fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024

Morðvargurinn frá Minnesota: „Ég vildi óska að gervallt mankyn hefði einn háls svo ég gæti kæft það!“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 13. október 2019 22:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 5. september, árið 1930, var Bandaríkjamaðurinn Carl Panzram leiddur í gálgann í Kansas í Bandaríkjunum. Panzram var ekki vandaður pappír og gekk undir ýmsum nöfnum, í Oregon notaði hann dulnöfnin Carl Baldwin, Jack Allen og Jefferson Baldwin, í Idaho og Montana hét hann Jeff Davis, í Kaliforníu kallaði hann sig Jefferson Davis (sem hann hafði reyndar einnig notað í Montana, auk John King) og í New York kallaði hann sig John O’Leary. Hann hét sem sagt Charles „Carl“ Panzram og hafði ýmislegt miður fallegt á samviskunni þegar hann fór til fundar við skapara sinn.

Áfengi og afbrot

Panzram fæddist 28. júní, 1891, í Minnesota í Bandaríkjunum. Foreldrar hans, Johann og Matilda, voru rússneskir innflytjendur og Carl ólst upp á búgarði fjölskyldunnar.

Vegferð Carls á þröngum vegi dygðarinnar varð æði stutt, því hann var vart af barnsaldri þegar hann varð háður áfengi og ítrekað lenti hann upp á kant við yfirvöld, aðallega vegna innbrota og þjófnaða.

Charles „Carl“ Panzram. Fjórtán ára að aldri strauk hann að heiman.

Carl Panzram strauk að heiman þegar hann var fjórtán ára.

Með tímanum varð Panzram afkastamikill þjófur, en var að sama skapi iðulega gripinn glóðvolgur og fangelsaður. Innan veggja fangelsisins var hann til eilífra vandræða, slóst við verðina og neitaði að fara að fyrirmælum. Fyrir vikið sætti hann barsmíðum og annars konar refsingu af hálfu varðanna sem sennilega kölluðu ekki allt ömmu sína.

Launaði lambið gráa

Frá 1908 til 1910 mátti Panzram dúsa í herfangelsi í Fort Leavenworth eftir að hafa verið gripinn með illa fengna hluti skömmu eftir að hann gekk í herinn, 1907.

Þá var William Howard Taft hermálaráðherra og hafði hann lagt blessun sína yfir dóminn. Taft varð síðar forseti Bandaríkjanna, frá 1909 til 1913, en það er önnur saga.

Mörgum árum síðar, í ágúst 1920, lét Panzram greipar sópa á heimili Taft í New Haven og hafði upp úr krafsinu mikið magn skartgripa, skuldabréfa og .45 kalíbera skammbyssu Taft. Hver veit nema hann hafi viljað launa Taft lambið gráa. Skammbyssan sú átti eftir að koma við sögu í nokkrum morðum síðar meir.

Niðurlæging með nauðgun

Í sjálfsævisögu sinni, síðar meir, sagði Panzram að hann væri „persónugervingur reiði“ og að hann hefði oft nauðgað þeim sem hann rændi frá, ekki vegna þess að hann væri samkynhneigður heldur vegna þess að þannig gat hann niðurlægt mennina og sýnt vald sitt. Reyndar sagði Panzram að honum hefði, á unglingsárum, verið nauðgað af hópi flækinga.

William Howard Taft. Skammbyssa hans kom við sögu í nokkrum morðum Panzram.

Panzram lagði einnig stund á hrein og klár skemmdarverk og íkveikjur og eitt sinn íhugaði hann alvarlega að sökkva bresku herskipi sem bundið var við bryggju í höfn New York. Hugmyndin var að koma af stað stríði á milli Breta og Bandaríkjamanna. Hann hrinti þeim áformum þó ekki í framkvæmd.

Eitt ærlegt starf

Að eigin sögn tók Panzram sér aðeins einu sinni fyrir hendur eitthvað sem ekki taldist glæpsamlegt. Það gerðist þegar hann var „ráðinn“ sem verkfallsbrjótur til að berja á starfsmönnum verkalýðsfélags.

Einnig reyndi hann eitt sinn að fá sig munstraðan á bandarískt herflutningaskip en hafði ekki erindi sem erfiði því hann mætti drukkinn til vinnu.

Listinn yfir fangelsi sem hann heiðraði með nærveru sinni er jafnlangur og listinn yfir dulnefnin sem hann notaði; Kalifornía, TexasIdahoMontanaOregonConnecticutSing Sing og Clinton í New YorkWashington D.C. og Leavenworth í Kansas.

Harðneskjuleg betrunarvist

Víkur nú sögunni til ársins 1915, 1. júní nánar tiltekið. Þá braust Panzram inn í hús í Astoria í Oregon. Þegar hann skömmu síðar reyndi að koma þýfinu í verð var hann handtekinn og fékk sjö ára dóm í Oregon-ríkisfangelsinu.

Þangað kom Panzram 24. júní og fékk fljótlega að finna til tevatnsins því fangavörðurinn sem hafði yfirumsjón með honum, Harry Minto, hafði ofurtrú á betrunargildi slæmrar meðferðar fanga; barsmíða og einangrunarvistar fyrir smávægilegar yfirsjónir.

