Tveggja barna móðir, Rafaela Lamprou, hefur þénað hátt í eina milljón króna á því að selja brjóstamjólk á netinu. Rafaela, sem er 24 ára Kýpverji, fæddi soninn Anjelo fyrir sjö mánuðum. Óhætt er að segja að Anjelo fái nóg að drekka enda framleiðir Rafaela miklar umframbirgðir af brjóstamjólk.
Á þessum sjö mánuðum hefur Rafaela selt nærri 500 lítra af brjótamjólk til ókunnugra. Flestir í þeim hópi eru karlmenn sem stunda lyftingar og líkamsrækt af miklum krafti en einnig karlar sem hafa blæti fyrir mjólkinni.
Rafaela segir að til að byrja með hafi hún gefið mjólkina til mæðra sem sjálfar eigi erfitt með að mjólka. Þetta spurðist út og ekki leið á löngu þar til karlar fóru að biðja um hana. Þá hugsaði hún með sér að hún gæti alveg eins drýgt tekjurnar með því að selja hana.
Sjálf segir Rafaela að henni sé alveg sama um hvernig karlarnir noti mjólkina, þeir megi gera það í kynferðislegum tilgangi kjósi þeir að gera það. „Mér er alveg sama svo lengi sem þeir biðja mig ekki um að fækka fötum eða eitthvað slíkt.“
Rafaela segir að eiginmaður hennar sýni henni stuðning, hann sé ánægður ef hún er ánægð.
En hvers vegna vilja karlar sem stunda líkamsrækt af kappi kaupa brjóstamjólkina? Líklega hefur það eitthvað með það að gera að hún er hitaeiningaríkari en hefðbundin kúamjólk og auk þess stútfull af nauðsynlegum næringarefnum. Þá inniheldur hún hormón sem nauðsynleg eru börnum til að stækka. Þess má þó geta að vísindamenn hafa varað fólk við því að drekka brjóstamjólk sem það kaupir á netinu. Mjólkin getur innihaldið skaðlegar bakteríur.