fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025

Mögnuð tilraun menntaskólakennara í Kaliforníu átti eftir að draga dilk á eftir sér

Tók nokkra daga að festa rætur fasisma

Einar Þór Sigurðsson
Miðvikudaginn 7. mars 2018 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hvernig í ósköpunum gat það gerst að nasistar komust til valda í Þýskalandi og stjórnuðu landinu með þeim hættu sem þeir gerðu, að því er virðist án þess að almenningur hreyfði mótbárum? Þetta var spurning sem brann á vörum menntaskólanemenda í skóla einum í Palo Alto í Kaliforníu árið 1967. Ron Jones var sögukennari og voru það nemendur hans sem veltu spurningunni fyrir sér. Óhætt er að segja að þessi spurning – eða kannski leitin að svarinu – hafi haft ófyrirséðar afleiðingar í för með sér.

Fór óhefðbundna leið

Ron Jones vissi sem var að í starfi sínu sem kennari þyrfti hann að vera frjór og ef til vill leita óhefðbundinna leiða til að fræða nemendur sína um sögulega atburði. Það er nákvæmlega það sem Jones gerði þegar hann ákvað að leggja verkefni fyrir nemendur sína. Verkefnið átti að taka viku og var markmiðið einmitt að svara þeirri spurningu sem varpað er fram hér að framan, spurningunni sem Jones sjálfur átti erfitt með að útskýra í orðum. Yfirskrift verkefnisins var Aldan (e. The Wave) og var markmiðið að sýna hvernig hægt væri að rústa lýðræðinu í frjálsum og opnum samfélögum með fasískum stjórnarháttum.

Eitt af slagorðunum sem nemendur sungu reglulega þá viku sem tilraunin stóð yfir.
„Sterkir með aga“ Eitt af slagorðunum sem nemendur sungu reglulega þá viku sem tilraunin stóð yfir.

Setti strangar reglur

Fyrsta dag verkefnisins tók Jones upp á því að haga sér eins og hálfgerður einræðisherra. Hann setti nemendum sínum strangar reglur; þeir þurftu að sitja alla kennslustundina og máttu aðeins standa upp til að spyrja eða svara spurningum. Í þeim tilfellum máttu þeir ekki nota fleiri en þrjú orð. Þá þurftu þeir að ávarpa kennarann sérstaklega sem herra Jones. Næsta dag færði Jones tilraunina á næsta sig þar sem hann kynnti enn meiri aga. Hann lét nemendur kyrja slagorð eins og „Sterkir með aga“ og þá kenndi hann þeim sérstaka kveðju; hendur beint fram í axlarhæð með fingur niður. Þessa kveðju áttu nemendur að nota þegar þeir heilsuðu hver öðrum og enga aðra. Jones kallaði nemendur sína „Þriðju ölduna“ sem var tilvísun í það að þriðja aldan er ávallt sterkust.

Nemendum fjölgaði skyndilega

Óhætt er að segja að Jones hafi ekki búist við því að tilraunin hefði jafn miklar afleiðingar og raun bar vitni. Þriðja daginn fjölgaði mjög í kennslustofu hans og vildu aðrir nemendur skólans nú ólmir taka þátt í tilrauninni. Þrettán nemendur bættust við þá þrjátíu sem fyrir voru og sýndu allir mikinn aga. Nemendur fengu félagsskírteini sem sýndi fram á að þeir væru meðlimir í Þriðju öldunni. Áður en dagurinn var úti voru yfir 200 nemendur komnir í hópinn. Jones lýsti því síðar að það hefði komið honum á óvart hversu einarðir nemendur voru. Sumir gengu svo langt að klaga aðra nemendur sem taldir voru brjóta gegn þeim reglum sem settar höfðu verið.

Hér má sjá kynningarplakat frá ABC-sjónvarpsstöðinni þar sem fjallað var um tilraunina.
Vakti athygli Hér má sjá kynningarplakat frá ABC-sjónvarpsstöðinni þar sem fjallað var um tilraunina.

