fbpx
Fimmtudagur 05.desember 2024

Fimm eiginmenn – Fimm dauðsföll

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 3. febrúar 2019 23:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bandaríska amman Betty Neumar var annaðhvort forhert „svört ekkja“ eða einstaklega óheppin hvað eiginmenn áhrærði. Ólíklegt er að nokkurn tímann verði hægt að fullyrða um hvort var að ræða. Betty, sem fæddist árið 1931 í Ohio, giftist sínum fyrsta manni árið 1950 og átti eftir að eiga fimm eiginmenn þaðan í frá. Sjálf dó Betty árið 2011 úr krabbameini, 79 ára að aldri, og þegar þar var komið sögu biðu hennar réttarhöld vegna dauða fjórða eiginmanns hennar, Thomasar Harolds Gentry.

Skotinn eftir að hjónabandi lauk

Fyrsti eiginmaður Betty hér Clarence Malone. Þau gengu í hjónaband árið 1952, þau eignuðust einn son, Gary, og skildu árið 1952. Clarence gekk tvisvar sinnum í hjónaband eftir að hann og Betty skildu. Löngu síðar, í nóvember 1970, var hann skotinn til bana fyrir utan biffeiðaverkstæði sitt í Cleveland. Um morð var talið að ræða, en ekki hvað, en Betty var, kannski eðlilega, ekki talin tengjast því. Morðinginn fannst aldrei.

Skotinn eða fraus í hel

Ekki er ljóst hvenær Betty giftist öðrum eiginmanni sínum, James Flynn, en hann gekk Gary í föðurstað og ættleiddi hann. Litlum sögum fer af því hjónabandi, en þó liggur fyrir að þau eignuðust dóttur, Peggy. Hjónabandinu lauk þegar Flynn var skotinn til bana á ónefndri bryggju í New York árið 1955.

Betty Neumar
„Svört ekkja“ eða einstaklega óheppin.

Reyndar segir sagan að síðar meir hafi Betty haft nokkrar útgáfur á takteinum um dauða Flynn; hann hafi einfaldlega dáið á bryggju, hann hafi dáið í bifreið á óljósum stað og að hann hafi frosið í hel.

Rifrildi og sjálfsvíg

Þá var röðin komin að þriðja eiginmanninum, Richard Sills. Betty kynntist honum einhvern tímann upp úr 1960 þegar hún vann á snyrtistofu í Jacksonville í Florída. Sills var sjóliði í bandaríska sjóhernum. Í apríl, 1967, var lögreglan kölluð að heimili hjónanna í Big Coppitt Key. Þá var Sills liðið lík í svefnherbergi heimilisins, skotinn til bana. Betty sagði að þau hefðu verið ein heima, rifist og hún hefði ekki vitað fyrr en hann greip byssu og skaut sjálfan sig. Dauði hans var úrskurðaður sjálfsvíg.

Væn líftrygging

Eiginmaður númer fjögur var Thomas Harold Gentry. Betty giftist honum árið 1968 og þegar Gentry, sem var í bandaríska hernum, settist í helgan stein, undir lok áttunda áratugarins, fluttu þau til Norður-Karólínu.

Að sögn Als, bróður Gentry, einkenndist hjónabandið af stöðugu rifrildi. Gentry fannst skotinn til bana á heimili þeirra hjóna árið 1986. Hann hafði verið skotinn mörgum sinnum.

Harold Gentry
Betty entist ekki líf til að standa skil á dauða hans.

Al sagði að áður en bróðir hans var myrtur hefði Betty beðið hann að flytja af heimilinu, en hvað sem því líður þá fékk hún greidda út líftryggingu hans, 20.000 dali. Morðinginn fannst aldrei.

Brenndur þrátt fyrir önnur plön

Talandi um líftryggingu; fimmti og síðasti eiginmaður Betty, John Neumar, var einnig líftryggður. Þau giftust árið 1991 en Betty hafði kynnst honum eftir að hún flutti til Augusta í Georgíu-fylki.

Að sögn fjölskyldu Neumar þá einangraði hún John frá öllum hans ættingjum. Svo hart gekk Betty fram í því, að ættingjar Neumar lásu um andlát hans í blöðunum.

Talið var að banamein Neumar hefði mátt rekja til blóðeitrunar, blóðþurrðar í görnum og stíflu í þörmum, en við nánari skoðun þá gátu einkennin einnig bent til arsenikeitrunar. Þegar sá grunur vaknaði var ekki hægt að ganga úr skugga um það, því þrátt fyrir að Neumar hefði gert ráðstafanir til að verða grafinn, og meira að segja tryggt sér legstað, þá var lík hans brennt.

Leitaði til leigumorðingja

Al, bróðir Thomasar Harolds Gentry, og John Neumar yngri, sonur síðasta eiginmanns Betty, grunuðu báðir Betty um græsku varðandi dauðdaga annars vegar bróður síns og hins vegar föður. Þeir höfðu viðrað þær grunsemdir sínar við lögreglu. Slíkt hið sama hafði Michael Sills, sonur þriðja eiginmanns Betty gert.

Það eina sem kom út úr því öllu saman var að Betty var ákærð fyrir að hafa í þrígang reynt að ráða einhvern til að bana Harold. Í júlí, 2008, var Betty einnig ákærð fyrir að hafa reynt að ráða leigumorðingja til að koma Neumar fyrir kattarnef. Betty hafði meðal annars sett sig í samband við fyrrverandi lögreglumann og einnig nágranna sinn með það fyrir augum.

Sem fyrr segir þá var aldrei réttað yfir Betty og ólíklegt að sannleikurinn komi nokkurn tímann í ljós.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Segja að Real sé hætt við að fá Trent í janúar

Segja að Real sé hætt við að fá Trent í janúar
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Forsetinn um Salah: ,,Þessar sögusagnir eru ekki réttar“

Forsetinn um Salah: ,,Þessar sögusagnir eru ekki réttar“
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Skýrari mynd dregin upp af andláti hjónanna í Neskaupsstað – Hinn grunaði þakinn blóði við handtöku og alvarlega veikur

Skýrari mynd dregin upp af andláti hjónanna í Neskaupsstað – Hinn grunaði þakinn blóði við handtöku og alvarlega veikur
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Rifust um peningaeyðslu í fíkniefni því jólin eru á næsta leiti

Rifust um peningaeyðslu í fíkniefni því jólin eru á næsta leiti
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Björn: Ekki endilega best að minnka greiðslubyrðina þegar vextir lækka – Svona geturðu stytt lánið um allt að helming

Björn: Ekki endilega best að minnka greiðslubyrðina þegar vextir lækka – Svona geturðu stytt lánið um allt að helming
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Hvetur félag sitt til að sækja eina af hetjum Spánverja

Hvetur félag sitt til að sækja eina af hetjum Spánverja
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Neikvæðu fréttirnar um hann halda áfram – Rifust heiftarlega í hálfleik

Neikvæðu fréttirnar um hann halda áfram – Rifust heiftarlega í hálfleik
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Á Reykjavíkurborg að taka upp viðmiðunarverð á veitingastöðum?

Á Reykjavíkurborg að taka upp viðmiðunarverð á veitingastöðum?