Í fangelsinu sór Panzram, að eigin sögn, að hann „myndi aldrei afplána öll sjö árin og skora á fangelsisstjórann og alla hans undirmenn að neyða hann til þess.“

Tveggja mánaða einangrun

Panzram fór ekki varhluta af betrunaraðferðum Minto og var meðal annars látinn dúsa í einangrun í 61 dag. Panzram stóð við stóru orðin og strauk úr fangelsinu 18. september árið 1917. Áður hafði hann aðstoðað samfanga, Otto Hooker, að flýja úr fangelsinu og má segja að Hooker hafi launað greiðann því hann banaði Minto í leiðinni.

Flótti Panzram var þó skammgóður vermir því hann var handsamaður og hent í grjótið á ný, þó ekki fyrr en eftir að hafa tekið þátt í tveimur skotbardögum.

Því fór fjarri að Panzram játaði sig sigraðan, því 12. maí, 1918, sagaði hann sundur rimla og strauk á ný. Í það skipti tókst honum að forðast verði laganna og komst um borð í lest á austurleið. Hann breytti nafni sínu í John O’Leary og rakaði af sér yfirvaraskegg sem hann hafði skartað. Hann sneri aldrei aftur á sínar gömlu slóðir.

Í Angóla í Afríku

Kynntist innviðum fjölda fangelsa.

Árið 1920, í New York, tók líf Panzram nýja stefnu er hann framdi sín fyrstu morð. Hann beitti þeirri aðferð að lokka sjómenn af börum, hella þá fulla, nauðga þeim og skjóta síðan til bana. Líkunum henti hann í ána. Að eigin sögn náði hann tíu fórnarlömbum með þessum hætti, en óhapp olli því að hann þurfti að leita á aðrar slóðir.

Luanda í Angóla varð fyrir valinu og þar nauðgaði hann og myrti 12 ára pilt.

Í játningum sínum skrifaði Panzram: „Heilinn í honum rann út úr eyrunum þegar ég skildi hann eftir og hann verður aldrei dauðari.“

Einnig sagðist Panzram hafa tekið árabát með áhöfn á leigu og hann hefði skotið ræðarana og fleygt líkunum fyrir borð sem krókódílafæðu.

Ótal ódæði

Panzram sneri heim til Bandaríkjanna og hélt uppteknum hætti. Á meðal þess sem hann játaði síðar var morð á manni sem reynt hafði að ræna hann. Einnig sagðist hann hafa nauðgað og myrt tvo drengi, annan drengjanna barði hann til bana með grjóthnullungi þann 18. júlí, 1922, í Salem í Massachusetts, en hinn kyrkti hann síðar það sama ár í Connecticut.

Panzram losaði sig við yfirvaraskeggið eftir fangelsisflótta.

Eftir að Panzram var handtekinn árið 1928 sagðist hann hafa framið morð þegar hann braust inn í hús á leiðinni á milli Baltimore og Washington D.C. og einnig í Fíladelfíu, sama ár og hann var handtekinn. Þrjú af þessum fimm morðum var hægt að staðfesta.

Skrifar sjálfsævisögu

Panzram var í haldi í Washington D.C. og ungur fangavörður, Henry Lesser, sá aumur á honum og útvegaði honum skriffæri og pappír sem Panzram nýtti til að skrifa sjálfsævisögu sína. Í henni dró hann ekkert undan og má með sanni segja að þar hafi komið í ljós hvaða mann Carl Panzram hafði að geyma.

Á meðal þess sem Panzram skrifaði var: „Ég hef á minni ævi myrt 21 manneskju, ég hef framið þúsundir innbrota, rána, þjófnaða, íkveikja og, síðast en ekki síst, ég hef nauðgað yfir 1.000 karlmönnum. Ég iðrast einskis af þessu öllu saman.“

Hótar öllu illu

Panzram fékk 25 ára dóm sem hann skyldi afplána í Leavenworth-alríkisfangelsinu. Hann fór ekki í launkofa með skoðanir sínar eða áform og sagði við fangelsisstjórann: „Ég drep þann fyrsta sem ónáðar mig.“

Þetta reyndust ekki orðin tóm því 20. júní, 1929, barði hann yfirmann fangelsisþvottahússins, Robert Warnke, til bana með járnröri. Fyrir vikið fékk Panzram dauðadóm og hótaði hverjum þeim dauða sem reyndi að fá þeim dómi hnekkt.

Kokhraustur til síðustu stundar

Carl Panzram var hengdur 5. september, 1930, og þegar snörunni var smeygt um háls hans hrækti hann framan í böðulinn og sagði: „Ég vildi óska að gervallt mannkyn hefði einn háls svo ég gæti kæft það!“

Böðullinn spurði Panzram hvort hann vildi segja eitthvað að lokum og Panzram urraði: „Já, komdu þessu frá, helvítið þitt! Ég gæti drepið tíu manns á meðan þú dundar þetta!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 14 klukkutímum

Hún virtist eiga hið fullkomna líf – Sannleikurinn kom í ljós eftir að eiginmaður hennar fannst látinn

Hún virtist eiga hið fullkomna líf – Sannleikurinn kom í ljós eftir að eiginmaður hennar fannst látinn
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Gummi Ben ræðir son sinn Albert og skrefið í sumar – „Þá hef ég trú á að góðir hlutir gerist“

Gummi Ben ræðir son sinn Albert og skrefið í sumar – „Þá hef ég trú á að góðir hlutir gerist“
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Listinn lengist – Þessir háttsettu Rússar hafa verið myrtir í Rússlandi

Listinn lengist – Þessir háttsettu Rússar hafa verið myrtir í Rússlandi
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Rashford sagður öskuillur yfir þessu útspili Manchester United

Rashford sagður öskuillur yfir þessu útspili Manchester United