Missti stjórnina

Jones ákvað fjórða daginn að binda enda á hreyfinguna því staðan var orðin þannig að hann hafði ekki lengur stjórn á nemendum sínum. Nemendur voru orðnir svo tengdir og hollir lögmálum Þriðju öldunnar að Jones leist ekki á blikuna. Hann brá á það ráð, í stað þess að tilkynna nemendum sínum að Aldan væri liðin tíð, að tilkynna nemendum að þeir væru hluti af stórri hreyfingu á landsvísu og daginn eftir, fimmta daginn, myndi leiðtogi hreyfingarinnar, sem jafnframt ætlaði að bjóða sig fram til forseta Bandaríkjanna, flytja ræðu til að tilkynna formlega um stofnun hreyfingarinnar. Átti þessi hreyfing að boða stórkostlegar pólitískar breytingar. Sagði Jones nemendum sínum að mæta á tiltekinn stað í skólanum á föstudeginum til að verða vitni að stofnun hreyfingarinnar.

„Þið hafið ekki gert annað en Þjóðverjar gerðu á nasistatímanum.“

Gerðu eins og Þjóðverjar gerðu

Föstudagurinn rann upp. Jones passaði vel upp á að aðeins meðlimir Þriðju öldunnar fengju aðgang að sal skólans þar sem yfirlýsingin átti að birtast. Stóðu fulltrúar hreyfingarinnar vörð við dyrnar svo engir aðrir kæmust inn. Átti þetta að færa „hinum útvöldu“ þá tilfinningu að þeir væru sérstakir. En í stað þess að hlusta á sjónvarpsávarp leiðtoga hreyfingarinnar mætti nemendum rugluð rás í sjónvarpinu. Eftir nokkurra mínútna bið birtist Jones þar sem hann tilkynnti nemendum að þeir væru hluti af tilraun um fasisma. Sagði hann að þróunin undanfarna daga hefði sýnt, svo ekki yrði um villst, að með því að beita ákveðnum aðferðum væri auðvelt að mynda fjöldahreyfingar líkt og gerðist í Þýskalandi á tímum nasistanna. Jones sagði að tilraun lokinni að nemendur hefðu talið að þeir væru útvaldir og betri en aðrir og með því hafi þeir skipt á frelsi og þægindum undirgefninnar, eins og það var orðað í umfjöllun Þjóðviljans um þetta athyglisverða mál árið 1976. „Þið hafið ekki gert annað en Þjóðverjar gerðu á nasistatímanum. Og þegar þið hafið skilið vel það sem hér hefur gerst, þá munuð þið heldur ekki kannast við að þið hafið tekið þátt í því – frekar en Þjóðverjar.“

Verkefnið gekk upp

Þessi tilraun Jones hefur reglulega skotið upp kollinum á undanförnum árum og áratugum og þá hafa fjölmargar bíómyndir verið gerðar um hana. Má þar nefna þýsku myndina Die Welle sem kom út árið 2008 og byggði á þessari tilraun. Vísindamenn hafa löngum deilt um tilraunina og hvað megi lesa úr henni. Sumir telja að tilraunin sýni að ungmenni á þessum tíma, þar sem internet og farsímar voru ekki komnir til sögunnar, hafi verið býsna móttækileg fyrir markvissum áhrifum og breytir þá engu hvaða aðferðum var beitt. Hitt er þó víst að Ron Jones tókst á skilvirkan hátt að fá nemendur sína til að velta vöngum yfir fasískum stjórnarháttum og má ljóst vera að nemendur hafi verið fróðari á eftir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við hættulegum efnum í umferð – Dauðsfall til rannsóknar

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við hættulegum efnum í umferð – Dauðsfall til rannsóknar
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Walker opnar sig – Erfitt samtal við Guardiola

Walker opnar sig – Erfitt samtal við Guardiola
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Snýr aftur til Bandaríkjanna

Snýr aftur til Bandaríkjanna
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Ákærður fyrir nauðgun – Notfærði sér yfirburði sína vegna aðstöðumunar

Ákærður fyrir nauðgun – Notfærði sér yfirburði sína vegna aðstöðumunar