ernest og tengdaföður hans, en slíkt hið sama var ekki hægt að segja um samskipti hans og tengdamóður hans, Pearl.
Að lokum fór að hrikta í stoðum hjónabands Ernests og Theresu og verulega féll á samband Ernests og allrar fjölskyldu hennar eftir að hann hóf störf í raftækjaverslun í grenndinni.
Michael komst síðan að því að tengdasonur hans væri farinn að halda framhjá Theresu og það reyndist kornið sem fyllti mælinn. Ernest var umsvifalaust úthýst og kom sér fyrir á gistiheimili í nokkurra kílómetra fjarlægð. Þar voru fyrir tveir vinir föður hans, Al og Kay Rulis, sem reyndar koma ekki frekar við sögu.
Nú, Theresa fór á fullt við undirbúning skilnaðar og Ernest hafði, að sögn, samband við lögfræðing til að tryggja að hann fengi séð syni sína tvo.
Fleira gerðist, því um þetta leyti fór Ernest að æfa skotfimi og varð tíður gestur í skotfæraverslunum þar sem hann keypti ógrynnin öll af skotfærum fyrir sístækkandi byssusafn sitt.
Að kvöldi 17. nóvember, 1950, ákvað Ernest að tími væri kominn til að láta sverfa til stáls og ákvað að taka lögin í sínar hendur.
Klukkan átta það kvöld ók Ernest sem leið lá að heimili Mazzoli-fjölskyldunnar. Því fór fjarri að hann væri tómhentur því í farteski sínu hafði hann Luger-skammbyssu sem hann hafði gert sjálfvirka, hálfsjálfvirka Mauser C96 og .32 kalíbera riffil.
Ernest hitti Theresu og krafðist þess að fá að sjá syni sína. Tengdafaðir hans blandaði sér í málið og án frekari málalenginga skaut Ernest hann tveimur skotum, sem urðu honum að bana.
Theresa snerist á hæli og hugðist leita skjóls í aðliggjandi borðstofu, en Ernest náði að skjóta hana í tvígang, annað skotið hafnaði í kvið hennar og hitt í öxlinni.
Pearl sá þá sitt óvænna, yfirgaf húsið og hljóp yfir götuna þar sem foreldrar hennar bjuggu. Ernest fylgdi í kjölfarið og skaut móður Pearl, Theresu Pioppi, í dyragættinni. Hann klofaði yfir lík Theresu og skaut til bana Marion Pioppi, barnshafandi frænku eiginkonu sinnar.
Hann særði níu ára frænku eiginkonu sinnar, Janine, og náði loksins að myrða tengdamóður sína, sem hafði falið sig inni í skáp. Einnig skaut hann til bana bróður tengdamóður sinnar, John Pioppi, sem hafði ráðist að honum vopnaður hníf.
Ernest lét ekki þar við sitja, því hann ók til Minotola, í um tveggja og hálfs klukkutíma akstursfjarlægð frá Franklin. Þar bjuggu frændi og frænka Theresu, Frank og Hilda Mazzoli.
Vífilengjulaust skaut Ernest þau bæði, fyrir framan börn þeirra. Þrátt fyrir að vera alvarlega særð lifðu þau bæði af. Ernest ók síðan á brott en var handtekinn af umferðarlögreglu New Jersey. Við yfirheyrslu játaði hann allt, en neitaði síðar að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis.
Upphaflega var Ernest aðeins sakfelldur fyrir morðið á Pearl og síðan liðu fimm ár þar réttað var yfir honum fyrir fjögur morð að auki. Úrskurður dómara varð að lokum sá að Ernest fengi að afplána alla fimm dómana samtímis. Hann losnaði úr fangelsi árið 1978 og settist að í Trenton í New Jersey og hóf störf þar hjá malbikunarfyrirtæki.
Ernest sýndi aldrei iðrun vegna morðanna og átti, að sögn, til að guma sig af þeim við vini og vinnufélaga. Hann hafði ekki alveg sagt skilið við réttarkerfið, því hann var handtekinn árið 1994 fyrir kynferðisofbeldi og að hafa ógnað velferð átta ára dóttur vinkonu sinnar.
Þann 7. október, 1995, dó Ernest Ingenito í varðhaldi.